Satay kjúklingasalat

Við systkinin áttum okkur uppáhalds mat þegar við vorum börn og var það án efa þetta kjúklingasalat. Ég man eftir að hafa drifið mig að borða svo ég myndi ná öðrum skammti á undan bræðrum mínum. Ég geri salatið oft en það er samt alltaf best hjá mömmu. Það er auðvelt að búa til og fljótlegt sem er alltaf kostur en svo er það bæði hollt og gott. Mér finnst möst að bera salatið fram með naan brauði.

 • kjúklingabringur
 • Satay sósa ( mér þykir frá Thai choice langbest)
 • kúskús
 • spínat (eða annað gott salat)
 • rauðlaukur
 • rauð paprika
 • kirsuberjatómatar
 • avokadó
 • salthnetur
 • fetaostur

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Hellið satay sósunni yfir og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum á pakka. Mér þykir gott að setja hálfan grænmetis- eða kjúklingatening í vatnið.

Skerið papriku og rauðlauk í strimla, kirsuberjatómata í tvennt og avokadó í sneiðar.

Setjið spínat í botninn á fati. Dreifið úr kúskúsinu yfir og setjið kjúklinginn yfir kúskúsið ásamt sósunni (geymið restina af sósunni). Stráið papriku, rauðlauk, kirsuberjatómötum, avokadó og fetaosti ásamt smá af olíunni yfir. Dreifið að lokum salthnetum yfir. Setjið það sem var eftir af satay sósunni í skál og berið fram með.

Síðustu dagar – Manchester

Það er búið að vera nóg um að vera, við komum heim á mánudaginn frá Manchester. Við fórum bara tvö sem var ótrúlega notalegt en það voru komin 4 ár frá síðustu paraferðinni okkar. Við fórum á Manchester United leik, ég hafði aldrei farið áður og það var mjög skemmtilegt. Við fórum líka á fótboltasafn sem hét National Football Museum sem var mjög áhugavert. Ég verð svo að mæla með mjög sjarmerandi ítölskum stað sem við borðuðum á síðasta kvöldið okkar sem heitir Vincenzo Trattoria. Það var mjög notalegt andrúmsloftið þarna og matseðillinn góður.

Það var mjög gaman í Manchester og við vorum bara að borða góðan mat og aðeins að versla. Það var svo gott að koma heim að knúsa Emmu okkar, hinsvegar var ekki svo gaman að koma aftur í mikið frost og við höfðum óvart skilið eftir óopnaða appelsíndós í bílnum. Hún hafði sprungið yfir allan bílinn í frostinu og bíllinn var allur klístraður!

Maturinn á Vincenzo Trattoria.

Ég ætla að sýna ykkur nokkra hluti sem ég keypti mér úti. Ég er að fara út til Stokkhólms með Hönnu vinkonu minni eftir rúman mánuð og það verður almennileg verslunarferð, þess vegna var ég meðvituð að vera ekki að versla neitt mikið í þessari ferð sem við vorum í núna.

Adanola jogginggalli – Mig er búið að langa í þennan lengi, ég elska jogginggalla. Ég sá þennan í Selfridges og það kom mér á óvart hvað hann var á góðu verði miðað við gæðin, hann er þykkur og góður.

Lulu lemon brúsi – Ég var búin að sjá fólk mæla með þessum brúsa á Tiktok og þegar ég sá hann í þessum geggjaða bleika lit í búðinni þá vissi ég að ég yrði að eignast hann. Ég er brúsasjúk og er með nokkrar kröfur á þá, þessi uppfyllir þær allar: úr stáli (heldur köldu lengi), með röri finnst mér möst en hann var til hinsegin fyrir þá sem fýla ekki rör og svo eitt mikilvægasta að hann passi í glasahaldara í bílnum og í ræktinni, þoli ekki brúsa sem eru of stórir fyrir þá.

Sol De Janeiro bodyspray – Ég sá þetta í Selfridges til í nr. 62 og 68 og ég keypti bæði um leið. Ég var búin að reyna að panta mér þau en það má víst ekki senda ilmvötn til Íslands og svo voru þau uppseld hjá Maí. Lyktin nr. 62 er sjúklega góð, ég get alveg mælt 100% með henni, hin er líka mjög góð en 62 er meira ég.

Laneige varasalvi – Ég sá þennan líka og ákvað að prófa, so far so good!

