Twix kökur

Ég er ekki alveg tilbúin í að sumarið sé bara að verða búið! Ég byrja að vinna aftur á mánudaginn eftir 5 vikna sumarfrí. Það verður gott að komast aftur í góða rútínu en ég hefði þó verið til í smá lengra frí, hefði ekki verið verra hefði verið einhver sól líka.

Í gær kom loksins stofuborðið sem við pöntuðum í Epal fyrir sumarið. Það kemur ekkert smá vel út og það er svo gott að vera komin aftur með borð inn í stofu. Við Karen vorum heima hjá henni að græja marengsstaf og döðlugott fyrir óvænta útskriftaveislu fyrir tvíburabróður hennar þegar ég fékk símtal um að borðið mitt væri komið. Við Karen skruppum því og sóttum það, svo dröslaði ég kassanum ein inn í lyftuna, út á gang og inn í forstofu sveitt. Svo náði ég að setja það saman sjálf, mér leið eins og ég væri algjör ofurkona! Það sem það er búið að breyta íbúðinni að fá gardínurnar og svo stofuborðið. Við erum alveg búin á nokkrum mánuðum að breyta stofunni, fengum okkur nýjann sófa, nýtt borð og nýjar gardínur, við erum rosalega ánægð með útkomuna.

Oliver fann uppskriftina af þessum kökum á Facebook hjá sér held ég og hann var svo spenntur að prófa þetta. Hann græjaði þetta á meðan ég kom Emmu í háttinn og þetta var sjúklega gott. Ég er ekki mjög hrifin af twix svo ég var ekkert að missa mig þegar hann sýndi mér uppskriftina sem hann vildi prófa en ég bara verð að viðurkenna að ég gat ekki hætt að borða þessar kökur. Þær voru það góðar. Ég ætla því að deila með ykkur uppskriftinni.

 • 215 gr mjúkt smjör
 • 115 gr sykur
 • 325 gr hveiti
 • 100 gr karamella
 • 100 gr súkkulaði

Hnoðið saman smjöri, sykri og hveiti. Við notuðum aðeins meira hveiti því deigið var ennþá smá klístrað, passið að hafa hveiti á borðfletinum og kökukeflinu. Fletjið deigið út og skerið út litla hringi með piparkökumótum (við notuðum glas). Bakið á 150° blæstri í 10 mínútur og leyfið að kólna. Uppskriftin segir að nota tilbúna karamellu, fæst til dæmis í Krónunni, en ég gerði karamelluna sjálf og notaði þessa uppskrift hér. Smyrjið karamellunni yfir kökuna og svo bræddu súkkulaði yfir karamelluna. Geymið í ísskáp á meðan súkkulaðið harðnar.

Mousse al Cioccolato

Í dag er merkilegur dagur. Það er nefnilega þannig að bloggið mitt er eins árs í dag! Ekki nóg með það þá er þetta færsla númer 100 sem ég birti. Mér fannst það frekar merkileg tilviljun að það hafi hitt svoleiðis á að færsla númer 100 sé á eins árs afmælinu.

Fyrir einu ári síðan birti ég fyrstu færsluna mína, uppskrift að maísstönglum með aioli. Ég var svo stressuð að birta hana en ég er svo ánægð með mig að hafa tekið fyrsta skrefið. Síðan þá hefur lesendum fjölgað og fjölgað, auk þess þá hef ég tvisvar verið með í Vikunni. Einu sinni í kökublaðinu og svo aftur í jólablaðinu. Þetta er búið að vera ofboðslega skemmtilegt ár og ég hlakka bara til að halda áfram að blogga.

Þegar við vorum úti í Svíþjóð fórum við út að borða á stað sem heitir La Perla. Hann er ótrúlega góður og flottur ítalskur staður og ég keypti uppskriftabókina þeirra eftir matinn. Ég ákvað að prófa að búa til eftirréttinn sem ég fékk á staðnum heima og hann var eins og á staðnum, alveg sjúklega góður. Ég ákvað að þessi uppskrift fengi að vera í afmælisfærslunni minni, hún er bara það góð.

Þessi uppskrift dugar fyrir fjóra.

