Á sunnudaginn fyrir viku þegar ég var ein heima með Emmu vaknaði ég og var í miklu bakstursstuði. Mig langaði svo að eiga eitthvað nýbakað í morgunmat en nennti ekki að fara að láta eitthvað hefast og bíða. Ég fann uppskrift af þessum ofureinföldu brauðbollum sem innihalda ekki ger og taka í alvöru undir 10 mínútur að útbúa og einungis 10-13 mínútur í ofninum. Þessar bollur eru eins basic og þær verða, auðvitað finnur maður muninn á að hafa ger en þessar eru samt mjög góðar og alveg þess virði að eyða þessum litla tíma í þær. Það er svo auðveldlega hægt að pimpa bollurnar upp með til dæmis sólkjarnafræjum, beyglukryddi, birkifræjum eða osti.
5 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 msk grænmetisolía
2 1/2 dl mjólk
Hitið ofninn í 250°. Blandið þurrefnunum saman og bætið svo olíunni og mjólkinni saman við og hnoðið í deig. Skiptið deiginu upp í 6 bita og rúllið þeim í bollur. Þrýstið þeim aðeins niður á bökunarplötuna og bakið í 10-13 mínútur. Leyfið þeim aðeins að kólna og njótið svo með hvaða áleggi sem ykkur dettur í hug!
Oliver kom heim frá Egilsstöðum seint á sunnudagskvöldið. Þar sem við vorum í burtu frá hvort öðru alla helgina þá ákvað ég að útbúa smá dinnerdate fyrir okkur þegar hann kom heim. Ég svæfði Emmu, kveikti á kertum og dundaði mér svo í eldhúsinu í tvo tíma að græja matinn. Það var svo notalegt og úr varð kósí heima deit með 3ja rétta, kl 21 sunnudagskvöldið. Ég var með mac and cheese með hvítlauksbrauðsmylsnu í forrétt, naut með hvítlauks-parmesan kartöflumús í aðalrétt og brownie í eftirrétt. Það sem kom mest á óvart var forrétturinn en hann var alveg guðdómlegur. Þið verðið bara að prófa!
Uppskriftin gefur stóran skammt fyrir einn eða forrétt fyrir tvo.
Hvítlauksbrauðsmylsna
2 msk ólífuolía
4-5 hvítlauksgeirar
1-2 dl panko/brauðrasp
salt og pipar eftir smekk
Byrjið á að hita olíuna á pönnunni, miðlungshita, og steikja svo hvítlaukinn í ca 1 mínútu. Bætið svo brauðraspinu út á pönnuna og steikið með hvítlauknum þar til raspið hefur fengið góðan lit og er stökkt. Kryddið þá eftir smekk og leyfið raspinu að kólna.
Mac and cheese
50 gr smjör
2 msk hveiti
2 dl mjólk
2 dl cheddar ostur
salt og pipar
2 dl makkarónur, soðnar eftir leiðbeiningum á pakka
Byrjið á að búa til smjörbollu með því að bræða smjörið í potti og hræra svo hveitið saman við. Bætið svo mjólkinni út í þar til mjólkin byrjar að þykkna. Bætið þá ostinum saman við og hrærið þar til osturinn er alveg bráðinn. Kryddið og blandið makkarónunum saman við. Toppið með smá osti og mikið af brauðmylsnunni og setjið inn í ofn á 200° í nokkrar mínútur svo osturinn ofaná nái að bráðna.
Það er kominn júní og það meira að segja kom smá sól í dag! Við bjuggum hérna í íbúðinni okkar í tvö ár án svalahúsgagna og ákváðum að splæsa loksins í núna í byrjun maí fyrir sumarið, og ég held það hafi bara ekki skinið einu sinni sól á svalirnar síðan við keyptum þau. Við keyrðum líka til Hveragerðis þar síðustu helgi til þess að kaupa sumarblóm í Flóru og ég er búin að geyma þau inni síðan svo þau myndu ekki fjúka í burtu. Ég ætla rétt að vona að veðrið sem var í dag sé komið til þess að vera, í nokkra daga í viðbót að minnsta kosti.
