Súkkulaðibitakaka

Í síðustu viku, áður en við fórum til Danmerkur þá fór Oliver í 2 daga ferð með fótboltanum á Vopnafjörð. Ég var því ein heima með Emmu á meðan, smá stressuð að þurfa að sjá ein um hana, heimilið og undirbúa Danmerkur ferðina. Ég ákvað því að reyna að njóta eins mikið og ég gat og skellti í þessa köku sem mig hefur langað að prófa lengi. Ég græjaði deigið á meðan Emma fékk að horfa á Dóru og skellti henni í ofninn eftir að hún fór að sofa. Ég kveikti á kertum og horfði á það sem ég vildi horfa á og ég bara verð að viðurkenna að það var bara ótrúlega notalegt að vera bara ein aðeins. Það töldu sko engar kaloríur og það var enginn skjátími þessa tvo daga!

 • 175 gr mjúkt smjör
 • 200 gr púðursykur
 • 1 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 250 gr hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • hnífsodd salt
 • grófsaxað súkkulaði (100-200 gr eftir smekk)

Byrjið á að hita ofninn í 180°. Þeytið smjörið og púðursykurinn vel saman, bætið svo eggi og vanilludropum og hrærið vel saman. Bætið síðan hveiti, matarsóda og salti saman við og hrærið þar till allt er vel blandað saman áður en þið að lokum hrærið saman við súkkulaðinu. Þrýstið deiginu niður í eldfast mót og bakið í ca 25 mínútur.

Berið fram með ís eða bara eitt og sér.

September óskalisti

Núna er kominn seinni hluti september og við komum heim frá Kaupmannahöfn í gær. Þetta var stutt skrepp hjá okkur en Oliver var að hlaupa hálfmaraþon á sunnudaginn. Hann var með það markmið að hlaupa 21 km undir 2 tímum og náði því, en hann var 1 klst og 53 mínútur, ótrúlega flott hjá honum. Við vorum svo bara að versla aðeins á Strikinu og hafa það huggulegt. Ég fattaði þegar ég var úti að ég ætti alveg eftir að setja inn september óskalistann minn.

Libre YSL- Fyrsta sem var búið að vera reyndar á listanum í smá tíma var Libre ilmvatnið frá YSL en Oliver gaf mér það í gær. Það er svo ótrúlega góð lykt af því, ég er alveg í skýjunum með það.

Balenciaga trefill – Ég er búin að vera með þennan á óskalistanum mínum lengi og ég keypti hann loksins í ferðinni. Oliver ætlaði að gefa mér hann í jólagjöf 2020 en hann var þá uppseldur og við höfum verið í basli með að reyna að finna hann síðan þá, þangað til ég sá hann í Kaupmannahöfn núna, einn eftir. Hann er risastór, í mínum litum og úr ull, alveg fullkominn fyrir haustið og veturinn.

Lancome kinnalita stifti – Mig langar mjög mikið að prófa þetta stifti sem allir eru að dásama, ég kaupi mér það næst þegar það kemur taxfree í Hagkaup.

Ani Jewels hálsmen – Mig langar í svona stafahálsmen frá þessu merki, en það er Bianca Ingrosso, sænskur áhrifavaldur sem á þetta merki.

Ný rúmföt – Við eigum æði rúmföt sem eru beige hör rúmföt en ég sullaði óvart klór í þau svo ég þarf því miður að skipta þeim út.

Súpuskálar – Núna þegar haustið er að byrja þá er súpa í matinn algjört möst, mig langar að eignast fallegar súpuskálar en er ekki með sérstakar í huga eins og er.

Luktir frá Íslensk Heimili – Þær eru eitthvað svo notalegar núna þegar kertatímabilið er að fara af stað.

Trashcan-nachos

Á sunnudaginn var svo gott veður og okkur langaði að fara niður í bæ og fá okkur nachos og drykk. Við vorum samt svo þreytt eftir vikuna að við nenntum ekki að fara niður í bæ með Emmu og vildum bara slappa af. Við ákváðum bara að gera nachos heima og ég fékk mér svo bara einn Lov með.

