Í gær fórum við á útileikritið Ævintýri í Jólaskógi, annað árið í röð. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt leikrit sem ég mæli heilshugar með, alveg ótrúlega jólaleg stund. Emmu fannst ótrúlega skemmtilegt og gaman að hitta jólasveininn, hún fór sko alsæl að sofa. Maður labbar um í skóginum með vasaljós í hópi og hittir m.a. jólasveininn og grýlu og svo endar maður í piparkökum og kakói.

Það er nóg um að vera næstu daga hjá okkur fjölskyldunni. Á morgun er ég að fara á Nauthól með vinnunni í 3ja rétta jólaseðil, á sunnudaginn erum við að fara á jólahlaðborð og Emma er að fara í leikhús með ömmu sinni og afa. Það er alveg ótrúlegt hvað desember er að líða hratt, jólin verða komin áður en við vitum af.

Ég gerði þessa rúllutertu um daginn og hún kláraðist á mettíma. Hún var alveg ótrúlega góð og einföld! Ég mæli með að skella í hana um helgina.
- 3 egg
- 1.5 dl sykur
- 0.75 dl hveiti
- 2 msk kakó
- 2 msk kanill
- 1 msk negull
- 1 tsk lyftiduft
- smjörkrem – hálf uppskrift (uppskrift hér)
Byrjað er á að kveikja á ofninum á 225° blástur. Þeytið eggin og sykurinn saman þar til létt og ljóst og sigtið þá í þurrefnin. Hrærið þurrefnunum saman við eggjablönduna með sleif þar til orðið er slétt deig. Setjið smjörpappír á ofnplötu og dreifið deiginu yfir. Bakið inni í ofni í 5-7 mínútur. Takið ofnplötuna út og leyfið kökunni alveg að kólna. Ég rúllaði minni upp á meðan hún var heit, ennþá með pappírnum á svo hún myndi kólna í rúllu og koma þannig í veg fyrir sprungur. Smyrjið smjörkreminu yfir jafnt og rúllið botninum varlega upp. Skreytið með smjörkremi ofaná ef þið viljið.