Ég verð grasekkja þessa helgi en Oliver er að fara með liðinu sínu að keppa á Egilstöðum um helgina. Við Emma ætlum bara að vera tvær saman að gera eitthvað skemmtilegt, hún er búin að óska eftir því að við búum til pizzu saman og horfum á Hvolpasveitamyndina (í hundraðasta skipti). Svo við munum hafa það notalegt og kannski baka eitthvað skemmtilegt. Ég er með nokkrar ótrúlega skemmtilegar hugmyndir skrifaðar niður að bloggfærslum og er svo spennt að framkvæma þessar hugmyndir í eldhúsinu um helgina og í vikunni.
Sigþóra vinkona mín kom með mjög góða hugmynd að bloggfærslu nýlega og ég ætla að henda í hana núna. Hún bað mig semsagt um að gera færslu um mína uppáhalds matarbloggara.
Half Baked Harvest – Ég elska að lesa bloggið hennar Half Baked Harvest eða Tieghan eins og hún heitir. Hún er ung kona sem býr í Colorado í fjöllunum þar með risastóru fjölskyldunni sinni og sínir oft á Instagram á bakvið tjöldin í eldamennsku og frá öllum systkinum sínum og foreldrum sem eru öll rosalega sæt. Uppskriftirnar hennar eru ótrúlega girnilegar og manni langar að smakka allt sem hún gerir. Ég deildi einni uppskrift frá henni á blogginu mínu en hún er hér. Ég mæli heilshugar með henni hvort sem það er bloggið hennar, Instagram hjá henni eða matreiðslubækurnar hennar.
Baka med Frida – Ég fylgi Frida á Instagram og baka oft af blogginu hennar, svo á ég tvær bækur frá henni líka. Uppskriftinar klikka ekki og ég elska auðvitað allt sænskt, sérstaklega bakkelsi. Hér er ein uppskrift sem ég deildi á blogginu mínu frá henni.
My kitchen stories – Camilla Hamid er sænsk kona sem bakar algjörar bombur. Hún er líka að deila mataruppskriftum en er mest í bakstri. Hún er ótrúlega dugleg að baka og gerir ekkert smá flottar kökur. Ég mæli með að skoða bloggið hennar og fylgja henni á Instagram.
Matplatsen – Mamma sýndi mér þetta blogg fyrir löngu síðan og mér finnst alltaf gaman að skoða það annað slagið, ég fylgi henni líka á Instagram, ég fylgist eiginlega meira með henni þar en á blogginu hennar.
Vá það eru liðnar tvær heilar vikur síðan ég setti inn færslu! Ég er búin að reyna að koma mér á strik eftir ferðalögin en hausinn á mér er bara ennþá í fríi. Við mamma skruppum til Köben þar sem bræður mínir búa og heimsóttum þá og áttum alveg hreint æðislega daga saman.
Það var svo skrítið að vera bara við fjögur saman, sem við höfðum ekki verið síðan árið 2015, eða fyrir 8 árum síðan! Það var sérstakt að vera bara við alveg eins og „í gamla daga“ áður en Emma og Oliver komu til sögunnar en Oliver flutti inn til mín (og mömmu) þegar hann var bara 17 ára (fyrir 7 og hálfu ári síðan) og fyrir það voru það bara við fjögur, ég, mamma og bræður mínir tveir. Mér finnst við vera rosalega náin fjölskylda og finnst ég rosalega heppin með það hvað við höfum alltaf öll náð vel saman, sérstaklega þar sem ég á tvo bræður sem eru tvíburar, þá er ég mjög heppin hvað ég er náin þeim. Það var alveg frábært að vera með þeim úti og sjá heima hjá þeim og lífið þeirra úti.
Við vorum á alveg trylltu hóteli sem heitir NH Collection sem var frábærlega staðsett. Við vorum tæpar 10 mínútur að rölta á Strikið til dæmis. Það var mjög rúmgott herbergið okkar og snyrtilegt, allt nýtt og flott. Það var svo alveg ótrúlega flott rækt niðri í kjallara og svo bar í lobbyinu.
Eitt það skemmtilegasta í ferðinni var að leigja bát hjá bátaleigu sem heitir Friendships og var í göngufæri frá hótelinu. Þar bókuðum við klukkutíma þar sem við sigldum um á litlum báti og maður mátti koma með eigin veitingar og drykki en þeir selja líka eitthvað ef maður gleymir. Það var svo notalegt að sigla um í góðu veðri og skála saman í freyðivíni. Við mælum öll sjúklega mikið með.