Nachosið heppnaðist bara ótrúlega vel, ekki það að nachos er mjög „foolproof“ og nánast ekki hægt að klúðra því. Ég ætla að setja inn hvað við settum á okkar nachos, þetta er meira svona „matur“ frekar en eitthvað sófanasl eins og eðla. Það er hægt að leika sér fullt með hvað maður setur í þetta en þetta gerðum við:

 • tortilla flögur
 • salsa sósa
 • ostasósa (tostitos er lang best að okkar mati)
 • sýrður rjómi
 • kirsuberjatómatar
 • rauðlaukur
 • svartar baunir
 • rifinn ostur
 • nautahakk
 • avókadó

Setjið bökunarpappír yfir ofnplötu og hellið nachosinu yfir. Þurrsteikið hakkið og kryddið vel með ykkar uppáhalds kryddi. Dreifið hakkinu jafnt yfir snakkið og svo salsa og ostasósu yfir líka. Saxið laukinn og skerið tómatana í litla bita og dreifið yfir. Setjið svartar baunir og rifinn ost yfir og setjið ofnplötuna inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Toppið þá með sýrðum rjóma og avókadó og berið strax fram. Oliver var með jalapenos líka enn til hliðar því Emma borðar það ekki á sitt.

Kanelbulle sockerkaka

Ég elska formkökur og finnst þær oft vera frekar vanmetnar. Mamma gerði þessa síðasta sunnudag þegar við komum í heimsókn og hún sló í gegn. Kakan var dúnamjúk og ótrúlega djúsí. Ég varð að mynda hana og deila uppskriftinni með ykkur. Kakan er ekta kaka til þess að bjóða uppá með kaffinu um helgina.

 • 3 egg
 • 2 dl sykur
 • 100 gr mjúkt smjör
 • 1 dl mjólk
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 1/4 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • hnífsoddur salt

kanilsykur:

 • 1/2 dl sykur
 • 1 msk kanill

Byrjið á því að þeyta saman egg og sykur þar til það er létt og ljóst. Bætið svo smjörinu saman við og hrærið vel. Bætið mjólkinni við og síðan þurrefnunum. Setjið smá af deiginu í smurt form og stráið kanilsykri yfir, smá meira deig og aftur kanilsykur yfir það, endurtakið þar til deigið er allt komið í formið. Stráið kanilsykri efst á deigið og nokkrar litlar smjörklípur yfir. Bakið í 40 mínútur í 180°.

Eldhús inspo

Núna langar mig ótrúlega mikið að fara að gera eldhúsið okkar fínt. Þið sem fylgið mér á instagram hafið kannski tekið eftir því að ég sýni eldhúsið mitt örsjaldan miðað við restina af íbúðinni, sérstaklega miðað við að ég er matarbloggari. Eldhúsið hefur alltaf verið aftarlega á framkvæmdarlistanum því það er alveg nýlegt, samt alveg síðan 2006 en ég er að meina að það er ekki frá 1950 eða eitthvað svoleiðis. Það virkar allt í eldhúsinu eins og það á að gera eina sem er „að“ er að eikin í innréttingunni er búin að gulna svakalega og borðplatan og vaskurinn orðin lúin. Það var líka veggfóður sem backsplash á milli efri skápa og borðplötu sem við rifum af og veggurinn er ljótur eftir það.

Núna erum við búin að græja nánast allt sem var ofar á listanum í framkvæmdum og það sem við þurftum að kaupa svo það má fara að huga að eldhúsinu. Ég var fyrst að spá í að kaupa bara nýtt eldhús en mér finnst eiginlega synd að gera það þegar ekkert er að innréttingunni og hún er sérsmíðuð hingað inn. Ég er því að spá í að láta sprauta hana, skipta um borðplötu, höldur og setja fallegar flísar á milli efri skápa. Þegar við fluttum inn þá var eldhúsið stúkað af með vegg sem við tókum niður og settum nýja stóra borðplötu yfir svo hægt væri að sitja við eyjuna. Ég væri til í að hafa eins borðplötur báðum megin en ekki eins og er núna: ný borðplata á eyjunni og gamla borðplatan ennþá á rest.

