Moussaka

Um daginn var moussaka í matinn í vinnunni. Ég hafði aldrei smakkað þennan rétt, sem kemur frá Grikklandi, áður en ég og samstarfsfélagar mínir vorum mjög hrifin af réttnum. Ég vissi að mig langaði að prófa að gera hann sjálf og fann uppskrift á netinu og ákvað að prófa. Uppskriftin var mjög góð og verð ég því að deila henni með ykkur. Þetta er ekkert flókinn réttur en samt ekki beint eitthvað sem maður skellir bara í þar sem hann er með þónokkrum skrefum. Ég mæli með að dunda sér með þennan rétt um helgi, ekta réttur í kuldanum sem er úti núna.

 • 3 eggaldin
 • 2 bökunarkartöflur

Hakkblanda

 • 500 gr nautahakk
 • 2 laukar
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1 tsk sykur
 • 2 dl vatn
 • 1 nautateningur
 • salt og pipar
 • lárviðarlauf
 • 1-2 msk kanil

Bechamel sósa

 • 900 ml mjólk
 • 120 gr smjör
 • 120 gr hveiti
 • 2 eggjarauður
 • 100 gr parmesan
 • smá salt

Byrjið á því að skera kartöflurnar og eggaldin í þunnar sneiðar og leggja á bökunarplötu. Bakið í um 20 mínútur á 200° eða þar til kominn er smá litur á eggaldinið og kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Gerið á meðan hakkblönduna.

Byrjið á að hita smá olíu á pönnu og steikja saxaðann laukinn þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið þá hakkinu út á og svo hvítlauknum pressuðum og steikið hakkið alveg í gegn. Bætið hökkuðu tómötunum, tómatpúrrunni, sykrinum, vatninu og nautateningnum út í og hrærið vel. Bætið kryddinu, lárviðarlaufinu og kanil út í og leyfið að malla. Veiðið laufið uppúr þegar hakkblandan er tilbúin.

Bræðið smjörið í potti og bætið hveitinu útá. Hrærið vel með písk þar til myndast smjörbolla (deigklumpur úr smjörinu og hveitinu) og hellið þá mjólkinni út á, smá í einu og hrærið vel með písknum. Þegar jafningurinn er orðinn þykkur þá er eggjarauðunum bætt útí og hrært hratt saman við svo þau eldast ekki og fara í kekki. Hrærið að lokum parmesan ostinum saman við og saltinu.

Raðið kartöfluskífunum í eldfast mót í botninn. Raðið lagi af eggaldinsneiðum yfir kartöflurnar og svo hakkblöndu yfir það. Setjið annað lag af eggaldinsneiðum yfir hakkið og svo bechamel sósuna yfir hakkið. Gott er að setja smá auka parmesan yfir allt, en ekki nauðsynlegt. Bakið í ofni á 180° í 60 mínútur og leyfið að kólna aðeins áður en borið er fram.

Nóvember óskalisti

Í dag er eins og flestir ættu að hafa tekið eftir Black Friday. Ég verð bara að viðurkenna að svona dagar stressa mig frekar mikið, mér finnst ég verða að kaupa eitthvað bara því það er á afslætti. Ég er að reyna að vera skipulögð með gjafir og nýta afslætti á hlutum sem ég hefði hvort sem er keypt en ekki bara kaupa til þess að kaupa. Ég kláraði nokkrar jólagjafir á singles day og vona að ég nái bara að klára það sem er eftir í dag, að minnsta kosti meirihlutann.

Ég er um þessar mundir alveg að jóla yfir mig, við misgóðar undirtektir á Instagram. Ég skil ekki að fólk sé ekki byrjað að skreyta, nánast korter í jól! Ég er að minnsta kosti alveg dottin í gírinn og er búin að setja upp jólatréð, búin að setja seríurnar á svalirnar og bíð núna bara eftir að geta kveikt á fallega dagatalskertinu mínu frá Vigt.

Ég og Karen vinkona mín fórum um daginn á jólakvöld hjá Vigt og þá splæsti ég í dagatalskertið sem er svo tryllt og svo keypti ég líka gjöf handa sjálfri mér. Ég sýndi pakkann á Instagram en sýndi ekki hvað var í honum. Ég er ekki ennþá búin að opna hann sem er mjög ólíkt mér en mig langar smá að geyma hann bara og opna hann á aðfangadag, sjáum til. Allavega þá keypti ég mér snagana þeirra sem eru sko rugl flottir. Þeir eru úr marmara og við og eru bara skúlptúrar á veggnum. Ég er mjög spennt að opna þennan pakka og skoða þá betur en ég bíð aðeins.