Síðan mátaði ég skó drauma minna og var næstum búin að láta eftir en gerði það ekki. Ég heimsótti skóna alla dagana sem við vorum úti, er í sjokki yfir aganum hjá mér! Það er spurning hvort þeir fylgi mér heim frá Stokkhólmi eða hvað gerist.

Marineruð epli

Þegar ég var yngri gerði mamma stundum þessi marineruðu epli fyrir okkur systkinin. Okkur fannst þetta svo gott að við kláruðum þetta á nokkrum sekúndum. Ég mundi allt í einu eftir þessu um daginn og ákvað að prófa að gera fyrir Emmu. Emma gaf þessu topp einkunn og fær þetta því að koma hérna inn. Ég gerði einn skammt af þessu fyrir mig líka og er búin að vera að fá mér í dag, þetta er svo ferskt og gott og tekur engan tíma að undirbúa.

 • 2 fuji epli
 • 1 appelsína
 • 1 sítróna

Skerið eplin í örþunnar sneiðar. Raðið sneiðunum í skál eða djúpan disk. Kreistið safann úr appelsínunni og sítrónunni í skál og blandið saman. Hellið yfir eplin og passið að þau séu alveg í safanum. Geymið í ísskáp og leyfið að vera í amk 30 mínútur áður en borið er fram. Hellið þá vökvanum af eplunum og berið þannig fram.

Febrúar óskalisti

Vá hvað febrúar er búinn að líða hratt, sérstaklega miðað við hvað janúar var endalaus. Það er margt spennandi framundan hjá okkur en ég á bókaðar þrjár utanlandsferðir næstu 3 mánuði. Ég er að fara til Manchester í mars, ég hef aldrei komið þangað áður þannig ég er mjög spennt, síðan er ég að fara til Stokkhólms í apríl og svo Köben í maí. Það verður rosa fjör og ég get ekki beðið! Ég er farin að skrifa hjá mér eitt og annað sem mig langar til þess að kaupa mér úti, það verður gaman að deila því hér.

Ég man ekki hvort ég hafi sagt frá því á blogginu að við keyptum okkur loksins flísar í forstofuna og þvottahúsið. Við ætlum að byrja á að græja forstofuna en mér finnst skemmtilegra að hafa hana fína, það fyrsta sem fólk sér þegar það kemur í heimsókn. Við keyptum flísarnar hjá Álfaborg og þær eru akkúrat eins og ég vildi hafa þær. Ég er spennt að skipta flísunum út og hengja upp snagana frá Vigt loksins. Ég hlakka mikið til að sýna ykkur lokaútkomuna og fyrir og eftir myndir, þið getið svo fylgst með þessum framkvæmdum betur á Instagram hjá mér ef þið viljið.

Ég ætla að deila með ykkur febrúar óskalistanum mínum.

Jakobsdahls hliðarborð – mig er búið að langa lengi í þetta hliðarborð, mér finnst það passa fullkomlega inná okkar heimili

Skóhilla úr Línunni – mér finnst þessi vera ótrúlega falleg og myndi passa vel inní forstofu hjá okkur.

Lulu lemon æfingarsett – efst á óskalistanum fyrir sjálfa mig eru ný föt í ræktina og ég ætla að kaupa mér þegar ég fer út.

Verpan loftljós – mér finnst þetta ljós tryllt en ég hef því miður engan stað fyrir það, annars færi það beint í körfu.

Djerf Avenue sloppur – eða bara allt frá Djerf Avenue, ég er mega skotin í Matilda Djerf, eiganda Djerf Avenue, þessa dagana, hún er sænsk þannig væntanlega er hún æði.

Ferðatöskur – talandi um að ferðast þá á ég engar ferðatöskur, bara handfarangurstöskur, svo ég væri til í að eignast mínar eigin. Helst í fallegum lit svo maður þekki þær frekar á töskubandinu.

Basiliku parmesan pasta

Gleðilegan konudag! Ég vona að allar þið konur hafið átt æðislegan dag í dag og það hafi verið dekrað mikið við ykkur. Á morgun er einn besti dagur ársins að mínu mati. Ég elska bolludaginn, mér finnst þessir bolludags-mánudagar líklega bestu mánudagar sem til eru. Mér finnst langbestu bollurnar vera klassískar vatnsdeigsbollur með súkkulaðiglassúr, sultu og rjóma. Ég er búin að kaupa allt í bolludagskaffi á morgun en er líka búin að fá mér núna um helgina.

