Brie snittur

Ég bauð mömmu í heimsókn um daginn og vildi hafa eitthvað einfalt en gott þegar hún kæmi. Ég fann þessa uppskrift á Pinterest og ákvað að prófa. Við mæðgur urðum ekki fyrir vonbrigðum með útkomuna, þessar snittur væru fullkomnar sem forréttur í matarboði, í saumaklúbbnum eða sem föstudagskvölds snarl. Ég mæli með að prófa þessar.

Við fórum í gær á stúss og nýttum daginn rosalega vel. Við byrjuðum í Ikea að kaupa skipulagsbox fyrir dótið hennar Emmu, síðan fórum við í Álfaborg og keyptum flísar fyrir forstofuna sem við ætlum að fara að græja á næstunni. Við fórum svo í Byko að skoða allskonar fyrir baðherbergið okkar og síðan heim að taka geymsluna í gegn, hún þurfti mjög mikið á því að halda. Við vorum í marga tíma að sortera og flokka geymsluna og núna er hún rosa fín, ég vona að hún haldist þannig aðeins.

 • snittubrauð
 • brie ostur
 • ólífuolía
 • hráskinka
 • sulta
 • valhnetur

Byrjið á því að dreifa smá ólífuolíu yfir skorið snittubrauðið og bakið í ofni við 220° þar til það er komið með fallegan lit og er búið að ristast aðeins. Skerið Brie ostinn í þunnar sneiðar og leggið á snittubrauðin. rúllið hráskinkunni upp og festið með tannstöngli á brauðið. Dreifið sultunni yfir, ég notaði Cranberry and blueberry frá St. Dalfour og söxuðum valhnetum, gott er að þurrrista þær fyrst. Berið strax fram.

Afmælið hennar Emmu

Í gær héldum við uppá 3 ára afmælið hennar Emmu. Það var ótrúlega skemmtilegt, hún vildi hafa prinsessuþema og valdi prinsessu skraut og var í prinsessukjól. Emma sagði eftir daginn að henni hafi þótt dagurinn ótrúlega skemmtilegur og að hún vildi eiga afmæli á hverjum degi. Hún á svo afmæli á þriðjudaginn og þá ætlum við að fara með hana á Hamborgarafabrikkuna. Ég vildi hafa afmælið hennar mjög afslappað og hafa góðar klassískar veitingar. Ég var fimmtudag og föstudag bara að dunda mér að undirbúa fyrir afmælið sem var ótrúlega notalegt. Ég bauð uppá rúllubrauð með skinku og aspasblöndu, marengsstaf, kirsuberjaköku, skúffuköku sem Emma skreytti, kökupinna og pulsu broddgölt.

Skúffukakan sem ég gerði er kaka sem ég elska en það er uppskrift frá Evu Laufey sem hún er með í highlights hjá sér á instagram. Margir í afmælinu tóku strax eftir puslu broddgeltinum en ég ákvað að gera hann fyrir afmælið því hann er ekta barnaafmælis „réttur“ en hann er mjög oft í sænskum barnaafmælum, hann sló heldur betur í gegn og ég mæli með að gera svona í næsta barnaafmæli.

Broddgölturinn er mjög einfaldur en það þarf bara að gera kartöflumús, hvaða kartöflumús sem er en ég mæli auðvitað með þessari hérna. Svo er kartöflumúsinni skellt á fat og skeið rennt yfir hana til að móta hana og gera kúpta. Svo er soðnum eða steiktum kokteilpulsum þrýst í hana, eins og broddgöltur. Borið fram með tómatsósu.

Kirsuberjakakan er sjúklega góð og ég hef oft beðið mömmu um að baka hana fyrir mig, ein af mínum uppáhalds kökum. Mamma bakaði hana fyrir afmælið og hún vakti mikla lukku. Uppskriftin er hér.