 • 100 gr hvítt súkkulaði
 • 50 gr dökkt súkkulaði
 • 2 eggjarauður
 • 2 1/2 dl rjómi
 • 40 gr sykur
 • 1 msk Baileys
 • Hindber

Byrjað er á að bræða hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði. Þeytið saman helminginn af rjómanum, helminginn af sykrinum og eina eggjarauðu. Leyfið hvíta súkkulaðinu aðeins og kólna svo það sé ekki brennandi heitt og blandið því svo varlega saman við rjómablönduna með sleif. Skiptið niður í fjögur glös og leyfið að stífna í ísskáp í klukkustund. Bræðið svo dökka súkkulaðið yfir vatnsbaði og endurtakið rjómablönduna nema bætið í þetta skipti Baileys líka út í rjómann. Þegar súkkulaðið hefur aðeins fengið að kólna er súkkulaðinu varlega hellt saman við rjómablönduna og hrært saman með sleif. Setjið ofaná hvítu súkkulaðimúsina og leyfið að stífna aftur í ísskáp. Skreytið með hindberjum og njótið.

Pestó kjúklingur með sætri kartöflumús

Þessi réttur hefur verið einn uppáhalds rétturinn okkar Olivers í nokkur ár. Hann er ofur auðveldur og þess vegna hefur mér fundist eitthvað asnalegt að birta uppskriftina af honum þar sem þetta er varla uppskrift. En ég setti inn á Instagram um daginn þegar ég eldaði þennan rétt og það voru margir sem sýndu réttinum áhuga svo ég ákvað að birta bara uppskriftina hér. Ég sjálf elska auðveldar uppskriftir svo afhverju ekki?

Sætkartöflumús

 • 2 sætar kartöflur
 • 100 gr smjör
 • salt

Skrælið kartöflurnar og skerið þær í bita. Sjóðið þar til þær eru alveg mjúkar í gegn. Sigtið vatnið frá og maukið þær með kartöflustappara, með smjörinu og saltinu þar til allt er maukað vel saman.

Pestó kjúklingur

 • 500 gr kjúklingabringur
 • 2 krukkur pestó
 • fetaostur
 • salt og pipar

Kveikið á ofninum á 200°. Eldið kjúklingabringurnar í 20 mínútur og kryddið þær með salti og pipar áður en þær fara í ofninn. Takið kjúklinginn út og dreyfið pestóinu vel yfir þær og toppið svo með fetaostinum. Eldið áfram í 10 mínútur.

Berið fram kjúklinginn fram með sætkartöflumúsinni.

Júlí óskalisti

Ég trúi ekki að júlí sé að verða búinn. Ég byrja aftur að vinna 8. ágúst og það nálgast hratt. Ég átti eftir að setja inn júlí óskalista á bloggið svo hér kemur hann. Ég er búin að liggja yfir netverslunum að setja í allskonar körfur, ekki samt kaupa neitt, bara meira að skoða.

Assouline bækur – Mér finnst þessar bækur svo fallegar. Ég sá þær fyrst hjá Molly Mae og hef svo séð þær mikið á heimilum á Instagram sem svona „coffee table books“. Þær eru svo fallegar og litríkar. Þær fást t.d. í Purkhús.

Rattan bekkur – Mig langar í þennan inn í svefnherbergi, mér finnst hann svo fallegur. Hann er úr Norr11.

Billi Bi skó – Ég losaði svo mikið úr fataskápnum nýlega sem ég var hætt að nota eða var orðið sjúskað. Mikið af því voru skór, þess vegna „vantar“ mig nýja skó, mér finnst þessir ótrúlega fallegir.

Anine Bing bolur – Mig hefur lengi langað í þennan, gleymi honum samt alltaf þegar ég ætla að kaupa mér eitthvað og hef því aldrei látið verða af því. Kannski hann sé næstur á innkaupalistanum. Fæst í Mathilda.

Byredo ilmvatn – Ég er alveg að klára Byredo ilmvatnið mitt í ilminum Gypsy Water. Það er ótrúlega góð lykt en ég held að mig langi að prófa Bal D’afrique næst. Ég þyrfti bara að eiga þær báðar held ég. Fæst í Madison Ilmhús.

CAIA Cosmetics snyrtivörur – Ég á nokkrar vörur frá þessu sænska merki sem Bianca Ingrosso, sænskur áhrifavaldur, á. Þær eru allar ótrúlega góðar og vandaðar, svo eru pakkningarnar líka ótrúlega sætar. Þær fást á heimasíðunni þeirra caiacosmetics.com.

