Asísk nautaspjót

Gleðilega hvítasunnu! Í dag ákvað Emma að vakna fyrir allar aldir, sem hún tekur nú ekki oft uppá sem betur fer. Emma bauð mér í kaffiboð í herberginu sínu og var ég svo rukkuð nokkrar krónur fyrir, eða eins og hún segir „mikið peninga“! Við ætlum í kvöld til tengdó þar sem við ætlum að elda saman hrygg, brúna kartöflur og hafa allskonar gott meðlæti með. Emmu er búið að langa svo svakalega mikið í strætó nýlega svo við kannski skellum okkur einn hring í dag eða á morgun, annars eru engin önnur plön hjá okkur og mér finnst það voða notalegt.

Þessi réttur er ekta sumar grill matur sem er hægt að undirbúa kvöldinu áður og skella svo á grillið daginn eftir. Mamma gerði þennan rétt um daginn þegar hún bauð okkur í mat og ég varð að fá hjá henni uppskriftina.

 • 600 gr nautakjöt
 • 4 rauðar paprikur
 • 3 laukar

Marinering

 • 1 dl sojasósa
 • 1 msk púðursykur
 • 1 msk hrásykur
 • 1 tsk salt
 • pipar
 • 1/2 dl hvítvín
 • 1 msk rifinn engifer
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 msk fínsaxaður graslaukur

Blandið saman marineringunni og skerið kjötið í teninga. Leyfið kjötinu að liggja í marinerinunni í ísskáp í amk 2 klst. Skerið laukinn og paprikuna og setjið grænmetið og kjötið á grillprjón. Grillið á háum hita þar til kjötið er tilbúið.

Berið fram með hrísgrjónum, chilimajó, kóríander og grilluðu lime.

Avocado toast með chilismjöri

Ég átti mjög notalegan dag í dag. Ég keypti mér spegil sem mig er búið að langa lengi í frá Ferm Living í Epal í fyrradag. Hann var á 10% afslætti útaf lagerhreinsun hjá þeim sem er út morgundaginn minnir mig. Ég hengdi spegilinn upp í dag og breytti aðeins hérna heima í leiðinni. Það var svo gott að þrífa heimilið fyrir helgina og endurraða svo aðeins skrautmunum og breyta smá til. Ég pantaði loksins gardínur í vikunni svo það eru ca 3 vikur í þær og ég bara get ekki beðið. Það mun gjörbreyta íbúðinni að fá þær. Ég er svo spennt fyrir þessari löngu helgi framundan, við erum ekki með nein plön og ætlum bara að njóta saman fjölskyldan. Þessi uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur í dag er fullkomin lúxus morgunmatur/brönsréttur fyrir helgina.

Ég sá þessa uppskrift hjá einum uppáhalds matarbloggaranum mínum, Half Baked Harvest. Ég elska að fá mér avocado toast þá daga sem ég er í fríi og get byrjað morguninn hægt. Ég vissi að ég yrði að prófa þessa útgáfu af avo toast og ég held bara að þetta hafi verið eitt það besta sem ég hef smakkað.

 • Ristað súrdeigsbrauð, eða þitt uppáhalds brauð
 • avókadó, maukað
 • 4 egg
 • 1 dl rifinn ostur
 • 1 msk ólífuolía
 • 2 msk smjör
 • 1 hvítlauksrif, rifið eða pressað
 • 2 tsk chili flögur
 • 2 tsk paprikukrydd
 • salt og pipar

Byrjað er á að harðsjóða 4 egg. Þegar þau eru tilbúin eru þau stöppuð niður með ostinum svo osturinn bráðni saman við eggin. Bræðið smjör í potti með ólívuolíu og þegar smjörið er bráðið er hvítlauknum, chili flögunum og paprikukryddinu bætt útí og hrært vel. Leyfið þessu að sjóða saman í smá stund og slökkvið svo undir. Setjið avókadó á ristað brauð og svo eggjablönduna ofaná avókadóið. Hellið svo chilismjörinu yfir allt og njótið.

Kartöflur í hunangi og graslauk

Við fórum í mat til mömmu á laugardaginn. Bróðir minn kom heim eftir hálfs árs dvöl í Danmörku þar sem hann var í myndlistaskóla og við héldum upp á heimkomuna með matarboði. Mamma var með svo ótrúlega góðan mat að ég ákvað að nýta tækifærið og mynda hann og setja uppskriftirnar hingað inn. Þetta eru sjúklega góðar kartöflur og þær eru mjög auðveldar í framkvæmd. Ég mæli með að prófa þessar!