Við tókum með okkur bakkelsi í bátinn frá bakaríi á Strikinu sem frænka mín, sem hefur búið lengi í Kaupmannahöfn, mældi með. Það var ótrúlega gott, bakaríið eða kaffihúsið kannski frekar, heitir Buka. Hún sagði að við yrðum að prófa pistasíu croissantið frá þeim og það stóðst klárlega væntingar. Við keyptum líka croissant með hindberjum og mascarpone og það var líka alveg tryllt, við mælum öll með stoppi þarna ef þið eigið leið hjá.
Annað sem við gerðum var að fara í smørrebrød í þinghúsinu, mamma er svo dugleg að skipuleggja ferðir og finna sniðuga hluti að gera að hún ætti að vinna við það! Þetta var eitt af því sem hún fann og þetta var æðisleg upplifun. Við fórum upp í turninn á þinghúsinu þar sem er veitingastaður í alveg klikkuðu umhverfi og þar er boðið uppá smørrebrød. Þetta heitir Meyers i Tårnet og hér er hægt að bóka þetta.
Eitt sem ég verð að bæta við er annað sem mamma stakk uppá að gera fyrsta daginn. Það er að labba upp í kirkjuturn sem kallast Stairway to Heaven í Vor Frelsers Kirke, kirkja í Christianshavn. Við héldum að það væri lyfta þarna en við komumst að því að svo var ekki. Mamma googlaði hvað við löbbuðum (og klifruðum) margar tröppur í heildina og upp kom talan 400, hvorki meira né minna svo ekki fara ef þið eruð í óþægilegum skóm! En útsýnið var ótrúlegt en efst ferðu út og labbar restina úti og mér var alveg hætt að lítast á blikuna og kláraði ekki alveg en þau fóru alveg upp. Þið megið svo ekki gleyma að fara inn í kirkjuna, hún er alveg stórkostleg!
Gunnar bróðir minn er að vinna á ótrúlega flottum stað í Kaupmannahöfn sem heitir Delphine og er á Vesterbro. Við fórum saman á hann í brunch sem var alveg æðislegt, algjör upplifun að koma á þennan fallega stað, ég væri næst til í að fara um kvöld þangað. Ef þið farið þangað og verðið svo heppin að hitta á Gunnar bróðir minn þá verðið þið að láta hann hrista í einn pornstar martini fyrir ykkur, svo megið þið knúsa hann frá mér í leiðinni!
Á laugardeginum, síðasta deginum okkar mömmu í Köben, þá byrjuðum við á að fara í þinghúsið, svo fórum við mamma aðeins að versla. Á meðan fóru bræður mínir á hótelið okkar, ég hafði laumað þeim kortinu okkar á hótelið, og biðu þar með freyðivín, jarðaber, kókosbollur og súkkulaði sem við höfðum keypt og komum mömmu svo á óvart í tilefni af mæðradeginum sem var síðan á sunnudeginum. Þetta heppnaðist svo vel og var svo gaman.
Við vorum rosalega mikið bara að rölta um og setjast niður í góða veðrinu og fá okkur drykki og nachos og svona næs. Við kíktum í Christiania sem var alveg fyndin upplifun að sjá þar en það má alls ekki taka myndir þar. Við borðuðum svo síðasta kvöldið okkar á stað sem heitir Köd sem var mjög góður, getum alveg mælt með þeim stað. Við drifum okkur svo heim og horfðum á úrslitakvöldið í Eurovision, við vorum mjög sátt með úrslitin, annað en margir haha, en auðvitað hefðum við viljað að hún Laureen hefði unnið símakosninguna líka.
Þetta var æðisleg ferð frá upphafi til enda, það var svo erfitt að fara heim og kveðja strákana. Vonandi getum við mamma endurtekið þessa ferð sem fyrst! Þið getið séð alla þrjá dagana okkar í Köben á Instagram reels hjá mér!