Í gær fór ég í afmæli til Auðar Hrannar, vinkonu minnar og það var ótrúlega skemmtilegt. Ég kom ekki heim frá henni fyrr en klukkan var orðin hálf þrjú og svaf því vel út í morgun sem var ótrúlega notalegt.

Ég ákvað að biðja mömmu um uppskrift að ótrúlega góðu pasta sem hún bauð uppá í síðasta frænkuhitting svo ég gæti sett inn á bloggið. Pastað fékk góð meðmæli frænknanna og hér kemur uppskriftin.

 • 450-500 gr kjúklingabringur
 • 100 gr brauðrasp
 • 350 gr parmesan
 • 1/2 tsk lauk krydd
 • 3 msk ólífuolía
 • salt og pipar
 • 450 gr spagetti
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 msk smjör
 • 350 ml fersk basilika
 • salt og pipar
 • chiliflögur
 • 500 ml kjúklingasoð (chicken broth)
 • 175 ml rjómi
 • 1/2 dl rjómaostur
 • prosciutto
 • 2 lúkur af ruccola
 • safi úr einni sítrónu
 • 2 msk steinselja

Blandið raspinu, 100 gr af parmesan og lauk kryddinu í skál. Þrýstið kjúklingnum ofaní blönduna svo blandan festist vel við allar hliðar á kjúklingnum. Gott er að berja bringurnar niður eða skera þær þversum til þess að fá þær þynnri og jafnari svo þær eldist jafnt.

Sjóðið vatn í potti og bætið við vænni lúku af salti. Sjóðið spagetti eftir leiðbeiningum.

Hitið pönnu og hellið 1 msk af ólífuolíu út á pönnuna. Saxið hvítlauk og steikið hann á miðlungsháum hita þar til hann fær góðann lit. Bætið þá smjörinu og basilikuni, fínsaxaðri, út á. Kryddið með salti, pipar og smá chiliflögum. Bætið soðinu og rjómanum út á og síðan rjómaostinum. Pískið saman og leyfið suðu að koma upp og látið malla í 5-8 mínútur þar til sósan þykknar.

Hitið pönnu með 2 msk a ólífuolíu og steikið kjúklinginn á hvorri hlið í 4 mínútur eða þar til hann fær fallegan lit og er eldaður í gegn. Skerið hann svo í strimla og stráið grófu salti yfir. Steikið hráskinkuna í 1 mínútu til að hita hana.

Bætið restinni af parmesan ostinum í sósuna og hrærið saman við, bætið pastanu ofaní og hrærið saman við. Bætið steinseljunni saman við. Berið pastað fram með kjúklingnum og hráskinkunni ofaná ásamt ruccola með smá ólífuolíu og sítrónusafa. Berið réttinn fram með parmesan og hvítlauksbrauði.

Lu ostakaka

Ég elska ostakökur en ég elska líka einfalda og fljótlega rétti og er þessi eftirréttur því fullkominn. Þessa prófaði ég að gera um daginn og var ótrúlega ánægð með afraksturinn. Mér finnst þessi uppskrift alveg ekta fyrir matarboð eða saumaklúbb til dæmis. Ég var kannski korter í heildina að búa ostakökuna til og svo er hún bara geymd í kæli svo það er alveg hægt að gera hana snemma og þurfa ekki að vera í neinu stressi ef maður er að bjóða uppá hana í boði.

Við áttum erfiða síðustu viku en við Oliver urðum bæði veik og á sama tíma misstum við elsku ömmu hans Olivers sem við vorum rosalega náin. Það sem huggar eru allar góðu minningarnar sem við áttum saman. Hún og Emma voru rosalega miklar vinkonur, þegar ég var með Emmu litla í fæðingarorlofi tók hún Emmu til sín alla miðvikudaga svo að ég gæti fengið tíma fyrir sjálfa mig. Hún var minn mesti peppari hvað varðaði þetta blogg og sendi mér skilaboð eftir hverja einustu færslu sem ég setti inn, hvað allt væri girnilegt hjá mér. Ég mun sakna hennar rosalega mikið og hugsa til hennar með mikilli hlýju, sérstaklega þegar ég fæ mér sætindi með rjóma en það kunni hún vel að meta, eins og ég.

 • 1 pakki Royal vanillubúðingur
 • 1 bolli mjólk
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
 • 200 g rjómaostur
 • 1 bolli flórsykur
 • 2 kassar Lu kex

Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ísskáp í 5 mínútur. Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annari skál. Þeytið rjómann. Blandið þessu öllu saman í eina skál. Myljið kexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!). Setjið til skiptist í skál kex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram. Hægt er að gera kökuna með miklum fyrirvara þar sem hún er sett í frysti.

