Pasta með sólþurrkuðum tómötum og ricotta

Í dag vaknaði ég og vissi að mig langaði að prófa að elda eitthvað alveg nýtt. Ég var með í huga uppskrift sem ég hafði séð hjá einum uppáhalds matarbloggaranum mínum, Half baked harvest, og ákvað að elda hana. Uppskriftin inniheldur mörg hráefni sem eru í uppáhaldi hjá mér, svo ég bara varð að prufa sjálf. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, bæði var bragðið ótrúlega gott en svo var rétturinn mjög auðveldur og fljótgerður líka.

Ég var í einhverjum mega fíling og ákvað að kveikja á kertum á meðan ég eldaði, og græjaði líka eftirrétt fyrir okkur þrjú til þess að gera vel við okkur. Við áttum svo rosalega notalegt kvöld bara þrjú heima saman að borða góðan mat og horfðum svo á Lilo og Stitch með Emmu. Nú ætlum við Oliver að eiga kósíkvöld saman og horfa á eitthvað, við erum líka að reyna að finna hugmyndir að einhverju skemmtilegu að gera þegar við förum út til Florida núna bráðlega.

  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
  • 2 litlir skarllottlaukar
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 1/2 tsk reykt paprika
  • chili flögur
  • salt og pipar
  • 500 gr penne
  • 1 bolli ricotta
  • 1 sítróna
  • 1 bolli parmesan
  • 2 msk smjör
  • lúka af ferskri basiliku
  • lúka af ferskri steinselju
  • 2 msk dill

Hellið olíunni úr sólþurrkuðu tómötunum á pönnu, pannan þarf að vera nógu djúp svo hægt sé að sjóða pastað í henni. Ég notaði Le Creuset pott. Hitið olíuna vel og setjið laukinn (fínt skorinn) og hvítlaukinn (fínsaxaðan eða pressaðan) út á olíuna og hrærið í 2 mínútur. Þá er sólþurrkuðu tómötunum (gróft skornir) bætt í pönnuna með paprikukryddinu, chiliflögunum, saltinu og piparnum. Hrærið í pönnunni í 3 mínútur og bætið þá 4 bollum af vatni útí. Þegar vatnið byrjar að sjóða er pastanu hellt í og hrært er í annað slagið svo ekkert festist við í um 8 mínútur eða þar til pastað er tilbúið. Á meðan pastað er að sjóða er ricotta ostinum og safa úr sítrónunni þeytt saman í matvinnsluvél (líka hægt að nota blandara eða hrærivél). Bætið rifnum parmesan og smjöri út í pastað og hrærið saman þar til allt er bráðið. Þá er slökkt undir pastanu og kryddjurtunum bætt við. Berið fram með því að dreifa ricotta blöndunni á disk eða fat og setja svo pastað yfir. Blandið smá saman en ekki alveg, svo það sé ennþá ricotta blandan í botninum. Berið fram með parmesan og steinselju ofaná. Hægt er að sjá aðferðina á instagram reels hjá mér, malinorlygs á instagram.

Ein athugasemd á “Pasta með sólþurrkuðum tómötum og ricotta

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s