Ég gerði svo marengsstaf fyrir afmælið hennar Emmu og afmælið hjá Aþenu, vinkonu Emmu sem varð þriggja ára síðustu helgi. Uppskriftin er hér.

Janúar óskalisti

Ég held að það sé kominn tími á janúar óskalistann. Ég er alltaf hangandi yfir netverslunum á kvöldin og skoða mikið fyrir heimilið en það er ennþá margt sem á eftir að gera hérna heima, eða margt sem mig langar að gera réttara sagt. Það er eitthvað af þessum hlutum á óskalistanum á afslætti núna svo ég má til með að deila þeim með ykkur núna. Það er aldrei að vita hvort eitthvað af þessu rati heim til mín óvart á næstunni.

Emma verður 3 ára á þriðjudaginn, hún fæddist á bóndadaginn 2020. Mér finnst eins og það hafi verið í gær og núna er hún bara orðin krakki. Emma talar allan daginn, talar mjög skýrt og skemmtilega, hún er ótrúlega forvitin og skemmtilegt barn. Það er engin eins og Emma okkar og ég get ekki beðið eftir að fylgjast með henni vaxa og þroskast meira, þó hún megi gera það aðeins hægar mín vegna! Við ætlum að halda lítið prinsessuafmæli, að hennar ósk, um helgina og svo fara út að borða á sjálfan afmælisdaginn. Hún er rosalega spennt fyrir þessu öllu saman og getur eiginlega bara ekki beðið!

Viðarbekkur – ég er búin að sjá þennan viðarbekk út um allt frá House Doctor og mig langar mjög í hann inn í svefnherbergi til okkar.

Mohair teppi – ég á ennþá eftir að kaupa fallegt og hlýtt teppi í sófann, þetta er á 30% afslætti núna, kannski endar maður bara á því að kaupa það. Það fæst í Myrk Store og er til í nokkrum litum.

Jakobsdals spegill – ég fór í Línuna um daginn og það var svo margt þar sem mig langaði í, þau eru með 10% afslátt af öllu nýju í búðinni og svo meiri afslátt af öðru. Mér finnst þessi spegill ótrúlega fallegur, bæði lögunin og viðarramminn í kring.

Voluspa kerti – mig langar í þau öll, svo góð lykt og endast vel en líka svo ótrúlega falleg.

New Works Tense ljósið – mig er búið að langa mjög lengi í þetta ljós inn í svefnherbergi, mér finnst það svo flott. Ég hef heyrt nokkra kalla þetta pringles ljós útaf löguninni og ég get svo sem verið sammála því en mér finnst það samt fallegt. Það er á afslætti núna í Modern.

Motta frá Kararugs – ég væri til í svona renning á ganginn hjá okkur, ég held að það myndi koma vel út.

Bananabrauðið hennar mömmu

Mikið er ég fegin að það sé kominn fimmtudagur, það þýðir að ég er komin í helgarfrí. Eins og ég hef oft sagt hér áður þá vinn ég ekki á föstudögum og ég elska það. Ég nýti föstudagana alltaf vel, ég vakna snemma, byrja daginn hægt og tek alþrif á heimilinu fyrir helgina og kaupi ný blóm. Ég vona að ég geti alltaf haft svona vinnufyrirkomulag. Ég er mjög spennt fyrir kvöldinu en Heimsókn með Sindra var að byrja aftur og ég á fyrsta þáttinn sem var sýndur í gær eftir. Ég ætla að horfa á hann í kvöld þegar Emma er sofnuð.

Ég var að taka í gegn í vikunni ísskápinn, frystinn og búrskápinn hérna heima. Það var ótrúlega gott að klára þetta og vera með allt fínt og vita nákvæmlega hvað er til. Ég sá að ég átti tvo banana sem voru á síðasta snúning og ákvað að henda í eitt bananabrauð. Ég man hvað ég elskaði það þegar ég var yngri þegar ég kom heim um kvöld eftir að hafa verið úti með vinum mínum og bananabrauðslykt tók á móti mér, það var það besta. Mamma var mjög dugleg að baka bananabrauð þegar ég var barn og það er ennþá eitt það besta sem ég fæ. Ég ætla að deila með ykkur ótrúlega einfaldri og sjúklega góðri bananabrauðs uppskrift, prófiði að gera þessa ef þið eigið banana sem eru orðnir brúnir.