Ég fer fram og tilbaka hvort ég vilji láta sprauta innréttinguna svarta eða hvíta og hvernig flísar og vask mig langar í. Ég er með nokkrar myndir vistaðar í mood board á pinterest sem ég ætla að deila með ykkur. Mér sýnist lendingin á innréttingunni vera ljós, miðað við myndirnar sem ég er með vistaðar, ég held að það myndi koma best út á mínu heimili sem er allt frekar ljósir tónar. Mig langar að fá mér fallegt ljós yfir eyjuna og jafnvel breyta eyjunni aðeins, mig dreymir um svona vínkæli framan á eyjuna, best að byrja að safna haha!

Kladdkaka með saltkaramelluís

Föstudagar eru uppáhalds dagarnir mínir. Ég er alltaf í fríi á föstudögum og þá vakna ég alltaf snemma, fer í ræktina, þríf heima og geri fínt fyrir helgina og oftar en ekki baka eitthvað gott og sæki svo Emmu snemma. Við Karen vinkona kíkjum líka oft saman í Epal á föstudögum, það er orðin smá hefð sem er svo sannarlega ekki leiðinleg. Það er eitthvað svo ótrúlega notalegt við það að hafa þennan eina dag bara fyrir sig og fara inn í helgina á góðum nótum, búinn að vera ein að dunda mér og með heimilið fínt.

Í dag bakaði ég þessa geggjuðu kladdköku, sænsk klassík. Kladdkökur eru svo auðveldar í gerð og taka stuttan tíma. Það er mjög hentugt að henda í svona fyrir helgarkaffið, ég mæli með að þið prófið þessa um helgina, hún kemur á óvart.

 • 100 gr smjör
 • 100 gr mjólkursúkkulaði
 • 2 dl sykur
 • 2 egg
 • 2 dl hveiti
 • 1 tsk vanillusykur
 • hnífsoddur af salti

Byrjið á því að bræða saman smjörið og súkkulaðið við vægan hita. Þegar blandan er bráðnuð er hún lögð til hliðar og leyft að kólna aðeins. Þeytið saman sykur og egg. Bætið hveiti, vanillusykri og salti út í eggjablönduna og hrærið. Blandið að lokum smjörblöndunni saman við og setjið í smurt form. Bakið við 175° í 20-25 mínútur og leyfið svo að kólna alveg. Kantarnir eiga að vera alveg bakaðir en miðjan smá mjúk. Berið kökuna fram með ískúlum ofaná.Ég notaði saltkaramelluís.

Fiskipanna frá Messanum

Mamma bauð mér í mat um daginn eftir vinnu. Við vorum bara tvær og þar sem við eigum það sameiginlegt að eiga matvanda menn þá þurftum við að nýta tækifærið vel. Mamma gerði þennan fiskrétt sem er réttur frá Messanum sem er sjúklega góður fiskistaður sem flestir ættu að þekkja. Þetta var alveg sjúklega gott og ég mæli mjög mikið með að þið prófið!

 • 350-450 gr þorskhnakkar
 • hveiti
 • 1 tsk grillkrydd eða aromat
 • 2 msk karrí
 • 1,5 tsk chiliduft
 • 80 gr blaðlaukur
 • 150 gr græn epli, hýðislaus í teningum
 • 150 ml hvítvín, sjóða niður um 1/3
 • 50 gr parmesan ostur
 • 300 ml rjómi
 • salt og pipar eftir smekk
 • smjör til steikingar

Þorsk­hnakki er skor­inn í 4-5 bita og velt upp úr hveiti (gott að hafa ein­hvers kon­ar grill­krydd eða bara Arom­at úti í hveit­inu). Best er að nota stóra pönnu ca. 30 cm og steikja fisk­inn þar til fal­lega brúnn. Kryddið er sett á þá hlið þorsks­ins sem snýr upp, svo blaðlaukn­um bætt út í. Því næst er sett hvít­vín og það soðið niður um 1/​3.

Svo næst er restinni bætt út í pönn­una:
Epli skor­in í ten­inga (létt­steikt ekki brúnuð)
Par­mes­an ost­ur rif­inn gróft
Rjómi
(má bæta meiri par­mes­an-osti og karrý eft­ir smekk þar til sós­an er þykk og fal­leg)

Þá eru kart­öfl­ur (sem búið er að sjóða) sett­ar til hliðar í pönn­una.
1 lúka rucola og/​eða spínat í miðja pönn­una og lime-sneiðar ofan á fisk­bit­ana.