Jakobsdal Anemone skál – fæst í Snúrunni og hún er svo falleg.

Ferm living ripple skálar – talandi um skálar þá rakst ég á þessar í Epal um daginn, vissi ekki að það væru komnar skálar í þessari vörulínu en ég á glösin og elska þau, verð eiginlega að eignast þessar.

Ugg inniskór – ég sá þessa á Boozt og þeir líta ekkert smá vel út, ekta fyrir mig sem elskar allt kósí.

Georg Jensen upphengi – mig er búið að langa í þetta hengi fyrir aðventukransinn minn frá Georg Jensen en ég hef aldrei látið verða af því að kaupa mér hann.

Skims náttföt – er alltaf að sjá fólk mæla með þessum náttfötum á tiktok og kósíkonan sem ég er verður að eignast eitt eða tvö sett.

Dior lip maximizer í 103 – og talandi um tiktok þá er þessi gloss að fara hamförum þar, ég verð að prófa hann.

Gisou hárolíuna – er búin að sjá þessa olíu mikið undanfarið og mig langar mjög að prófa hana, sá að hún vann Selfridges beauty award svo það hlýtur að lofa góðu.

Chia grautur

Ég sýndi frá því um daginn á Instagram hjá mér að ég keypti mér svo svakalega sniðugar krukkur í Ikea. Þær eru alveg fullkomnar undir chia graut eða overnight oats sem er rosalega vinsælt núna. Krukkurnar heita Dagklar og kosta 795 kr stykkið. Ég keypti mér fjórar en ég vinn fjóra daga í viku og þá get ég auðveldlega kippt þessu með mér í vinnuna. Þetta er krukka með stálskál efst þar sem maður getur sett granóla til dæmis svo það haldist ferskt og krönsí og verði ekki slepjulegt í grautnum eða jógúrtinu.

 • 2-3 msk chia fræ
 • 1.5 dl dl mjólk (ég nota möndlumjólk, hægt að nota hvaða mjólk sem er)

Blandið fræunum og mjólkinni vel saman. Mér finnst gott að setja smá hunang út í eða smá vanilludropa. Ég bætti við hörfræum út í grautinn sjálfann og hnetusmjör í þetta skiptið og hafði í álskálinni granóla frá Maikai, jarðaber, suðusúkkulaðidropa og döðlubita. Það er hægt að leika sér endalaust með toppings í þessu!

Kjúklinga núðlusúpa

Í gær byrjaði ég að baka smákökur! Ég er sko alveg komin í jólagírinn en ég setti þó ekki upp jólatréð um helgina eins og planið var. Ég fór í Ikea í gær og sá þar svo sætar kökukrukkur sem ég keypti og varð þá auðvitað að baka ofaní þær.

Núna þegar farið er að kólna svona mikið þá langar mig alltaf í eitthvað rosa gott að borða, helst eitthvað heitt og matarmikið sem hlýjar manni að innan. Ég keypti mér svaka græju þegar við fórum til Bandaríkjanna yfir páskana, kjöt-tætara, sem ég er búin að bíða spennt eftir að geta notað. Ég ákvað svo að gera þessa súpu og nota græjuna í hana, en það er samt alveg hægt að nota bara venjulega gafla. Ég mæli heilshugar með því að prófa að gera þessa súpu. Hún er ótrúlega bragðgóð og matamikil en hún er líka alveg lúmskt fljótleg og miklu auðveldari en hún hljómar. Hún er líka bara gerð í einum potti sem sparar heldur betur uppvaskið, hver hatar það?

 • 3 kjúklingabringur
 • ólífuolía til steikingar
 • 1 laukur
 • 4-6 gulrætur
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 1 líter chicken eða vegetable broth (fæst t.d. í Bónus)
 • 2 kjúklingateningar
 • 1 dós grænar baunir
 • 1 dós gular baunir
 • 1 pakki eggjanúðlur
 • lúka spínat
 • salt og pipar eftir smekk

Byrjað er á að saxa niður laukinn, gulræturnar og hvítlaukinn. Hitið olíuna í potti og steikið grænmetið í sirka 5 mínútur. Hellið þá broth-inu yfir og leyfið suðunni að koma upp. Setjið kjúklingabringurnar ofaní ásamt kjúklingateningunum og baununum. Lækkið í hitanum og leyfið að malla í 20 mínútur og takið þá kjúklinginn uppúr og rífið hann. Bætið við vatni eftir þörfum. Bætið kjúklingnum aftur útí ásamt núðlunum. Þegar núðlurnar eru tilbúnar er spínatinu bætt útí. Kryddið eftir smekk og berið fram.