 • 2 stórir þroskaðir bananar
 • 50 gr smjör
 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 1/2 dl mjólk
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 tsk kanill

Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel.  Bætið smjöri og stöppuðum banönum og mjólk í deigið og blandið vel.  Setjið deigið í smurt brauðform (ég smyr oft formið og velti síðan haframjöli um það) og bakið í 40-50 mínútur.

Það er lang best að borða brauðið volgt með miklu smjöri, algjört nammi.

Áramótaheit og markmið

Gleðilegt nýtt ár! Maður er svolítið bara að lenda eftir hátíðarnar, það verður gott þegar allt er komið í góða rútínu aftur. Við áttum notaleg áramót með tengdó hjá okkur. Við elduðum nautalund og vorum með marengs í eftirrétt og spiluðum eftir að klukkan sló tólf.

Ég ákvað að áramótaheitið mitt væri að hætta að drekka orkudrykki og ég verð að viðurkenna að það var kannski ekki besta hugmyndin að byrja á því fyrstu vikuna í janúar eftir frí. Ég er vön að drekka tvo nocco á dag sem er bara ótrúlega óhollt fyrir líkaman, tennurnar og svefninn. Ég er ekki búin að fá mér orkudrykki núna í tvo daga og ég er búin að leggja mig báða dagana eftir vinnu, en ég held að fyrsta vikan sé erfiðust. Ég hef áður reynt að hætta en hef alltaf leitað aftur í þá en ég held að ég verði bara að finna mér eitthvað annað í staðin, ég drekk annars bara vatn, ekkert annað. Ég hef aldrei á ævinni smakkað gos svo ég var að spá í að prufa að fá mér topp í staðinn fyrir nocco, ég hef heyrt að maður eigi að skipta slæmri venju út fyrir eitthvað annað, gaman að sjá hvort það virki.

Ég er alveg týpan sem peppast rosalega yfir nýju ári og markmiðum/áramótaheitum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af þessari pælingu með áramótaheit en mér finnst þau alltaf skemmtileg. Ég keypti mér tvær skipulagsbækur í lok desember, skipulagsdagbókina hennar Sólrúnar Diego og svo eina rafræna í ipadinn.

Ég ákvað að skrifa niður hvað ég vildi fá út úr þessu ári, markmið og bara allskonar hugmyndir, síðan gerði ég vision board á pinterest líka, mér fannst það mjög skemmtileg hugmynd sem ég sá á Tiktok. Ég fór síðan yfir árið 2022, hvernig það hefði verið og hvað mér fannst vanta og hvernig ég vildi hafa þetta ár öðruvísi.

Ég fann að mér fannst ég ekki hafa haft nógu mikinn tíma til þess að sinna mínu aðal áhugamáli, að elda og baka. Annað áramótaheitið mitt var því að búa til meiri tíma fyrir þessi áhugamál og hafa fastari rútínu á hlutunum. Ég elska rútínu og finn að ég þrífst best í henni, sérstaklega með barn. Mér fannst árið 2022 vera rosa mikið af plönum, kannski mikið meira eftir covid, og ég átti erfitt með það. Ég vil helst hafa virk kvöld bara heima með okkar rútínu og ná að elda, ganga frá, baða Emmu, hafa til föt fyrir morgundaginn, lesa og hafa notalegt, ekki fara stanslaust í einhver boð og koma heim seint með Emmu sofandi og ná varla að hátta hana.