 • 1 kg kartöflur
 • 2 msk balsamik edik
 • 1 msk ólífuolía
 • 1 msk hunang
 • 1 hvítlauksrif, pressað eða rifið
 • salt og pipar
 • 0.5 dl graslaukur, fínsaxað
 • 0.5 dl rauðlaukur, fínsaxað

Hitið ofninn í 200°. Blandið saman balsamik edik, ólífuolíu, hunangi, hvítlauksrifi, salti og pipar. Veltið kartöflunum uppúr blöndunni og setjið inn í ofn í 40-45 mínútur. Snúið kartöflunum 3 sinnum á meðan þær eru að eldast. Stráið yfir graslauknum, rauðlauknum og smá grófu salti þegar kartöflurnar eru tilbúnar og berið fram.

Pretzel súkkulaðibitakökur

Þessa uppskrift sá ég á Tiktok og ég bara varð að prófa. Ég hafði mömmu og Hemma í huga þegar ég sá þessa uppskrift því þau elska pretzels, bæði mjúkar og harðar. Ég er ekki svo hrifin af þessum hörðu, sem eru eins og saltstangir. En þær voru samt mjög góðar í þessum kökum. Ég keypti þær í snakkdeildinni í Bónus en þær eru alveg til í flestum búðum. Kökurnar eru með svipaða áferð og subway kökurnar, mjúkar í miðjuni en samt gefur pretzelið smá crunch. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessar!

Þessi uppskrift er frekar stór, eða gefur um 30 kökur.

 • 340 gr smjör
 • 470 ml púðursykur
 • 2 egg + 2 eggjarauður
 • 700 gr hveiti
 • 1 1/2 tsk matarsódi
 • 2 tsk salt
 • 2 plötur af suðusúkkulaði
 • 2-3 dl pretzel
 • sjávarsalt

Byrjið á því að brúna smjörið á pönnu. Það gerir kökurnar svo extra góðar, hrærið í smjörinu á pönnunni þar til það byrjar að freyða og brúnast. Slökkvið þá undir og leyfið smjörinu aðeins að kólna. Þegar smjörið er kólnað er púðursykrinum og smjörinu hrært vel saman. Eggjunum og rauðunum er svo bætt útí smjörblönduna og hrært vel saman við. Í aðra skál er hveitinu, matarsódanum og saltinu hrært saman. Bætið fyrst helmingnum af hveitiblöndunni í smjörblönduna og hrærið saman og svo restinni af hveitinu. Passið að hræra ekki of mikið. Hellið svo súkkulaðinu grófsöxuðu og pretzel ofaní, ég muldi pretzelið smá en vildi samt hafa það frekar gróft. Blandið súkkulaðinu og pretzelinu saman við deigið og leyfið deiginu að standa í kæli í amk 30 mínútur, því lengur því betra. Myndið kúlur úr deiginu og bakið í miðjum ofni á 175° í 11-13 mínútur. Stráið sjávarsalti yfir og leyfið kökunum að kólna.

Breytingar heima

Þið sem eruð að fylgja mér á Instagram hafið líklegast eitthvað séð að við erum búin að vera í smá „framkvæmdum“ ef það má orða það þannig heima. Við keyptum okkur nýjan sófa eins og ég sagði frá í síðustu færslu og smá update: naglalakkið náðist úr haha. En við sem sagt fengum okkur nýjan sófa sem gjörbreytti stofunni og birti hana þvílíkt. Við skiptum líka um mottu og hún var mjög ódýr úr Ikea. Það er svo fyndið því það berst nánast alltaf til tals hvað mottan sé flott þegar einhver kemur í heimsókn til okkar og það kemur mörgum á óvart að hún sé úr Ikea. Við keyptum okkur nýtt sófaborð sem mig er búið að langa í í 2 ár núna. Ég sýndi frá því í einum óskalistanum sem ég gerði hérna á blogginu en ég skal setja inn aðra mynd af því hér, ég get ekki beðið eftir að það komi loksins en það geta verið 10 vikur í það!

Þetta er borðið, ég elska hvað það er klassískt og einfalt. Ég er með svart ljós yfir borðstofuborðinu og fæturnir á stofuborðinu munu passa vel við það. Ýttu hér fyrir link að borðinu. Ýttu hér fyrir link að sófanum. Ýttu hér fyrir link að mottunni.

