Gleðilega Þorláksmessu! Nú er bara einn dagur eftir af færsludagatalinu mínu. Þetta er búið að vera svo skemmtilegt og mikil áskorun en tókst með góðum árangri þótt ég segi sjálf frá. Ég bauð mömmu og tvíburunum til mín í hádeginu í tartalettur sem slógu svo sannarlega í gegn. Ég er búin að þrífa heima og setja nýtt á rúmin. Ég hlakka svo til að fara í jólanáttfötin með fjölskyldunni minni, búa til heitt súkkulaði og horfa á Christmas Vacation. Það er okkar Þorláksmessuhefð, við horfum alltaf á Christmas Vacation þá, það er algjört must! Ég passa að horfa alls ekki á hana fyrr.

Hangikjöts tartalettur
- 200 gr hangikjöt
- 1 dós grænar baunir
- 2 msk hveiti
- 2 msk smjör
- nýmjólk
- salt og hvítur pipar
- músgat
Byrjað á því að bræða smjör í potti og hræra hveitnu saman við. Bætið smátt og smátt við mjólk og hrærið saman við hveitiblönduna. Ekki gera uppstúfinn og þykkan. Þegar hann er orðin passlega þykkur er slökkt undir. Þá er kryddað eftir smekk og bætt við baununum og hangikjötinu. Setjið blönduna í tartalettur og hitið í ofni í nokkrar mínútur til þess að tartaletturnar hitni aðeins. Ég var með þær á 160° í nokkrar mínútur.

Skinku og aspas tartalettur
- 1 sveppa smurostur
- 1 dl rjómi
- 1 skinkupakki
- 1 aspasdós
- rifinn ostur
Setjið smurostinn og rjómann saman í pott og hrærið saman. Bætið rjóma við ef blandan er of þykk. Setjið smá af aspassafanum saman við. Bætið svo aspasinum og skinkunni við smurostablönduna og hrærið saman. Setjið í tartalettur og rifinn ost ofaná. Setjið í ofninn í nokkrar mínútur.
Ein athugasemd á “Tartalettur”