Williams Sonoma ilmur

Þessi vika fór ekkert allt of vel af stað en á mánudaginn var hringt úr leikskólanum þar sem Emma var orðin veik og við beðin að sækja hana. Ég var heima með hana á þriðjudaginn og í gær, það getur sko tekið á að vera með eina litla heima sem mætti alveg við smá útrás á orku. Við gerðum nú samt bara gott úr hlutunum og höfðum það rosa notalegt saman. Ég djúphreinsaði ryksuguna á meðan Emma horfði á sjónvarpið og ég náði að ryksuga og skúra á meðan Emma horfði, þá er það að minnsta kosti ekki eftir! Þegar Oliver kom heim úr vinnunni fór ég niður í geymslu og náði í jólaskrautið okkar. Ég er alltaf sjúklega snemma í öllu tengdu jólunum en ég ætla að bíða með tréð þangað til Emmu líður betur.

Það eru komnar seríur út á svalir, jólastjarnan mín frá Dimm er kominn út í glugga og nokkrir litlir hlutir hér og þar. Ég er rosalega spennt fyrir jólunum í ár, Emma er farin að skilja svo svakalega mikið og það er svo gaman að upplifa svona spennandi hluti í gegnum hana. Hún er samt alveg á því að það sé enginn jólasveinn að fara að koma inn til hennar á nóttunni þegar hún sefur.

Ég setti inn um daginn á insta story „uppskrift“ ef það má segja það af heimatilbúnum heimilisilm. Ég ákvað að deila henni hingað inn líka en ég sá hugmyndina á tiktok og varð að prófa. Þetta lætur heimilið ilma alveg dásamlega og er alveg eiturefnalaus. Þetta á að ilma alveg eins og Williams Sonoma búðin í Bandaríkjunum, sem ilmar alltaf ótrúlega vel.

 • sítróna
 • rósmarín
 • svartur pipar
 • 1 tsk vanilludropar

Setjið hráefnin í pott og fyllið pottinn af vatni. Náið upp suðu og lækkið þá í pottinum og leyfið að malla. Ég leyfi mínu bara að malla í tvo tíma, ég fylgist bara vel með vatnsmagninu og bæti við ef þarf. Heimilið mun ilma alveg dásamlega.

Chili con carne

Oliver eldaði í gær og hann vill alltaf prófa að elda eitthvað nýtt þegar hann tekur eldamennskuna að sér. Ég kvarta sko ekki yfir því og nýt þess í botn þegar hann tekur við eldhúskeflinu. Í gær eldaði hann chili con carne og það var svo sjúklega gott. Ég fór í ræktina um 6 leytið og þegar ég kom heim beið mín tilbúinn matur, ekki amalegt! Ég ákvað að smella nokkrum myndum af réttinum og birta uppskriftina hérna. Myndirnar eru ekki að koma neitt svakalega vel út núna þegar það er farið að dimma snemma svo ég þarf að fara að finna stúdíó ljósin mín í geymslunni núna fyrir veturinn.

 • 500 gr nautahakk
 • olía til að steikja
 • salt, pipar og chiliflögur eftir smekk
 • 2 rauðlaukar
 • 3 hvítlauksrif
 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 250 ml chili sósa
 • 2 tsk paprikukrydd
 • 1 tsk tabasco
 • 1/2 tsk kanill
 • 1 tsk cummin
 • 2 msk balsamik edik
 • 2 dósir baunir (við notuðum pinto og nýrna)

Steikið nautahakkið og kryddið með salti, pipar og chiliflögum. Setjið yfir í stóran pott.

Afhýðið og hakkið lauk og hvítlauk og steikið í olíu. Setjið í pottinn með nautahakkinu. Setjið hakkaða tómata og chilisósu í pottinn og hrærið öllu saman. Kryddið með paprikukryddi, kanil, cummin, balsamikediki og tabasco. Látið sjóða í 10 mínútur.

Hellið vökvanum af baununum og skolið þær í köldu vatni. Bætið baununum í pottinn og látið allt malla saman þar til baunirnar eru orðnar heitar.

Gott er að bera fram með snakki, sýrðum rjóma og avocado. Við eigum alltaf afgang sem við notum svo í taco daginn eftir.