Við erum núna að panta gardínur. Ég pantaði núna fyrir sumarið myrkvunargardínur í herbergin frá Álnabæ, það voru ennþá þær sem fylgdu íbúðinni og það voru rimlar. Ég bölvaði þeim allt fyrrasumar þar sem við gátum varla sofið fyrir birtu svo ég ákvað að vera snemma í því að panta núna fyrir þetta sumar. Núna er næst á dagskrá að panta gardínur fram í alrými. Mig langar í fallegar wave gardínur úr eins og hörlíki. Ég fann fyrirtæki í gegnum Instagram, gloryblindsiceland, og sendi á það að biðja um tilboð og ég fékk alveg geggjaða þjónustu. Það kom maður hingað frítt að mæla og kom með prufur sem ég fékk lánaðar yfir helgi. Verðið sem ég fékk fannst mér mjög sanngjarnt, sem skemmdi ekki fyrir. Ég setti inn á Instagram story í gær könnun um hvernig lit ég eigi að fá mér því ég er búin að vera að flakka á milli þess að fá mér hvítar eða beige. Ég held það sé komin lending núna, að ég velji beige. Ég get ekki beðið eftir að sjá útkomuna og mun að sjálfsögðu deila öllu hér.

Við náðum okkur líka í flísaprufur í Birgisson fyrir baðherbergið. Við erum í smá dilemmu með hvort við ættum að taka í gegn fyrst, eldhúsið eða baðherbergið. Bæði virka fullkomlega, bara smekksatriði frekar svo það liggur ekki á neinu. Ég hallast meira að því að gera eldhúsið því það er að mínu mati hjarta heimilisins og alltaf til sýnis en Oliver vill frekar byrja á baðinu. Ég er eiginlega búin að ákveða allt fyrir baðið og sé alveg fyrir mér allt svo það er kannski betra að byrja bara á því afþví að ég get ekki ákveðið í hvaða stefnu ég vil fara með eldhúsið, ég flakka á milli þess að vilja svart og hvítt.

Þetta er orðin svakaleg langloka hjá mér. Það verður greinilega nóg að gera í heimilsmálum á næstunni. Ég set mikið inn á Instagram og ætla að reyna að vera dugleg að pósta hingað inn líka af þeim málum. Ég er með margt á óskalista núna svo ég kannski hendi í slíkan hérna bráðum. Ég er búin að vera að prófa líka nokkrar uppskriftir svo þið megið eiga von á nokkrum nýjum núna næstu daga.

Pink Lemonade bolla

Í dag var ég í fríi í vinnunni og Emma var í fríi í leikskólanum vegna starfsdags. Við Emma fórum með vinkonum mínum í sveitina þar sem ein vinkona okkar býr með fjölskyldunni sinni í heimsókn. Þar voru beljur, hestar, kindur, hundur og litlir kettlingar.

Það var svo skemmtilegt hjá okkur í dag, Emma var alveg í skýjunum með daginn. Það er farið að vera svo gott veður, það stóð hæst 17° á mælinum í dag. Það var svo gott að komast aðeins út fyrir bæinn og vera úti í náttúrunni. Ég var með mígreni á fimmtudaginn og svo aftur í gær svo ég var mjög fegin að vera laus við það í dag og geta notið dagsins almennilega.

Ef þið eruð að fylgja mér á Instagram þá sáuð þið eflaust að ég hélt uppá afmælið mitt um helgina. Ég er algört afmælisbarn og elska að halda uppá og skipuleggja afmæli, ekki skemmdi heldur fyrir að það var Eurovision og svo kosningar. Þetta var svakaleg helgi. Ég var með svo sumarlega bollu í afmælinu sem ég fékk nokkrar fyrirspurnir um á Instagram. Ég ætla að deila uppskriftinni af henni hérna fyrir neðan. Það er kannski spes að vera að deila bolluuppskrift á mánudegi, en ég meina þá er hægt að græja það sem þarf í hana í vikunni og græja hana um helgina.

 • 3 sítrónur skornar í sneiðar
 • 2 dl vodka
 • 1 freyðivíns flaska, ég notaði Asti Gancia
 • 1 flaska límonaði
 • 2 dl hindberjasíróp
 • Nóg af klökum

Öllu hellt í stóra skál eða svona drykkjarílát eins og ég er með hérna á myndinni fyrir ofan og hrært varlega saman.