Ég er komin heim frá Stokkhólmi og eins og alltaf þá var alveg æðislegt! Við vorum þrjár nætur, ég og vinkona mín. Við fórum út í brjálaðri snjókomu og lentum hérna heima í alveg ótrúlega góðu veðri sem var frekar fyndið. Við vorum mest að skoða í búðum, labba um og borða, MIKIÐ. Við byrjuðum ferðina á skyldustoppi á Max Hamburgare, en þar fást bestu hamborgararnir í Svíþjóð (að mínu mati). Við gistum á Haymarket by Scandic sem er ótrúlega fallegt hótel á Hötorget sem er ca 5 mínútna labb frá aðal lestarstöðinni. Morgunmaturinn á hótelinu er alveg geggjaður og það er allt sem maður gæti hugsað sér í morgunmat í boði. Það eru egg, beikon, pönnukökur, vöfflur, bakkelsi, brauð, jógúrt, grautur og allskonar fleira, svo er meira að segja hægt að panta sér ommulettu.
Við vorum með þétta dagskrá sem ég bjó til til þess að nýta dagana mjög vel. Ég ætla að deila dagskránni okkar hérna (neðst í færslunni) en auðvitað hliðraðist eitthvað til eins og bara gerist og eitthvað datt út og annað bættist við. Við fórum tvisvar út að borða, fyrst á Riche, þar er eiginlega möst að panta sér sænskar kjötbollur ef þið spurjið mig. Síðan fórum við á stað sem heitir Giro Pizzeria og hann er líka alveg truflaður! Kokteilarnir voru mjög góðir og pizzurnar enn betri. Ég var búin að sjá að staðurinn hefði fengið einhver verðlaun svo ég ákvað að prófa hann, hafði ekki farið á hann áður og varð ekki fyrir vonbrigðum.
Við vorum mikið í búðum, þó að við versluðum ekkert allt of mikið. Ég mæli með að fara í NK, Åhlens City og Mood Gallerian að skoða. Það er ótrúlega skemmtileg búð í Mood Gallerian sem mamma sagði okkur frá sem heitir Leilas General Store sem er algjört möst fyrir þá sem elska að elda og baka, ég hefði getað eytt mörgum tímum þarna. Ég keypti fallegt kökuskraut þarna meðal annars. Síðan var önnur búð þarna sem heitir Adoore og þar eru ótrúlega fallegir kjólar sem eru hannaðir af sænskum áhrifavaldi, Petra Tungården, vandaðir fallegir kjólar og falleg búð, ég keypti mér einn. NK og Åhlens City eru svo svona department stores þar sem hægt er að eyða heilum degi alveg auðveldlega, það eru margar hæðir af allskonar merkjum og vörum.
Síðan röltum við Birger Jarlsgötuna en þar eru þessi helstu merki eins og Gucci, Louis Vuitton og Prada. Síðan er þar líka Zara Home sem er ótrúlega gaman að kíkja í og Livly, ein fallegasta barnafatabúðin í Stokkhólmi. Það er síðan hliðargata þar, Biblioteksgatan, þar sem Sephora er t.d.
Við löbbuðum um 20.000 skref á dag því við vorum labbandi allan daginn (með nokkrum drykkjarstoppum). Það er algjört möst að vökva sig fyrir búðirnar og við fórum á stað sem heitir Spesso, hann er vel staðsettur rooftop bar sem er ótrúlega skemmtilegt að setjast niður á, mæli með því!
Ég setti inn „haul“ á Instagram hjá mér með öllu sem ég keypti mér í Stokkhólmi, ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið alltaf sent mér þar.
Ég átti afmæli þremur dögum eftir að við komum heim, þann 3. maí. Ég átti alveg æðislegan afmælisdag. Ég bakaði alveg ótrúlega góða köku en ég fékk uppskriftina frá Freistingum Thelmu, uppskriftin hér. Ég bauð svo uppá freyðivín með. Oliver gaf mér svo Dyson Airwrap í afmælisgjöf sem hafði verið á óskalistanum mínum lengi og ég er að prufa mig áfram með hann núna, þetta er smá kúnst að læra á þessa græju. Við mamma erum svo að fara til Köben á fimmtudaginn bara tvær að heimsækja bræður mína sem búa þar. Það verður mikið stuð, það er alveg brjálað að gera hjá manni þessa dagana.
Jæja þá er ég loksins komin til Stokkhólms! Við Hanna komum á fimmtudaginn um hádegið og það er búið að vera alveg æði hjá okkur. Við erum búnar að versla smá, labba mikið og borða helling, allt eins og það á að vera. Ég hlakka til að segja ykkur meira frá ferðinni þegar ég kem heim.
Á miðvikudaginn í vinnunni prófaði ég nýja uppskrift að köku sem kom rosalega vel út og ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni, endilega prófið hana yfir helgina með kaffinu.