Ég hef líka mulið kexið og sett í litlar skálar, sett svo ostakökublönduna yfir og toppað svo með kexi og geymt bara inni í ísskáp, það er líka mjög fallegt og lekkert á borði.

Brie snittur

Ég bauð mömmu í heimsókn um daginn og vildi hafa eitthvað einfalt en gott þegar hún kæmi. Ég fann þessa uppskrift á Pinterest og ákvað að prófa. Við mæðgur urðum ekki fyrir vonbrigðum með útkomuna, þessar snittur væru fullkomnar sem forréttur í matarboði, í saumaklúbbnum eða sem föstudagskvölds snarl. Ég mæli með að prófa þessar.

Við fórum í gær á stúss og nýttum daginn rosalega vel. Við byrjuðum í Ikea að kaupa skipulagsbox fyrir dótið hennar Emmu, síðan fórum við í Álfaborg og keyptum flísar fyrir forstofuna sem við ætlum að fara að græja á næstunni. Við fórum svo í Byko að skoða allskonar fyrir baðherbergið okkar og síðan heim að taka geymsluna í gegn, hún þurfti mjög mikið á því að halda. Við vorum í marga tíma að sortera og flokka geymsluna og núna er hún rosa fín, ég vona að hún haldist þannig aðeins.

 • snittubrauð
 • brie ostur
 • ólífuolía
 • hráskinka
 • sulta
 • valhnetur

Byrjið á því að dreifa smá ólífuolíu yfir skorið snittubrauðið og bakið í ofni við 220° þar til það er komið með fallegan lit og er búið að ristast aðeins. Skerið Brie ostinn í þunnar sneiðar og leggið á snittubrauðin. rúllið hráskinkunni upp og festið með tannstöngli á brauðið. Dreifið sultunni yfir, ég notaði Cranberry and blueberry frá St. Dalfour og söxuðum valhnetum, gott er að þurrrista þær fyrst. Berið strax fram.

Afmælið hennar Emmu

Í gær héldum við uppá 3 ára afmælið hennar Emmu. Það var ótrúlega skemmtilegt, hún vildi hafa prinsessuþema og valdi prinsessu skraut og var í prinsessukjól. Emma sagði eftir daginn að henni hafi þótt dagurinn ótrúlega skemmtilegur og að hún vildi eiga afmæli á hverjum degi. Hún á svo afmæli á þriðjudaginn og þá ætlum við að fara með hana á Hamborgarafabrikkuna. Ég vildi hafa afmælið hennar mjög afslappað og hafa góðar klassískar veitingar. Ég var fimmtudag og föstudag bara að dunda mér að undirbúa fyrir afmælið sem var ótrúlega notalegt. Ég bauð uppá rúllubrauð með skinku og aspasblöndu, marengsstaf, kirsuberjaköku, skúffuköku sem Emma skreytti, kökupinna og pulsu broddgölt.

Skúffukakan sem ég gerði er kaka sem ég elska en það er uppskrift frá Evu Laufey sem hún er með í highlights hjá sér á instagram. Margir í afmælinu tóku strax eftir puslu broddgeltinum en ég ákvað að gera hann fyrir afmælið því hann er ekta barnaafmælis „réttur“ en hann er mjög oft í sænskum barnaafmælum, hann sló heldur betur í gegn og ég mæli með að gera svona í næsta barnaafmæli.

Broddgölturinn er mjög einfaldur en það þarf bara að gera kartöflumús, hvaða kartöflumús sem er en ég mæli auðvitað með þessari hérna. Svo er kartöflumúsinni skellt á fat og skeið rennt yfir hana til að móta hana og gera kúpta. Svo er soðnum eða steiktum kokteilpulsum þrýst í hana, eins og broddgöltur. Borið fram með tómatsósu.

Kirsuberjakakan er sjúklega góð og ég hef oft beðið mömmu um að baka hana fyrir mig, ein af mínum uppáhalds kökum. Mamma bakaði hana fyrir afmælið og hún vakti mikla lukku. Uppskriftin er hér.

Ég gerði svo marengsstaf fyrir afmælið hennar Emmu og afmælið hjá Aþenu, vinkonu Emmu sem varð þriggja ára síðustu helgi. Uppskriftin er hér.