Parmesan kartöflumús

Í gær vorum við ekki með neitt ákveðið í kvöldmatarmálum. Við fórum í Krónuna eftir vinnu og ákváðum að hafa heima deit og keyptum nautafillet og í kartöflumús og sósu. Það var svo notalegt hjá okkur en við gáfum Emmu að borða og Oliver fór svo að svæfa hana á meðan ég byrjaði að græja matinn. Ég kveikti á kertum og lagði fallega á borð, kveikti á tónlist og svo borðuðum við saman þegar Emma var sofnuð. Þetta var svo ótrúlega kósí og það brýtur alveg upp hversdagsleikann að gera eitthvað svona smá sérstakt einstaka sinnum á venjulegum virkum degi.

Það liggur við að kartöflumúsin hafi verið aðal atriðið í máltíðinni en hún var alveg sjúklega góð. Ég lofaði einum yndislegum blogglesanda að birta uppskriftina af henni í dag svo hér kemur hún.

 • 6-8 bökunarkartöflur (fer eftir stærð)
 • 100 gr smjör
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 dl mjólk
 • nóg af rifnum parmesan
 • salt, pipar og hvítlaukskrydd eftir smekk
 • hökkuð steinselja (má sleppa)

Byrjað er að skera kartöflurnar í bita og sjóða þær þar til þær eru alveg mjúkar í gegn (hnífur rennur auðveldlega í gegnum þær). Hellið þá vatninu frá og bætið restinni af hráefnunum saman við og maukið með kartöflustappara, það er líka hægt að nota handþeytara. Mér finnst best að hafa hýðið með en það er auðvitað hægt að taka það af áður en kartöflurnar eru soðnar ef þið viljið það.

Október óskalisti

Núna er október hálfnaður og mér finnst alveg kominn tími til þess að huga að jólagjöfum. Ég vil helst vera snemma í því í ár en ég man það að ég var í svakalegu stressi í fyrra og vil helst sleppa því núna. Það er svo gott að vera bara búin að græja þetta sem fyrst og geta notið frekar með fjölskyldunni í desember heldur en að vera í æsingnum í Smáralind. Hér getur Oliver amk fundið sniðugar hugmyndir handa mér í jólagjöf ef hann vill klára mínar gjafir snemma hahaha. Það væri kannski gaman að gera svona gjafahugmyndafærslu, ég nota svoleiðis hugmyndir rosalega mikið þegar ég er í vandræðum.

Norr11 veggljós – Mér finnst þetta ljós geðveikt flott, er samt ekki alveg búin að ákveða hvar ég myndi hafa það.

Pavement Linea – Auður Hrönn vinkona mín keypti sér þessa skó á Kringlukasti um daginn og þeir eru geðveikir, núna langar mig líka í þá.

Byredo kerti – Þetta kerti er búið að vera lengi á óskalistanum mínum en það er bara alltaf uppselt!

Steamery gufuvél – Ég verð að eignast þessa fljótlega, ég bara kann ekki að strauja, ekki skemmir hvað hún er falleg.

Raymond Weil úr – Mér finnst þetta úr alveg tryllt og mig vantar fallegt úr en ég kannski kaupi mér það í afmælisgjöf eða eitthvað svoleiðis.

Royal Copenhagen – Mig langar í meira í Royal safnið mitt, ekkert eitthvað eitt sérstakt en mér finnst þessi bolli ótrúlega sætur, samt með mínum staf.

Cajun kjúklingapasta

Í dag er mánudagur og ný vika að hafin. Við áttum ótrúlega notalega helgi og förum því endurnærð inn í nýja viku. Á laugardaginn fór ég með vinkonum mínum í Kringluna aðeins að kíkja og svo fórum við Oliver og keyptum nautalund og elduðum hana heima hjá tengdó um kvöldið. Í gær átti síðan tengdó afmæli svo við kíktum í köku til hennar, svo fórum við Oliver tvö saman í Ikea, síðan vorum við bara heima restina af deginum. Oliver horfði á fótbolta, Emma lék sér og ég kom heimilinu í stand fyrir vikuna. Mér finnst svo óþægilegt að fara inn í nýja viku með heimilið ekki í standi. Ég reyni því alltaf eins og ég get að gera fá plön á sunnudögum svo ég nái að taka til, þrífa, græja leikskólatösku og svo aðeins að komast í dekursturtu. Við horfðum svo á Gulla Byggi eftir að Emma sofnaði, sem við gerum alltaf á sunnudagskvöldum.