Trúlofun

Þið sem fylgið mér á Instagram hafið líklegast séð það að við Oliver erum trúlofuð! Oliver skellti sér mjög óvænt á skeljarnar í Stokkhólmi og það var alveg fullkomið. Við Oliver erum búin að vera saman í bráðum 7 ár og erum búin að þekkjast í 14 ár. Við kynntumst þegar við vorum 10 ára og vorum saman í bekk.

Eins og flestir ættu að vita þá er Stokkhólmur uppáhalds staðurinn minn í heiminum. Við fórum út á mánudaginn og komum heim seint á föstudag. Við áttum ótrúlega góða daga úti og fengum alveg geggjað veður, sól og hiti allann tímann. Ég er að vinna í sérstakri Stokkhólms færslu en vildi setja þessa hérna inn fyrst.

Það var semsagt komið að síðasta kvöldinu okkar úti. Það var ótrúlega fallegt veður og við ákváðum að fara út í kvöld göngutúr, klukkan er eitthvað um hálf níu. Við vorum með Emmu í kerrunni og löbbuðum af stað. Við löbbuðum að uppáhaldsstaðnum mínum, höfninni á móti konungshöllinni. Ég elska þennan stað, að horfa yfir á höllina. Ég fer þangað í hverri einustu ferð og ein fyrsta myndin sem ég póstaði á Instagram er tekin á þessum stað. Ég tek fullt af myndum á meðan við erum þarna og við vorum bara að hafa það notalegt. Emma var með okkur og við sitjum tvær saman á einhversskonar bekk þarna við þegar Oliver skellir sér niður á hné og biður mín.

Ég sagði að sjálfsögðu já og þetta toppaði algjörlega þessa æðislegu ferð, að koma heim með unnusta. Síðan gerði þetta staðinn minn miklu dýrmætari. Það var svo yndislegt að Emma var með okkur, hún var samt ekki alveg sátt með pabba sinn að hafa ekki líka keypt hring handa sér.

Ég hafði enga hugmynd að þetta væri í vændum og það fynda var að ég var búin að vera með hringinn á mér allan göngutúrinn því hann var falinn í vagninum hennar Emmu. Tvær vinkonur mínar spurðu hvort ég hefði vitað því ég fékk mér neglur rétt áður en við fórum í ferðina, en þær voru fljótar að taka það tilbaka þegar þær sáu í hverju ég var. Ég var semsagt í grárri stórri hettupeysu af Oliver, nánast ómáluð, með tagl, mjög ótilhöfð. Ég man að Oliver horfði á mig áður en við fórum og spurði mig hvort ég ætlaði svona, ég hristi bara hausin yfir honum þar sem við vorum bara að ég hélt að fara út í smá göngutúr haha. Sagan var alveg að endurtaka sig því það nákvæmlega sama gerðist þegar babyshowerið mitt var, þá var ég í sömu peysu og Oliver spurði mig hvort ég ætlaði í henni til mömmu haha. Þetta er greinilega einhver happapeysa, verst hvað hún er ljót.

Við skáluðum svo daginn eftir áður en við fórum heim til Íslands. Nú hlakka ég bara til að giftast ástinni minni einhverntíman í framtíðinni, það er ekkert ákveðið eins og er.

Marengs með lemon curd og jarðarberjum

Nú er komið að sumar uppskrift með innblástri frá sænsku sumari, númer tvö. Í þetta skiptið er það marengs. Þessi blanda af marengs, lemon curd og jarðaberjum klikkar ekki og er svo fersk og sumarleg. Ég auðveldaði mér verkið og keypti tilbúinn marengsbotn en ég var í tímaþröng. Það er mjög gott samt að nota hvíturnar í eggjunum sem verða eftir við lemon curdið í að gera marengsbotn. Ég mæli með að prófa þessa, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

 • marengsbotn
 • lemon curd (uppskrift fyrir neðan)
 • 200 ml rjómi
 • askja af jarðaberjum

Lemon curd

 • 4 eggjarauður
 • 130 gr sykur
 • rifinn börkur af sítrónu (um tvær matskeiðar)
 • safi úr tveimur sítrónum
 • 100 gr kalt smjör skorið í teninga

Byrjað er á að píska saman eggjarauðurnar og sykurinn í potti. Bætið svo sítrónuberkinum og safanum út í og pískið því saman. Kveikið á lágum hita undir pottinum og hrærið stanslaust með písknum þar til það byrjar að þykkna í pottinum. Þegar búðingurinn er farinn að þykkna þá er slökkt undir og smjörinu bætt saman við og hrært þar til það er alveg bráðnað og blandað saman við búðinginn. Setjið í loftþéttar umbúðir og geymið í ísskáp. Búðingurinn þykknar í ísskápnum.