Mælt er með að drekka kalt hvítvín með.

Stokkhólmur

Jæja, ég ætlaði alltaf að setja inn Stokkhólmsfærslu. Ég er búin að vera í nokkrar vikur að hugsa um þessa færslu, hvernig væri best að útfæra hana og hvað ég á að setja í hana. Stokkhólmur er að mínu mati fallegasta borg í heimi. Ég ólst upp í Stokkhólmi og mér finnst ég alltaf vera komin heim strax og ég lendi á Arlanda. Það er svo gott að geta talað sænskuna og borðað mat sem maður tengir við æskuna.

Þegar ég fer þá er það yfirleitt alltaf bara svona stutt skrepp í borgarferð og þá vill maður nýta tímann sem best og vera kannski búinn að ákveða eitthvað hvað maður vill gera og hvað maður vill borða og hvar. Ég mæli mikið með því að bóka borð fyrirfram því það getur stundum verið erfitt að fá borð á vinsælustu stöðunum í Stokkhólmi með litlum fyrirvara.

Matur

Skyndibiti og möns

 • Max
 • Grillkorv
 • Brödernas
 • Lösgodis (ekki skyndibiti en nammibar í Svíþjóð er must)
 • GB glass – sænskir íspinnar, minn uppáhalds er Piggelin og 88

Fínni staðir

 • La Perla
 • Un Poco
 • Den gamle och havet
 • Scarpetta
 • Calle P
 • Asian Post Office
 • Ciccios
 • Riche
 • Vau de Ville
 • Pa och co

Bakarí

 • Ingrids
 • Bröd och salt
 • Stora bageriet
 • Vetekatten

Hótel

Við Oliver höfum alltaf verið á sama hótelinu. Það er á alveg geggjuðum stað í bænum og mjög stutt stopp frá lestarstöðinni og þar sem Arlanda Express lestin kemur beint frá flugvellinum. Hótelið heitir Scandic no 53 og er staðsett á Kungsgatan. Það er hliðiná Vetekatten sem er ótrúlega gott bakarí sem ég nefndi hérna í tillögunum fyrir ofan, það er gamalt bakarí frá 1928 og þar er hægt að fá allskyns góðgæti eins og kókoskúlur, kanelsnúða, vanillusnúða o.s.frv. Það er ótrúlega gott úrval af morgunmat á hlaðborði sem er innifalið á hótelinu og svo er fínt lounge þar sem maður getur pantað sér drykk eftir kl 15 á daginn. Þetta hótel er á mjög góðu verði og allt er mjög hreint og snyrtilegt.

Ég hef líka verið á Haymarket sem er nánast hliðiná hinu hótelinu, bæði Scandic hótel sem mér líkar vel. Það er mikið stærra og með flottum bar í lounge-inu. Ég myndi hiklaust velja það fyrir svona vinkonuferð eða paraferð en kannski frekar hitt í fjölskylduferð, það er aðeins rólegra andrúmsloft þar. Morgunmaturinn er eins og á hinu hótelinu, hlaðborð nema aðeins stærra úrval. Hótelið er aðeins dýrara en hitt en maður fær líka mun meira fyrir peninginn. Mamma er alltaf á þessu hóteli þegar hún fer til Stokkhólms. Beint fyrir framan hótelið er Hötorget en þar er oft markaður þar sem fólk er að selja falleg blóm, ávexti og allskonar dót.

Afþreying

Í ferðinni okkar núna sem snérist mest um Emmu fórum við á Junibacken sem ég myndi segja að væri algjört must. Ég fór oft þangað sjálf sem barn og elskaði það, Emma er ennþá að tala um þessa ferð. Junibacken er safn fyrir börn með sögunum hennar Astrid Lindgren. Á safninu er gjafaverslun með fullt af bókum, dóti og fötum, það er útileiksvæði, það er sögulest þar sem maður svífur í gegnum sögurnar hennar Astrid Lindgren og svo endar maður í Sjónarhóli þar sem er hægt að leika. Það er svo Línu sýning um þrisvar á dag sem maður þarf að bóka sig inná, maður gerir það í afgreiðslunni og er það frítt. Svo er eitthvað hægt að kaupa að borða þarna líka.