Áramótaheitin mín í fyrra snérust mest um að setja sjálfa mig í fyrsta sæti eftir að hafa haft mig alltof aftarlega í forgangsröðun og mér finnst ég alveg hafa staðið við það og það er rosalega góð tilfinning, ég ætla að halda því áfram.

Ég elska að fara inn í nýtt ár með heimilið í góðu standi, mér finnst mjög gott að taka heimilið í nefið í janúar eftir allar hátíðirnar en ekki fyrir jól. Ég er því að deila niður verkefnum sem mig langar að klára í sambandi við heimilið á næstu vikur og smátt saman kemur þetta. Ég ætla til dæmis að djúphreinsa bakaraofninn, örbylgjuofninn, þvottavélina og þurrkarann. Svo ætla ég að fara í gegnum alla fataskápa, geymsluna og eldhúsið. Það mun vera mikill léttir þegar þetta allt er búið, þá má maður alveg verðlauna sig eitthvað. Við erum farin að huga að ýmsum breytingum hérna heima sem við erum rosalega spennt fyrir, það verður gaman að sýna frá þeim hérna þegar að því kemur.

Að lokum langar mig að þakka ykkur fyrir samfylgdina hérna árið 2022, það var rosa gott ár, en ég er mjög spennt fyrir enn betra 2023.

Jólagjafir og ný kaup

Skrítið að jólin séu allt í einu bara búin. Mig er farið að klæja í puttana að rífa jóladótið niður strax, en ég er búin að vera með það allt uppi síðan snemma í nóvember. Ég vona að þið hafið öll notið jólanna vel, ég átti rosalega góð jól. Ég setti inn reel á Instagram af aðfangadegi hjá okkur en jóladagur var eiginlega bestur verð ég að segja. Við vorum heima allan daginn, á náttfötunum, ekkert jólaboð eða neitt. Við hægelduðum lambahrygg og borðuðum í notalegheitum með tengdó á meðan við skoðuðum gjafirnar sem við fengum. Ég fékk nokkra fallega hluti af óskalistanum mínum sem mig langaði að deila með ykkur.

Anine Bing bolur – Ég fékk loksins Anine Bing bolinn sem mig er búið að langa í lengi, nema hvað að mamma og tengdó fengu sömu hugmynd svo ég fékk tvo alveg eins. Ég get samt skilað öðrum og fengið mér eitthvað annað fallegt í staðin.

Reiss peysa – Oliver gaf mér þessa peysu sem mig er búið að dreyma um, ég er algjör kuldaskræfa og elska þykkar peysur, þessi er því fullkomin fyrir mig.

Ferm living skálar – Amma mín gaf okkur skálarnar sem bættust nýlega á listann minn þegar ég sá að það voru komnar skálar í stíl við glösin mín.

Billi Bi skór – Oliver gaf mér líka þessa skó en mig vantaði svo venjulega lokaða hælaskó eftir að ég tók smá hreinsun í fataskápnum nýlega og henti þeim sem voru orðnir sjúskaðir.

Steamery gufuvél – Búið að langa í þessa leeeengi og fékk hana loksins frá Kristofer, mági mínum. Vinkona mín hún Sigþóra bað um svona líka í jólagjöf en hún fékk hugmyndina þegar hún skoðaði óskalista á blogginu mínu (já var mjög montin) og hún fékk hana líka. Nú getum við vinkonurnar gufað saman, þið munuð aldrei sjá okkur í krumpaðri flík aftur!

Combekk panna – Föðuramma mín gaf okkur Oliver pönnu frá Combekk og við erum bæði búin að prufukeyra hana og erum strax rosalega ánægð með hana, það festist ekkert við hana sem er alveg geggjað.

Ég vann svo í dag og í gær og er núna komin í frí fram yfir áramót. Við Hanna vinkona kíktum á tax free í Hagkaup eftir vinnu í dag og ég keypti mér nokkra hluti.