Á föstudaginn vissum við ekkert hvað okkur langaði að hafa í matinn. Oliver var búinn að bjóðast til þess að elda og fara að kaupa í matinn. Eins og hann gerir nánast alltaf þegar hann eldar þá skoðar hann uppskriftir á Ljúfmeti, bloggið hjá mömmu minni.

Það er svo skemmtilegt að skoða gamlar færslur þar því mamma skrifaði alltaf smá persónulegt í byrjun hverrar færslu sem er gaman fyrir okkur systkinin eða bara fjölskylduna að lesa yfir. Þessi uppskrift sem hann fann á föstudaginn var til dæmis frá 2012 en þá er ég 14 ára. Maturinn heppnaðist ótrúlega vel og fannst mér tilvalið að endurbirta uppskriftina hér inni 10 árum síðar.

 • 225 gr tagliatelle
 • 700 gr kjúklingabringur
 • 1-2 tsk cajun krydd
 • 1 msk ólívuolía
 • 1 rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
 • 1 gul paprika, skorin í þunnar sneiðar
 • 1 rauðlaukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 2 tómatar, skornir í bita
 • 1 bolli kjúklingasoð (vatn og kjúklingateningur)
 • 1/3 bolli mjólk
 • 1 msk hveiti
 • 3 msk rjómaostur
 • nýmalaður pipar
 • salt

Blandið saman hveiti, rjómaosti og mjólk í matvinnsluvél eða með töfrasprota og leggið til hliðar.

Skerið grænmetið niður og leggið til hliðar. Skerið kjúklingabringurnar í strimla og kryddið með cajun-kryddi. Hitið ólívuolíu á pönnun og steikið kjúklingabringurnar. Kryddið með hvítlaukskryddi, salti og cajun-kryddi. Leggið til hliðar.

Bætið meiri ólívuolíu á pönnuna og mýkjið paprikurnar og rauðlaukinn við miðlungsháan hita, ca 3-4 mínútur. Bætið tómötunum og hvítlauknum á pönnuna og steikið áfram í 2-3 mínútur. Bætið mjólkurblöndunni, kjúklingasoðinu og kjúklingabringunum á pönnuna og látið allt sjóða saman um stund. Smakkið til með salti og pipar.

Sjóðið tagliatelle samkvæmt leiðbeiningum á pasta. Berið réttinn fram með pasta og hvítlauksbrauði.

Súkkulaðikaka með kaffikremi

Í gær var ég í vinnustyttingu svo ég er í fjögurra daga fríi þar sem ég vinn ekki föstudaga. Ég fór í gær að hitta frænkur mínar sem búa í Reykjanesbæ, við erum með smá saumaklúbb með mömmu og skiptumst á að bjóða í mat. Á morgun ætlum við svo að fara með Emmu í leikhús, Emma elskar fátt meira en að fara í leikhús, ég get eiginlega ekki beðið! Í dag ætla ég eins og alla föstudaga að gera notalegt heima, kaupa ný blóm fyrir helgina og svo sá ég að Gulli Arnar er að selja sjónvarpskökucroissant í dag og á morgun, ég bara verð að koma við hjá honum!

Mamma var í Stokkhólmi síðustu helgi og sendi mér þessa uppskrift hér, úr einhverju sænsku matartímariti. Okkur leist báðum svo svakalega vel á hana og ég bakaði hana strax daginn eftir. Hún stóðst allar væntingar og var mjög bragðgóð, ég myndi mæla með að prófa hana um helgina.

Súkkulaðikaka

 • 100 gr smjör
 • 2 egg
 • 250 gr sykur
 • 150 gr hveiti
 • 1 dl kakó
 • 1 tsk vanilludropar
 • salt af hnífsoddi

Bræðið smjörið. Þeytið saman sykurinn og eggin og bætið svo smjörinu saman við. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel. Bakið við 200° í 20 mínútur í hringformi klæddu bökunarpappír.

Kaffikrem

 • 100 gr mjúkt smjör
 • 300 gr rjómaostur
 • 4 msk flórsykur
 • 4 msk kakó
 • 4 msk kalt kaffi

Þeytið smjörið þar til létt og ljóst. Bætið þá í öllu nema kaffinu og þeytið vel saman. Bætið undir lokin kaffinu í og bætið smá flórsykri saman við ef kremið verður of blautt.

Dreyfið kreminu yfir kökuna þegar hún hefur kólnað, ég notaði sprautupoka og klippti neðan af honum og sprautaði á litlar kúlur.