150g smjör
450g púðursykur
1 tsk salt
1 tsk vanilludropar
3 egg
2 tsk lyftiduft
330g hveiti
saxað súkkulaði eftir smekk
Byrjað er á að brúna smjörið í potti eða pönnu. Þegar smjörið er bráðnað og hefur fengið smá lit er púðursykrinum hrært saman við. Bætið svo saltinu og vanilludropunum út í og hrærið vel, leyfið blöndunni að kólna áður en eggjunum er bætt við. Hrærið eggjunum saman við og svo lyftiduftinu og hveitinu. Að lokum er súkkulaðinu hrært í deigið og deiginu skellt í skúffuform klæddu bökunarpappír. Bakið við 175° í 25-30 mínútur, þegar kakan hefur fengið góðan lit. Stráið grófu salti yfir og berið fram. Gott væri að bera fram með ís.
Súkkulaðimús er aðal eftirréttur fjölskyldunnar minnar og hefur verið það í mörg mörg ár. Gunnar bróðir minn er sérstaklega æstur í hana og hann skóflar henni í sig um leið og mamma ber hana á borðið svo hann fái alveg örugglega mest. Ég skil hann mjög vel því hún er svo svakalega góð. Ég hef súkkulaðimús í 95% tilfella í eftirrétt þegar ég býð í mat eða þegar það er eitthvað tilefni. Ég hef sett inn á bloggið Oreo súkkulaðimús, Lindor súkkulaðimús og svo líka Baileys súkkulaðimús, allt mjög gott en ég furðaði mig á því nýlega að það vantaði alveg á bloggið mitt bara venjulegu klassísku súkkulaðimúsina! Ég ákvað því að í dag myndi ég bæta úr því.
Súkkulaðimús (fyrir ca 4)
100 g súkkulaði (gjarnan 50 g rjómasúkkulaði og 50 g suðusúkkulaði)
2 eggjarauður
2,5 dl rjómi
Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).
Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.
Setjið súkkulaðimúsina í skál eða falleg glös og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma. Fyrir sumarlega útgáfu prófið að setja rjóma, hakkað Mars eða Snickers, jarðaber og passionfruit yfir, það klikkar ekki!
Vá hvað það er orðið langt síðan ég setti inn færslu, páskarnir liðu svo hratt og allt í einu eru komnir 10 dagar síðan ég setti inn færslu. Ég ætlaði reyndar að setja þessa færslu inn í gær en það varð heldur betur ekki úr því. Við erum búin að vera að gera forstofuna okkar upp og erum búin að skipta um flísar. Ég ætlaði svo í gær að fara í Byko og gera og græja fyrir forstofuna til þess að klára hana þegar Oliver hringir í mig. Þá hafði Emma dottið beint á hökuna og hakan hennar bara opnaðist. Ég brunaði að sækja hana og fór með hana til læknis, sem betur fer var hægt að líma þetta saman og þurfti ekki að sauma. Hún eða við öll reyndar vorum alveg búin á því í gær eftir þetta allt saman og vorum bara í algjöru spennufalli. Hún er þó orðin hress núna sem betur fer og búin að fá verðlaun og mörg knús.
En að forstofunni þá er ég svo spennt að sýna ykkur loka útkomuna. Við erum semsagt búin að taka flísarnar sem voru og rifum niður fataskápinn sem var í forstofunni. Við erum núna að mála og spartla í göt og svo ætlum við að setja hvítann skáp inn sem var inni hjá Emmu því sá skápur er eiginlega of stór fyrir hana. Svo hengjum við upp snagana frá Vigt og þá fer að koma heildarmynd á rýmið. Ég sýni þetta allt þegar þetta er tilbúið á Instagram og hérna.
En ég gerði þennan rétt fyrir svolitlu síðan og hann var svo góður og fljótlegur að það er búið að gera hann nokkrum sinnum síðan. Ég mæli með að þið prófið!