Setjið rjóma, lemon curd og jarðaber á marengsinn og berið fram.

Ódýr og fljótleg grænmetisskál

Á föstudagskvöldið fór Emma í næturpössun og við Oliver fórum á deit. Við enduðum á því eins og flest önnur deit að kúra uppí sófa með bland í poka, það er það sem manni langar mest að gera þegar maður fær næturpössun fyrir barnið, að slaka á og sofa vel. Þar sem það var mikið sukk á föstudaginn og svo líka í gær þá langaði okkur í eitthvað hollt og þægilegt í dag, snýst allt um jafnvægið. Ég var ekki að nenna miklu veseni svo ég skellti bara í einhversskonar grænmetisskál eða salat. Það er vel hægt að breyta til og nota annað en ég en ég ákvað að skella þessu hingað inn í eina heimilislega færslu, ekkert fancy, því þetta var bara ótrúlega gott. Notið endilega bara það sem þið eigið til að hverju sinni.

Innihald

 • sæt kartafla
 • kartöflur
 • kúskús
 • rauð paprika
 • brokkolí
 • gúrka
 • tómatar
 • rauðlaukur
 • klettasalat
 • grænmetisbollur
 • pestó
 • fetasostur

Ég skellti sætukartöflunum og kartöflunum saman í fat með olíu og eldaði í ofni, ég kryddaði þær með salti, pipar og paprikukryddi. Ég setti svo paprikurnar og brokkolí í annað fat og skellti smá olíu yfir og kryddaði með salti og pipar og eldaði líka í ofni. Ég sauð vatn í hraðsuðukatli og hellti út á kúskúsið eftir leiðbeiningum. Ég setti kjúklingatening, salt og pipar út í kúskúsið fyrst. Ég hitaði svo nokkrar grænmetisbollur sem ég átti í frystinum og hafði með. Ég raðaði þessu öllu svo í skál og þá var þetta tilbúið.

Nýjar gardínur

Ég get eiginlega ekki sagt annað en að ég sé í skýjunum. Gardínurnar sem ég pantaði í byrjun júní komu í gær og ég vil eiginlega ekki fara út úr húsi í dag því ég vil bara sitja og horfa á þær. Það kom sér því vel að það er bara ömurlegt veður úti svo ég þarf hvort eð er ekkert að vera að fara neitt út.

Ég var búin að vera með svona hörlíkisgardínur með new wave rykkingu á óskalistanum mínum mjög lengi en það var annað sem þurfti að setja í forgang þegar við keyptum íbúðina. Ég sá svo bara fyrir slysni auglýsingu á Instagram hjá mér nýtt gardínufyrirtæki á Íslandi sem heitir Glory Blinds, gloryblindsiceland á Instagram. Ég ákvað að senda þeim línu og þau komu og mældu hjá mér frítt og gáfu mér tilboð, og það var besta tilboðið sem ég hafði fengið á þessum gardínum miðað við önnur fyrirtæki. Ég fékk svo heimsendar prufur af efnum svo ég gat mátað þær við gluggana og málninguna á veggjunum heima í rólegheitum. Ég var í smá vandræðum fyrst með að velja á milli beige eða hvítt en á endanum valdi ég beige og sé ekki eftir því vali. Þetta bætir svo mikilli hlýju við íbúðina og hækkar þvílíkt lofthæðina.

Nú langar mig að fá mér líka inn í svefnherbergin eftir að hafa séð hvað þetta gerir svakalega mikið og kemur vel út. Núna bíðum við eftir að sófaborðið okkar komi í Epal og þá fer stofan að verða klár. Það er svo skemmtilegt að sjá íbúðina taka á sig heildarmynd og það hvetur mann áfram í að klára alveg allt. Þegar við tókum við íbúðinni var margt og mikið á framkvæmdarlistanum og óskalistanum og það er ótrúlegt hvað okkur hefur tekist gera á stuttum tíma finnst mér. Núna næst ætlum við að reyna að gera þvottahúsið skemmtilegra og það er svo lítil framkvæmd að við stefnum á að græja það jafnvel núna í sumar. Svo ætlum við að fara að huga að eldhúsframkvæmdum og baðherberginu sem er svona stærsta framkvæmdin svo við viljum vera alveg með á hreinu hvað við viljum gera. Við erum með margar hugmyndir en þurfum að ákveða eitthvað sem passar fyrir okkur.