Brownies

Gleðilegan mæðradag! Ég fékk að sofa út í morgun, mjög næs. Oliver fór fram með Emmu að sinna henni, ég hafði verið að baka langt fram á kvöld kvöldinu áður og hafði skilið eftir hrærivélaskálina í vaskinum. Oliver ákvað að vaska hana bara upp snöggvast svo að ég kæmi fram í allt hreint. Á meðan Oliver snéri sér við í mesta lagi 5 mínútur ákvað litla uppátækjasama Emma, við erum byrjuð að kalla hana Lottu, eftir Lottu í Skarkalagötu, að naglalakka sig. Hún bara fór og náði sér í naglalakk og hellti því yfir sig alla og í sófann! Það var sem betur fer glært naglalakkið sem hún valdi sér, en sófinn sem er ekki vikugamall er kominn með naglalakksblett í sig, alveg frábær byrjun á mæðradeginum haha.

Ég þarf því í dag að leita leiða til þess að ná þessu úr sófanum, ég þori ekki alveg að nota hvað sem er á hann. Við semsagt erum búin að vera með sama sófa heima síðan við bjuggum heima hjá mömmu. Mjög ljótur svefnsófi sem við fluttum bara með okkur hingað í nóvember 2020 því við vorum ekki búin að ákveða hvernig sófa okkur langaði í. Svo fundum við loksins sófa og þá var hann uppseldur og var það þar til núna einu og hálfu ári síðar. Ég var svo ánægð og keypti mér á sama tíma nýja mottu og nýtt sófaborð. Ég sýni betur frá þessu öllu þegar sófaborðið er komið, en það getur tekið alveg 14 vikur að koma. Ég hef þá smá tíma til þess að reyna að ná naglalakkinu úr.

 • 275 gr púðursykur
 • 3 egg
 • 185 gr suðusúkkulaði
 • 185 gr smjör
 • 80 gr hveiti
 • 40 gr kakó

Byrjað er á að þeyta saman púðursykur og egg. Síðan er smjörið og suðusúkkulaðið brætt saman og hellt útí eggjablönduna og blandað saman. Sigtið svo hveiti og kakó í líka og hrærið saman. Grófsaxið súkkulaði af eigin vali, ég saxaði niður restina af suðusúkkulaðinu og blandið í deigið. Bakið á 180° í 25 mínútur.

Trufflu-parmesan kramdar kartöflur

Á þriðjudaginn átti ég afmæli. Ég elska að eiga afmæli, reyndar elska ég bara afmæli yfir höfuð. Ég bauð mömmu, manninum hennar og bróður mínum í mat. Við grilluðum og höfðum það notalegt saman. Ég átti æðislegt kvöld með þeim. Ég fékk margar fínar gjafir, ég fékk nýja hlaupaskó, ræktarföt og kökuhníf sem var búinn að vera á óskalistanum til þess að nefna nokkra hluti. Svo mætti Hanna vinkona með gjöf handa mér í vinnuna, hún gaf mér kerti sem er búið að vera á óskalistanum mínum lengi úr Dimm, það er svo góð lykt af því. Ég er kertasjúk og þetta kerti setti ég á einn óskalistann hérna á blogginu. Ég ætla að halda svo almennilega uppá afmælið mitt seinna í mánuðnum þegar allir eru búnir í prófum og svona.

Við Oliver vorum með heima-deit á laugardagskvöldið fyrir afmælið mitt. Emma vildi gista hjá ömmu sinni og við ákváðum að vera bara heima í rólegheitum og slaka á þar sem við vorum ennþá þreytt eftir að hafa verið nýkomin heim frá Bandaríkjunum 2 dögum áður. Við keyptum kjúkling í marineringu og skelltum á grillið og höfðum svo aspas og kartöflur með. Ég er að elska góða veðrið sem er loksins komið, nú er hægt að fara að grilla og nota nýja Ooni ofninn. Ég setti inn á instagram mynd af kartöflunum sem ég hafði með og fékk nokkrar beiðnir um uppskrift svo ég ákvað að henda henni bara hingað inn. Mælieiningarnar í þessari uppskrift eru alls ekki heilagar, aðlagið bara að ykkar þörfum og hvað ykkur finnst gott.