Janúar óskalisti

Ég held að það sé kominn tími á janúar óskalistann. Ég er alltaf hangandi yfir netverslunum á kvöldin og skoða mikið fyrir heimilið en það er ennþá margt sem á eftir að gera hérna heima, eða margt sem mig langar að gera réttara sagt. Það er eitthvað af þessum hlutum á óskalistanum á afslætti núna svo ég má til með að deila þeim með ykkur núna. Það er aldrei að vita hvort eitthvað af þessu rati heim til mín óvart á næstunni.

Emma verður 3 ára á þriðjudaginn, hún fæddist á bóndadaginn 2020. Mér finnst eins og það hafi verið í gær og núna er hún bara orðin krakki. Emma talar allan daginn, talar mjög skýrt og skemmtilega, hún er ótrúlega forvitin og skemmtilegt barn. Það er engin eins og Emma okkar og ég get ekki beðið eftir að fylgjast með henni vaxa og þroskast meira, þó hún megi gera það aðeins hægar mín vegna! Við ætlum að halda lítið prinsessuafmæli, að hennar ósk, um helgina og svo fara út að borða á sjálfan afmælisdaginn. Hún er rosalega spennt fyrir þessu öllu saman og getur eiginlega bara ekki beðið!

Viðarbekkur – ég er búin að sjá þennan viðarbekk út um allt frá House Doctor og mig langar mjög í hann inn í svefnherbergi til okkar.

Mohair teppi – ég á ennþá eftir að kaupa fallegt og hlýtt teppi í sófann, þetta er á 30% afslætti núna, kannski endar maður bara á því að kaupa það. Það fæst í Myrk Store og er til í nokkrum litum.

Jakobsdals spegill – ég fór í Línuna um daginn og það var svo margt þar sem mig langaði í, þau eru með 10% afslátt af öllu nýju í búðinni og svo meiri afslátt af öðru. Mér finnst þessi spegill ótrúlega fallegur, bæði lögunin og viðarramminn í kring.

Voluspa kerti – mig langar í þau öll, svo góð lykt og endast vel en líka svo ótrúlega falleg.

New Works Tense ljósið – mig er búið að langa mjög lengi í þetta ljós inn í svefnherbergi, mér finnst það svo flott. Ég hef heyrt nokkra kalla þetta pringles ljós útaf löguninni og ég get svo sem verið sammála því en mér finnst það samt fallegt. Það er á afslætti núna í Modern.

Motta frá Kararugs – ég væri til í svona renning á ganginn hjá okkur, ég held að það myndi koma vel út.

Bananabrauðið hennar mömmu

Mikið er ég fegin að það sé kominn fimmtudagur, það þýðir að ég er komin í helgarfrí. Eins og ég hef oft sagt hér áður þá vinn ég ekki á föstudögum og ég elska það. Ég nýti föstudagana alltaf vel, ég vakna snemma, byrja daginn hægt og tek alþrif á heimilinu fyrir helgina og kaupi ný blóm. Ég vona að ég geti alltaf haft svona vinnufyrirkomulag. Ég er mjög spennt fyrir kvöldinu en Heimsókn með Sindra var að byrja aftur og ég á fyrsta þáttinn sem var sýndur í gær eftir. Ég ætla að horfa á hann í kvöld þegar Emma er sofnuð.

Ég var að taka í gegn í vikunni ísskápinn, frystinn og búrskápinn hérna heima. Það var ótrúlega gott að klára þetta og vera með allt fínt og vita nákvæmlega hvað er til. Ég sá að ég átti tvo banana sem voru á síðasta snúning og ákvað að henda í eitt bananabrauð. Ég man hvað ég elskaði það þegar ég var yngri þegar ég kom heim um kvöld eftir að hafa verið úti með vinum mínum og bananabrauðslykt tók á móti mér, það var það besta. Mamma var mjög dugleg að baka bananabrauð þegar ég var barn og það er ennþá eitt það besta sem ég fæ. Ég ætla að deila með ykkur ótrúlega einfaldri og sjúklega góðri bananabrauðs uppskrift, prófiði að gera þessa ef þið eigið banana sem eru orðnir brúnir.

 • 2 stórir þroskaðir bananar
 • 50 gr smjör
 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 1/2 dl mjólk
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 tsk kanill

Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel.  Bætið smjöri og stöppuðum banönum og mjólk í deigið og blandið vel.  Setjið deigið í smurt brauðform (ég smyr oft formið og velti síðan haframjöli um það) og bakið í 40-50 mínútur.

Það er lang best að borða brauðið volgt með miklu smjöri, algjört nammi.