Vasasafnið er stórskemmtilegt safn. Það er staðsett hliðiná Junibacken en það eru nokkur söfn og skemmtanir staðsettir á sama stað sem er mjög hentugt m.a. Skansinn, Gröna Lund, Abba safnið og fleira. Á Vasa safninu eru ekki blómavasar heldur risa stórt skip sem heitir Vasa. Ég mæli með að kynna sér aðeins sögu skipsins ef þið ætlið að kíkja áður en hún er mjög merkileg en í stuttu máli þá sökk Vasa skipið eftir 20 mínútur í fyrstu ferð þess, skipið er frá 17 öld og það er ótrúlegt að sjá hvað hélt sér vel þar sem það var í 333 ár í sjónum.

Skansinn er mjög skemmtilegur á sumrin, ég myndi lýsa honum sem blöndu af Árbæjarsafninu og Húsdýragarðinum, mjög gaman að kíkja í góðu veðri.

Gröna Lund er tívolíið í Stokkhólmi og er mjög skemmtilegt, mikið af sýningum þar líka, gott að skoða dagatalið á heimasíðunni þeirra hvort það sé eitthvað skemmtilegt í gangi.

Abba safnið, segir sig sjálft, ótrúlega skemmtilegt!

Moderna Museet er skemmtilegt listasafn sem getur verið gaman að kíkja á.

Það er skemmtilegur leikvöllur í Humlegården sem er gaman að fara með börn.

Búðir

Mall of Scandinavia – eitt stærsta moll Evrópu, tekur 7 mínútur að fara þangað úr miðbænum með lest.

NK – stór „department store“ með fullt af merkjum, rosalega gaman að skoða

Drottninggatan – skemmtileg verslunargata í miðbænum

Birger Jarlsgatan – gata með öllum helstu merkjavörubúðum, það er líka gaman að labba þaðan inn Biblioteksgatan en þar er til dæmis Sephora.

Åhlens City – er á drottninggötunni og er líka svona „department store“ með fullt af merkjum á stærra verðbili en NK, þar er meira af dýrari merkjum. Á efstu hæðinni var að opna skemmtilegur ítalskur staður sem við prófuðum sem var fínn matur á, hann heitir Basta Urban.

Ég held ég verði að gera part 2 einhverntíman, ég er búin að vinna í þessari færslu í langan tíma því ég man alltaf eftir einhverju öðru að bæta hér við. Ég læt þetta duga í bili, hejdå!

Ágúst óskalisti

Jæja það var kominn tími á að ég myndi taka saman ágúst óskalistann minn. Ég trúi ekki hvað sumarið er búið að vera fljótt að líða. Núna er ég byrjuð aftur í vinnunni og það leggst bara vel í mig. Núna er ég tilbúin í haustið og notalegheitin sem fylgja því. Emma byrjaði á nýrri deild í vikunni, fór semsagt upp um deild, ég er ekki að höndla það að hún sé að verða þriggja ára í janúar! Hún er allt í einu orðin svo stór og svo mikill krakki. Hún talar og talar allan liðlangan daginn og er svo skýr. Emma ætlar að gista hjá ömmu sinni í nótt og hafa það notalegt með henni. Við ætlum bara að hafa það kósí heima og horfa á Netflix og sækja okkur einhvern mat. Ég græjaði Baileys músina sem ég setti inn uppskriftina að hérna um daginn og svo keypti ég osta, kex, smá nammi, ber og freyðivín svo það mun ekki fara illa um okkur hérna heima í kvöld.

Elvang teppi – okkur vantar svo fallegt teppi í sófan. Við eigum engin teppi og mér finnst það vera algjört möst fyrir veturinn að geta haft kósí undir hlýju teppi. Hingað til höfum við verið að ná í sængurnar fram sem er alveg kósí en mér finnst það ekki spennandi til lengdar. Þetta teppi er ofarlega á lista hjá mér, það er úr alpaca ull og er úr Heimahúsinu.