Lee Stafford hársvarðarbursti – Er búin að sjá þennan út um allt á Tiktok, ég bara verð að eiga svona líka.

Fit me hyljari – Ég kaupi þennan alltaf á taxfree, nota á hverjum degi.

Loreal augnserum – Ég uppgötvaði þetta nýlega og er húkkt, var að klára það sem ég átti og gat ekki án þess verið.

Loreal andlitsserum – Ákvað að kaupa þetta „í stíl“ við augnserumið, Hanna vinkona mælti með þessu svo ég er spennt að prófa.

Ég sá svo að Petit var að byrja með útsölu og ég keypti þar tvo kjóla, einn ullarkjól frá Konges Slojd sem verður fullkominn í vetur, Emma vill alltaf vera í kjól, og svo einn bómullar frá Petit Piao. Ég verð að mæla með þessum bómullarkjólum frá Petit Piao, ég hef átt svona kjóla og leggings sett í nánast öllum stærðum frá því að Emma fæddist og líka gallana í sama efni og þetta eru bestu flíkur sem Emma hefur átt. Fallegt, mjúkt, teyjanlegt og best af öllu, það næst allt úr þeim!

Gleðileg jól!

Þá er bara allt í einu korter í jól. Ég er búin að búa til nýja hefð á Þorláksmessu en þá býð ég mömmu og bræðrum mínum í hádeginu í tartalettur, uppskriftin af þeim eru hér.

Þau komu í dag um hádegi í tartalettur og það var ótrúlega notalegt. Mamma átti síðan afmæli í gær og þá var haldin lítil veisla svo það er búið að vera nóg um að vera. Við vorum öll fjölskyldan í fríi í dag og það var ótrúlega notalegt. Við ætluðum að fara eftir tartaletturnar í bæinn að rölta en það var svo svakalega kalt úti að við slepptum því. Við fórum í staðin með pakka í leikskólan hennar Emmu, svo fór ég í plokkun og síðan gerðum við Emma saman Rocky Road, uppskrift hér. Núna er Oliver að sækja WokOn fyrir okkur, nýja jólaréttinn þeirra, sem ég er mjög spennt að smakka. Svo ætlum við að horfa á Christmas Vacation í kvöld eins og við gerum alltaf á Þorláksmessu yfir heitu súkkulaði með rjóma, uppskrift hér. Ég ætla svo að skella í Toblerone ís og Ris a la mande (uppskrift hér) í kvöld fyrir morgundaginn.

Á morgun ætla ég að halda í enn eina nýlega hefðina sem skapast hefur á okkar heimili og það er aðfangadags morgunmatur. Þá vakna ég fyrst af öllum og bý til pönnukökur, beikon, eggjahræru og allskonar meðlæti. Það er mjög kósí að vera ein í myrkrinu með kerti að undirbúa og svo þegar þau vakna er svo mikil spenna að kíkja í skóinn og byrja daginn. Við erum með mömmu á aðfangadag þannig í hádeginu þá fáum við tengdó til okkar í Ris a la mande, til þess að hitta þau eitthvað á aðfangadag. Við þurfum svo að skutlast með nokkra pakka áður en við förum til mömmu. Við erum alltaf með hamborgarhrygg á jólunum og ætlum ekkert að bregða útaf vananum í ár. Við horfum á Elf eins og vanalega (við erum með ansi margar hefðir eins og sést í þessari færslu) og erum með jólanammiskál sem ég hef tekið að mér að útbúa.

Ég vona að þið eigið öll gleðileg jól og njótið vel með fólkinu ykkar.

Desember óskalisti

Ég trúi ekki hvað desember er búinn að vera fljótur að líða. Það eru 11 dagar til jóla! Ég er smá ekki að ná því þar sem við erum búin að vera veik hvert á eftir öðru og hef ég bara ekki haft mikla orku í að elda eða baka. Ég kom mér loksins í það að baka sörur um helgina, það finnst mér vera algjört möst ásamt lussebullar sem ég ætla að baka núna á næstu dögum. Annars þá gaf þeytarinn á KitchenAid vélinni minni sig í sörubakstrinum sem var alveg æðislegt svona rétt fyrir jól, svo ég verð að fara að kaupa mér nýjann, afhverju þarf alltaf eitthvað svona að gerast í desember?

