Kaupmannahöfn

Vá það eru liðnar tvær heilar vikur síðan ég setti inn færslu! Ég er búin að reyna að koma mér á strik eftir ferðalögin en hausinn á mér er bara ennþá í fríi. Við mamma skruppum til Köben þar sem bræður mínir búa og heimsóttum þá og áttum alveg hreint æðislega daga saman.

Það var svo skrítið að vera bara við fjögur saman, sem við höfðum ekki verið síðan árið 2015, eða fyrir 8 árum síðan! Það var sérstakt að vera bara við alveg eins og „í gamla daga“ áður en Emma og Oliver komu til sögunnar en Oliver flutti inn til mín (og mömmu) þegar hann var bara 17 ára (fyrir 7 og hálfu ári síðan) og fyrir það voru það bara við fjögur, ég, mamma og bræður mínir tveir. Mér finnst við vera rosalega náin fjölskylda og finnst ég rosalega heppin með það hvað við höfum alltaf öll náð vel saman, sérstaklega þar sem ég á tvo bræður sem eru tvíburar, þá er ég mjög heppin hvað ég er náin þeim. Það var alveg frábært að vera með þeim úti og sjá heima hjá þeim og lífið þeirra úti.

Við vorum á alveg trylltu hóteli sem heitir NH Collection sem var frábærlega staðsett. Við vorum tæpar 10 mínútur að rölta á Strikið til dæmis. Það var mjög rúmgott herbergið okkar og snyrtilegt, allt nýtt og flott. Það var svo alveg ótrúlega flott rækt niðri í kjallara og svo bar í lobbyinu.

Eitt það skemmtilegasta í ferðinni var að leigja bát hjá bátaleigu sem heitir Friendships og var í göngufæri frá hótelinu. Þar bókuðum við klukkutíma þar sem við sigldum um á litlum báti og maður mátti koma með eigin veitingar og drykki en þeir selja líka eitthvað ef maður gleymir. Það var svo notalegt að sigla um í góðu veðri og skála saman í freyðivíni. Við mælum öll sjúklega mikið með.

Við tókum með okkur bakkelsi í bátinn frá bakaríi á Strikinu sem frænka mín, sem hefur búið lengi í Kaupmannahöfn, mældi með. Það var ótrúlega gott, bakaríið eða kaffihúsið kannski frekar, heitir Buka. Hún sagði að við yrðum að prófa pistasíu croissantið frá þeim og það stóðst klárlega væntingar. Við keyptum líka croissant með hindberjum og mascarpone og það var líka alveg tryllt, við mælum öll með stoppi þarna ef þið eigið leið hjá.

Annað sem við gerðum var að fara í smørrebrød í þinghúsinu, mamma er svo dugleg að skipuleggja ferðir og finna sniðuga hluti að gera að hún ætti að vinna við það! Þetta var eitt af því sem hún fann og þetta var æðisleg upplifun. Við fórum upp í turninn á þinghúsinu þar sem er veitingastaður í alveg klikkuðu umhverfi og þar er boðið uppá smørrebrød. Þetta heitir Meyers i Tårnet og hér er hægt að bóka þetta.

Eitt sem ég verð að bæta við er annað sem mamma stakk uppá að gera fyrsta daginn. Það er að labba upp í kirkjuturn sem kallast Stairway to Heaven í Vor Frelsers Kirke, kirkja í Christianshavn. Við héldum að það væri lyfta þarna en við komumst að því að svo var ekki. Mamma googlaði hvað við löbbuðum (og klifruðum) margar tröppur í heildina og upp kom talan 400, hvorki meira né minna svo ekki fara ef þið eruð í óþægilegum skóm! En útsýnið var ótrúlegt en efst ferðu út og labbar restina úti og mér var alveg hætt að lítast á blikuna og kláraði ekki alveg en þau fóru alveg upp. Þið megið svo ekki gleyma að fara inn í kirkjuna, hún er alveg stórkostleg!

Gunnar bróðir minn er að vinna á ótrúlega flottum stað í Kaupmannahöfn sem heitir Delphine og er á Vesterbro. Við fórum saman á hann í brunch sem var alveg æðislegt, algjör upplifun að koma á þennan fallega stað, ég væri næst til í að fara um kvöld þangað. Ef þið farið þangað og verðið svo heppin að hitta á Gunnar bróðir minn þá verðið þið að láta hann hrista í einn pornstar martini fyrir ykkur, svo megið þið knúsa hann frá mér í leiðinni!

Á laugardeginum, síðasta deginum okkar mömmu í Köben, þá byrjuðum við á að fara í þinghúsið, svo fórum við mamma aðeins að versla. Á meðan fóru bræður mínir á hótelið okkar, ég hafði laumað þeim kortinu okkar á hótelið, og biðu þar með freyðivín, jarðaber, kókosbollur og súkkulaði sem við höfðum keypt og komum mömmu svo á óvart í tilefni af mæðradeginum sem var síðan á sunnudeginum. Þetta heppnaðist svo vel og var svo gaman.

Við vorum rosalega mikið bara að rölta um og setjast niður í góða veðrinu og fá okkur drykki og nachos og svona næs. Við kíktum í Christiania sem var alveg fyndin upplifun að sjá þar en það má alls ekki taka myndir þar. Við borðuðum svo síðasta kvöldið okkar á stað sem heitir Köd sem var mjög góður, getum alveg mælt með þeim stað. Við drifum okkur svo heim og horfðum á úrslitakvöldið í Eurovision, við vorum mjög sátt með úrslitin, annað en margir haha, en auðvitað hefðum við viljað að hún Laureen hefði unnið símakosninguna líka.

Þetta var æðisleg ferð frá upphafi til enda, það var svo erfitt að fara heim og kveðja strákana. Vonandi getum við mamma endurtekið þessa ferð sem fyrst! Þið getið séð alla þrjá dagana okkar í Köben á Instagram reels hjá mér!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s