2 sætar litlar sætar kartöflur
2 kjúklingabringur
ólífuolía
paprikukrydd
hvítlauksduft
pipar
1-2 msk philadelphia light
1-2 msk grænt pestó
Byrjið á því að hita ofninn í 200°. Stingið göt í hýðið á sætu kartöflunum með gaffli og setjið inn í ofn þar til þær eru mjúkar í gegn, það tekur um 50 mín. Hellið smá ólífuolíu yfir kjúklinginn og kryddið eftir smekk með paprikukryddi, hvítlauksdufti og pipar. Setjið kjúklinginn inn í ofn þar til hann er eldaður í gegn, ca 25-30 mín. Þegar kjúklingurinn er fulleldaður er hann tættur með tveimur göfflum og rjómaostinum og pestóinu blandað saman við, byrjið á 1 msk af hvoru og bætið við ef þarf. Skerið þvert yfir sætu kartöfluna og opnið hana. Fyllið sætu kartöfluna af kjúklingafyllingunni og berið fram með salati og fetaosti.
Ég bakaði þessa köku í gær og ég held að þetta sé bara með betri kökum sem ég hef bakað. Hún er ótrúlega létt og mjúk svo hún er ekki þung í maga. Hún er fljótgerð og ekta kaka til að baka fyrir páskana. Hún er næstum búin hjá okkur því við getum ekki hætt að laumast í hana. Hanna vinkona mín fékk smakk af henni í dag og hún sagði að þetta væri ein besta kaka sem hún hefur smakkað, maður fær ekki betri dóma en það! Þið bara verðið að prófa þessa, hún er alveg einstök.
50g bragðlaus olía
10g kakó
50g volgt vatn
45g hveiti
5 egg
50g sykur
5g vanilludropar
Byrjið á að kveikja á ofninum á 150°. Skiljið eggin í sundur og blandið olíu, kakói, vatni og hveiti við eggjagulurnar, pískið saman. Stífþeytið eggjahvíturnar með sykrinum og vanilludropunum. Blandið öllu saman með sleif eða písk. Bakið í ofnskúffu eða skúffukökuformi í 32 mínútur.
200g mjúkt smjör
200g flórsykur
75g brætt suðusúkkulaði (eða ykkar uppáhalds súkkulaði)
1 msk vanilludropar
Þeytið saman smjörið og flórsykurinn. Bræðið súkkulaðið og leyfið aðeins að rjúka úr því áður en því er hrært saman við kremið. Bætið að lokum vanilludropunum saman við og þá er kremið tilbúið. Dreifið því yfir kökuna þegar hún hefur kólnað. Ég muldi Mini Eggs og stráði yfir kökuna til að gefa henni smá páskafýling.
Þá er mars bara búinn og það er fyrsti apríl á morgun. Ég er svo spennt fyrir vorinu og tek apríl fagnandi. Páskarnir eru á næsta leiti og svo erum við Hanna vinkona að fara til Stokkhólms í lok apríl og ég get ekki beðið. Ég ætla því að hafa smá Svíþjóðar brag á þessari færslu og setja inn óskalistan minn fyrir Stokkhólms ferðina.
Byredo Vetyver sápa og handáburður – Er svo skotin í þessu sænska merki. Ég á Gypsy Water ilmvatnið frá þeim sem er æði og langar í þessa sápu og handáburðinn með. Þær eiga að vera svipaðar Bal d’Afrique ilminum þeirra sem er alveg geggjaður. Byredo fæst líka í Madison Ilmhús.
Mateus leirtau – Maður fer alltaf í Åhlens City að skoða Mateus úrvalið þegar maður kíkir til Stokkhólms, svo dröslar maður nokkrum brothættum vörum í handfarangri heim, það er þess virði.
Svenskt Tenn Dagg vasinn – Þessi fegurð er búinn að vera lengi á listanum, fyrir áhugasama sendir Svenskt Tenn til Íslands svo það er óþarfi að gera sér ferð til Stokkhólms til að versla þó svo að ég mæli ekkert gegn því heldur.
Svenskt Tenn kertastjakar – Mig langar líka að eignast þessa kertastjaka frá þeim, ótrúlega stílhreinir og fallegir.
Manolo Blahnik skór – Ég ætla að líta eftir þessum hvort þeir séu til í minni stærð þegar ég fer út. Get ekki hætt að hugsa um þá.
Louis Vuitton Nice snyrtitaska – Þessi er búin að vera lengi á óskalistanum mínum, ef skórnir eru ekki til kaupi ég kannski þessa í sárabætur, maður veit aldrei.
Chimi Eyewear sólgleraugu – Annað sænskt merki sem ég er hrifin af og langar að skoða betur.