Ég geri alltaf á hverju ári óskalista fyrir nánustu fjölskyldu, alveg eins og barn, með myndum og öllu. Ég ætla að deila nokkrum hlutum sem ég setti á óskalistann minn, það leynist eitthvað úr fyrri listum hérna á blogginu en það er bara það sem mig langar í. Vonandi gefur listinn ykkur einhverjar hugmyndir!

Steamery gufuvél – ég verð að eignast þetta því ég nenni aldrei að strauja!

Skims náttföt – hef heyrt að þessi séu dásamlega mjúk og svo eru þau svo klassísk

Royal Copenhagen – mig langar að safna í safnið mitt sem er mjög lítið

Anine Bing peysa – mér finnst allt frá Anine Bing flott en mig langar mest eins og er í peysu eða bol frá henni

Bink brúsi – það eru allir sem eiga þennan brúsa alveg húkkt á honum, held að vatnskonan sem ég er verði að eignast einn slíkann

Andrea húfa – þessi er búin að vera lengi á óskalistanum, er að reyna að eignast betri útiföt

Sonos – fékk einn svona í jólagjöf frá mömmu og manninum hennar fyrir þrem árum og nota hann stanslaust, langar í nokkra í viðbót og dreifa þeim um heimilið, þeir tengjast allir saman.

Ugg skór – eru ekki allir með þessa á sínum óskalista í ár? nema kannski þeir sem eiga svona fyrir.

Básar föðurland – talandi um útivistarfatnað þá vantar mig nauðsynlega föðurland og langar mig í svona. Emma átti svona og það var æðislegt, alltaf jafn mjúkt og fínt.

Stígvél – markmiðið mitt fyrir 2023 er að fara oftar út að leika með Emmu. Ég vil geta hoppað með henni í pollum og fíflast og verð ég þess vegna að eignast stígvél, alvöru stígvél, ekki leðurstígvél.

Steypujárnspott – mamma gaf okkur steypujárnspott frá Le Creuset í jólagjöf fyrir nokkrum árum og hann er í daglegri notkun, ég elska hann! Mig langar að eignast annan til þess að eiga amk tvo, jafnvel í fallegum lit þar sem hinn er svartur.

Ripple skálar frá Ferm Living – ég á glösin og mér finnst skálarnar mega sætar í stíl

Kubus skál – mér finnst þessi ótrúlega flott, sæt á stofuborðið til dæmis!

Jólaleg rúlluterta

Í gær fórum við á útileikritið Ævintýri í Jólaskógi, annað árið í röð. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt leikrit sem ég mæli heilshugar með, alveg ótrúlega jólaleg stund. Emmu fannst ótrúlega skemmtilegt og gaman að hitta jólasveininn, hún fór sko alsæl að sofa. Maður labbar um í skóginum með vasaljós í hópi og hittir m.a. jólasveininn og grýlu og svo endar maður í piparkökum og kakói.

Það er nóg um að vera næstu daga hjá okkur fjölskyldunni. Á morgun er ég að fara á Nauthól með vinnunni í 3ja rétta jólaseðil, á sunnudaginn erum við að fara á jólahlaðborð og Emma er að fara í leikhús með ömmu sinni og afa. Það er alveg ótrúlegt hvað desember er að líða hratt, jólin verða komin áður en við vitum af.

Ég gerði þessa rúllutertu um daginn og hún kláraðist á mettíma. Hún var alveg ótrúlega góð og einföld! Ég mæli með að skella í hana um helgina.