Gucci skór – mér finnst þessir skór svo flottir og ég skil ekki afhverju því ég veit að þeir eru ljótir. Oliver skilur ekkert í mér að langa í þetta og finnst þeir algjör viðbjóður. Ég veit ekki hvað það er við þá en mér finnst þeir bara alveg geggjaðir. Ég er oft alveg næstum því búin að kaupa þá þegar ég hætti við. Ég fer varla að kaupa þá núna fyrst sumarið er alveg að klárast, sjáum hvort að mér finnist þeir ennþá flottir fyrir næsta sumar. Þeir fást á Mytheresa.

Staub steypujárnspottur – ég á einn steypujárnspott frá Le Creuset og mig langar í annan. Ég nota þann sem ég á rosalega mikið svo ég þyrfti að eiga tvo. Mér finnst þessi rosalega flottur. Hann fæst m.a. á Boozt.

Combekk panna – mig langar að fara að uppfæra pönnurnar mínar. Ég á alveg nýtt pottasett en vantar pönnur. Ég sá þessar hjá Verma og sá að það er afsláttur hjá þeim núna af öllu. Ég kannski nýti tækifærið og panta mér eina.

Ethnicraft hægindastóll – ég vil fá mér þennan einingasófa á móti sófanum, hliðiná sjónvarpsskenknum. Ég væri til í að fá mér svo seinna allann sófann, ss bæta við einingum svo hann verði sófi, ekki bara stóll. En ég myndi vilja bíða með það þar til Emma er orðin stærri. Sófinn fæst í Tekk Habitat.

Kabin Vase – ég fór áðan í Norr11 með Karen vinkonu minni og sá þennan vasa. Ég elska flotta vasa og núna er þessi kominn á óskalistann. Hann var líka til brúnn en ég held mig langi frekar í þennan ljósa.

Twix kökur

Ég er ekki alveg tilbúin í að sumarið sé bara að verða búið! Ég byrja að vinna aftur á mánudaginn eftir 5 vikna sumarfrí. Það verður gott að komast aftur í góða rútínu en ég hefði þó verið til í smá lengra frí, hefði ekki verið verra hefði verið einhver sól líka.

Í gær kom loksins stofuborðið sem við pöntuðum í Epal fyrir sumarið. Það kemur ekkert smá vel út og það er svo gott að vera komin aftur með borð inn í stofu. Við Karen vorum heima hjá henni að græja marengsstaf og döðlugott fyrir óvænta útskriftaveislu fyrir tvíburabróður hennar þegar ég fékk símtal um að borðið mitt væri komið. Við Karen skruppum því og sóttum það, svo dröslaði ég kassanum ein inn í lyftuna, út á gang og inn í forstofu sveitt. Svo náði ég að setja það saman sjálf, mér leið eins og ég væri algjör ofurkona! Það sem það er búið að breyta íbúðinni að fá gardínurnar og svo stofuborðið. Við erum alveg búin á nokkrum mánuðum að breyta stofunni, fengum okkur nýjann sófa, nýtt borð og nýjar gardínur, við erum rosalega ánægð með útkomuna.

Oliver fann uppskriftina af þessum kökum á Facebook hjá sér held ég og hann var svo spenntur að prófa þetta. Hann græjaði þetta á meðan ég kom Emmu í háttinn og þetta var sjúklega gott. Ég er ekki mjög hrifin af twix svo ég var ekkert að missa mig þegar hann sýndi mér uppskriftina sem hann vildi prófa en ég bara verð að viðurkenna að ég gat ekki hætt að borða þessar kökur. Þær voru það góðar. Ég ætla því að deila með ykkur uppskriftinni.

 • 215 gr mjúkt smjör
 • 115 gr sykur
 • 325 gr hveiti
 • 100 gr karamella
 • 100 gr súkkulaði

Hnoðið saman smjöri, sykri og hveiti. Við notuðum aðeins meira hveiti því deigið var ennþá smá klístrað, passið að hafa hveiti á borðfletinum og kökukeflinu. Fletjið deigið út og skerið út litla hringi með piparkökumótum (við notuðum glas). Bakið á 150° blæstri í 10 mínútur og leyfið að kólna. Uppskriftin segir að nota tilbúna karamellu, fæst til dæmis í Krónunni, en ég gerði karamelluna sjálf og notaði þessa uppskrift hér. Smyrjið karamellunni yfir kökuna og svo bræddu súkkulaði yfir karamelluna. Geymið í ísskáp á meðan súkkulaðið harðnar.