Sítrónukaka í glasi

Upp á síðkastið hef ég verið á einhverju sítrónu tímabili, sem þið kannski takið eftir núna þegar ég er með tvær sítrónuköku uppskriftir í röð. Mér finnst sítrónur eitthvað svo sumarlegar og ferskar. Mér finnst sítrónukökur léttari og sumarlegri en til dæmis klassískar súkkulaðikökur, þótt þær standi alltaf fyrir sínu.

Ég rakst á þessa uppskrift hjá Fridas bakblogg og ég vissi að ég þyrfti að prufa að gera sjálf. Ég var enga stund að henda í kökuna og það voru engin flókin innihaldsefni, ég þurfti ekki að kaupa neitt nema hvítt súkkulaði til dæmis. Núna þegar ég er byrjuð í sumarfríi langar mig að byrja að setja inn sumarlegri uppskriftir og halda í vonina um að sólin láti sjá sig. Ég er líka farin að komast í Svíþjóðargírinn og langar mig þess vegna að setja inn nokkrar sumarlegar sænskar uppskriftir á næstunni og er þessi fyrsta uppskriftin í þessari nýju sænsku seríu minni.

Sítrónukaka

 • 200 gr smjör
 • 3 egg
 • 3,5 dl sykur
 • 1 sítróna (börkur rifinn og safi)
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 dl hveiti

Byrjað er á að bræða smjörið og leyfa því aðeins að standa. Þeytið saman eggin, sykurinn, rifinn sítrónubörk og safann úr sítrónunni. Bætið svo við smjörinu, vanillusykrinum og hveitinu og blandið vel saman. Bakið við 175° í 25 mínútur.

Leyfið kökunni að kólna og skerið hana í bita. Berið fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum og hvítu súkkulaði.

Limoncello kaka

Long time no bloggfærsla! Úff það eru komnar nokkrar vikur síðan ég birti síðast færslu hérna en ástæðan er sú að helluborðið okkar og ofninn biluðu á nánast sama tíma. Það var smá bið eftir viðgerðarmanni en hann kom svo og kippti þessu í lag á engum tíma svo ég er mega ánægð að geta eldað aftur og bakað heima. Nú fer ég að detta í sumarfrí eftir þessa viku, ég er spennt að baka fullt í fríinu.

Ég og Hanna vinkona mín erum með hefð að einu sinni í mánuði (amk) röltum við á bar í hverfinu okkar. Það er rosa skemmtilegt alltaf hjá okkur og höfum við oft prófað nýja kokteila eða drykki þarna. Síðast þegar við fórum tókum við eftir nýjum drykk á drykkjarseðlinum, Limoncello Spritz. Hingað til höfðum við bara verið í Apperol Spritz svo við ákváðum að prófa þetta og sáum sko ekki eftir því. Ég fór beint daginn eftir og keypti mér Limoncello svo ég gæti gert svona sjálf heima, þetta er ekta sumarkokteill. Ég prófaði að gera sítrónuköku úr líkjörnum, ég fékk hugmyndina að því þegar ég skoðaði heimasíðuna hjá þeim sem eru að flytja þetta inn, þar voru þeir með uppskrift að samskonar köku. Hún heppnaðist svakalega vel svo hún fær að birtast hér inni, ég þarf svo við tækifæri að mynda drykkinn svo ég geti skellt uppskriftinni af honum hingað líka.

Limoncello kaka

 • 1 ½ bolli hveiti
 •  ½ tsk lyftiduft
 •  ½ tsk matarsódi
 •  ½ tsk salt
 • 3 egg
 • 1 bolli sykur
 • 2 msk mjúkt smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 dl limoncello
 •  ½ bolli bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
 • hýði af 1 sítrónu

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel. Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál. Hrærið saman í annari skál eggjum, sykri, smjöri, vanilludropum og limoncello þar til hefur blandast vel. Hrærið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu og sítrónuhýði saman við og blandið vel. Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið í 45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr

 • 1 bolli flórsykur
 • 2 msk nýmjólk
 •  ½ tsk sítrónudropar

Hrærið öllu saman og hellið yfir kökuna.