 • 3 egg
 • 1.5 dl sykur
 • 0.75 dl hveiti
 • 2 msk kakó
 • 2 msk kanill
 • 1 msk negull
 • 1 tsk lyftiduft
 • smjörkrem – hálf uppskrift (uppskrift hér)

Byrjað er á að kveikja á ofninum á 225° blástur. Þeytið eggin og sykurinn saman þar til létt og ljóst og sigtið þá í þurrefnin. Hrærið þurrefnunum saman við eggjablönduna með sleif þar til orðið er slétt deig. Setjið smjörpappír á ofnplötu og dreifið deiginu yfir. Bakið inni í ofni í 5-7 mínútur. Takið ofnplötuna út og leyfið kökunni alveg að kólna. Ég rúllaði minni upp á meðan hún var heit, ennþá með pappírnum á svo hún myndi kólna í rúllu og koma þannig í veg fyrir sprungur. Smyrjið smjörkreminu yfir jafnt og rúllið botninum varlega upp. Skreytið með smjörkremi ofaná ef þið viljið.

Moussaka

Um daginn var moussaka í matinn í vinnunni. Ég hafði aldrei smakkað þennan rétt, sem kemur frá Grikklandi, áður en ég og samstarfsfélagar mínir vorum mjög hrifin af réttnum. Ég vissi að mig langaði að prófa að gera hann sjálf og fann uppskrift á netinu og ákvað að prófa. Uppskriftin var mjög góð og verð ég því að deila henni með ykkur. Þetta er ekkert flókinn réttur en samt ekki beint eitthvað sem maður skellir bara í þar sem hann er með þónokkrum skrefum. Ég mæli með að dunda sér með þennan rétt um helgi, ekta réttur í kuldanum sem er úti núna.

 • 3 eggaldin
 • 2 bökunarkartöflur

Hakkblanda

 • 500 gr nautahakk
 • 2 laukar
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1 tsk sykur
 • 2 dl vatn
 • 1 nautateningur
 • salt og pipar
 • lárviðarlauf
 • 1-2 msk kanil

Bechamel sósa

 • 900 ml mjólk
 • 120 gr smjör
 • 120 gr hveiti
 • 2 eggjarauður
 • 100 gr parmesan
 • smá salt

Byrjið á því að skera kartöflurnar og eggaldin í þunnar sneiðar og leggja á bökunarplötu. Bakið í um 20 mínútur á 200° eða þar til kominn er smá litur á eggaldinið og kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Gerið á meðan hakkblönduna.

Byrjið á að hita smá olíu á pönnu og steikja saxaðann laukinn þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið þá hakkinu út á og svo hvítlauknum pressuðum og steikið hakkið alveg í gegn. Bætið hökkuðu tómötunum, tómatpúrrunni, sykrinum, vatninu og nautateningnum út í og hrærið vel. Bætið kryddinu, lárviðarlaufinu og kanil út í og leyfið að malla. Veiðið laufið uppúr þegar hakkblandan er tilbúin.

Bræðið smjörið í potti og bætið hveitinu útá. Hrærið vel með písk þar til myndast smjörbolla (deigklumpur úr smjörinu og hveitinu) og hellið þá mjólkinni út á, smá í einu og hrærið vel með písknum. Þegar jafningurinn er orðinn þykkur þá er eggjarauðunum bætt útí og hrært hratt saman við svo þau eldast ekki og fara í kekki. Hrærið að lokum parmesan ostinum saman við og saltinu.

Raðið kartöfluskífunum í eldfast mót í botninn. Raðið lagi af eggaldinsneiðum yfir kartöflurnar og svo hakkblöndu yfir það. Setjið annað lag af eggaldinsneiðum yfir hakkið og svo bechamel sósuna yfir hakkið. Gott er að setja smá auka parmesan yfir allt, en ekki nauðsynlegt. Bakið í ofni á 180° í 60 mínútur og leyfið að kólna aðeins áður en borið er fram.