 • 1 kg kartöflur
 • 100 gr smjör
 • 4 hvítlauksrif
 • 1 msk truffluolía
 • parmesan
 • salt og pipar

Byrjað er á að sjóða kartöflur þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn. Þá er ofninn hitaður í 200°. Setjið kartöflurnar á bökunarplötu og notið botn á glasi til þess að kremja þær niður. Bræðið smjör og pressið hvítlauksrifunum út í smjörið og blandið saman. Leyfið smjörinu aðeins að standa og fá í sig hvítlauksbragðið áður en smjörinu er penslað yfir kartöflurnar. Kryddið með salt og pipar og setjið í ofninn í 10 mínútur. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum er truffluolíunni hellt yfir og að lokum parmesan rifinn yfir.

Síðustu dagar

Jæja, ég veit bara ekki hvar ég á að byrja, það er orðið svo langt síðan ég bloggaði síðast. Við fjölskyldan erum búin að vera síðustu tvær vikur í algjörri slökun í Orlando. Það var sjúklega næs að bara slaka á í sólinni og vera með fjölskyldunni. Við fórum 9 saman og vorum öll í sama húsinu, það var ótrúlega notalegt. Þetta var fyrsta utanlandsferðin hennar Emmu og við erum ennþá bara ekki að trúa hvað allt ferðalagið gekk vel með hana. Hún var svo dugleg að sofa í fluginu sem betur fer því þetta er 8 tíma flug.

Við komum svo heim í gærmorgun eftir næturflug. Það er alltaf svo gott að koma aftur heim eftir svona frí og fara í sína sturtu og sofa í sínu rúmi. Ég er í dag bara að dunda mér að ganga frá öllu dótinu sem við keyptum og þvo þvott. Emma fór í leikskólan í dag og Oliver í vinnuna. Emma var svo spennt að komast í leikskólan aftur að hitta alla krakkana að hún mátti varla vera að því að kveðja mig í morgun..

Ég hafði ætlað mér að setja inn apríl óskalista eins og ég vil byrja að gera mánaðarlega hérna á blogginu en ég er bara nýkomin heim úr verslunarferð þar sem var keypt allt of mikið af dóti svo ég er mjög hugmyndarsnauð af hlutum sem eru á óskalistanum þessa stundina. Ég á afmæli núna á þriðjudaginn og ég verslaði mér nokkrar gjafir sjálf úti. Ég er búin að vera dugleg að sýna frá ýmsu sem ég keypti úti á Instagram. Svo er ég með Florida highlight á Instagram hjá mér ef þið hafið áhuga á að skoða það. Ég mun líklegast sýna eitthvað frá afmælisundirbúning á þar líka.

Ég er spennt að vera komin heim í eldhúsið mitt og geta byrjað að setja uppskriftir hingað inn aftur. Ég keypti mér nokkrar uppskriftabækur úti sem ég er spennt að prófa að elda uppúr, kannski enda einhverjar hér ef þær eru góðar. Ég vildi bara setja smá innlegg hérna inn eða uppfærslu, ég ætla ekkert að hafa þetta eitthvað mikið lengra. Takk fyrir að lesa, mér þykir voða vænt um að sjá að margir eru að lesa bloggið þótt ég hafi ekki sett neitt inn í rúmlega tvær vikur.

Jarðaberja-Daim terta

Þessi kaka er fullkomin núna þegar er loksins farið að vora. Ég enduruppgötvaði á dögunum Silvíukökuna, sem er á blogginu, uppskrift hér. Ég bakaði hana í vinnunni tvisvar við miklar undirtektir, hún er svo létt og góð og allt öðruvísi en venjulegar kökur. Mér datt í hug að það gæti verið gott að gera smá tvist á Silvíuköku uppskriftina með því að breyta kreminu ofaná. Það heppnaðist bara ótrúlega vel og úr varð fullkomin vor/sumarkaka. Á sumrin í Svíþjóð er mikið boðið uppá jarðaberjatertur og finnst mér þessi uppskrift minna mig á svoleiðis.

 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 1 dl vatn
 • 2 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft

Byrjað er á að þeyta saman egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið saman við vatninu og hækkið á kraftinum í hrærivélinni. Þegar þetta er allt orðið vel blandað þá er lækkað aftur í hrærivélinni og hveitinu og lyftiduftinu er bætt saman við. Hellið deiginu í smurt hringform og bakið við 175° í 30 mínútur.

 • 2 dl rjómi
 • 1 msk vanilludropar
 • 3 Daim stykki
 • 1 askja jarðaber

Þeytið rjómann og vanilludropa þar til rjóminn er farinn að mynda toppa. Fínsaxið Daim og jarðaber og hrærið varlega saman við rjómann með sleif. Dreifið yfir kökuna þegar hún er alveg búin að kólna og njótið.