Áramótaheit og markmið

Gleðilegt nýtt ár! Maður er svolítið bara að lenda eftir hátíðarnar, það verður gott þegar allt er komið í góða rútínu aftur. Við áttum notaleg áramót með tengdó hjá okkur. Við elduðum nautalund og vorum með marengs í eftirrétt og spiluðum eftir að klukkan sló tólf.

Ég ákvað að áramótaheitið mitt væri að hætta að drekka orkudrykki og ég verð að viðurkenna að það var kannski ekki besta hugmyndin að byrja á því fyrstu vikuna í janúar eftir frí. Ég er vön að drekka tvo nocco á dag sem er bara ótrúlega óhollt fyrir líkaman, tennurnar og svefninn. Ég er ekki búin að fá mér orkudrykki núna í tvo daga og ég er búin að leggja mig báða dagana eftir vinnu, en ég held að fyrsta vikan sé erfiðust. Ég hef áður reynt að hætta en hef alltaf leitað aftur í þá en ég held að ég verði bara að finna mér eitthvað annað í staðin, ég drekk annars bara vatn, ekkert annað. Ég hef aldrei á ævinni smakkað gos svo ég var að spá í að prufa að fá mér topp í staðinn fyrir nocco, ég hef heyrt að maður eigi að skipta slæmri venju út fyrir eitthvað annað, gaman að sjá hvort það virki.

Ég er alveg týpan sem peppast rosalega yfir nýju ári og markmiðum/áramótaheitum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af þessari pælingu með áramótaheit en mér finnst þau alltaf skemmtileg. Ég keypti mér tvær skipulagsbækur í lok desember, skipulagsdagbókina hennar Sólrúnar Diego og svo eina rafræna í ipadinn.

Ég ákvað að skrifa niður hvað ég vildi fá út úr þessu ári, markmið og bara allskonar hugmyndir, síðan gerði ég vision board á pinterest líka, mér fannst það mjög skemmtileg hugmynd sem ég sá á Tiktok. Ég fór síðan yfir árið 2022, hvernig það hefði verið og hvað mér fannst vanta og hvernig ég vildi hafa þetta ár öðruvísi.

Ég fann að mér fannst ég ekki hafa haft nógu mikinn tíma til þess að sinna mínu aðal áhugamáli, að elda og baka. Annað áramótaheitið mitt var því að búa til meiri tíma fyrir þessi áhugamál og hafa fastari rútínu á hlutunum. Ég elska rútínu og finn að ég þrífst best í henni, sérstaklega með barn. Mér fannst árið 2022 vera rosa mikið af plönum, kannski mikið meira eftir covid, og ég átti erfitt með það. Ég vil helst hafa virk kvöld bara heima með okkar rútínu og ná að elda, ganga frá, baða Emmu, hafa til föt fyrir morgundaginn, lesa og hafa notalegt, ekki fara stanslaust í einhver boð og koma heim seint með Emmu sofandi og ná varla að hátta hana.

Áramótaheitin mín í fyrra snérust mest um að setja sjálfa mig í fyrsta sæti eftir að hafa haft mig alltof aftarlega í forgangsröðun og mér finnst ég alveg hafa staðið við það og það er rosalega góð tilfinning, ég ætla að halda því áfram.

Ég elska að fara inn í nýtt ár með heimilið í góðu standi, mér finnst mjög gott að taka heimilið í nefið í janúar eftir allar hátíðirnar en ekki fyrir jól. Ég er því að deila niður verkefnum sem mig langar að klára í sambandi við heimilið á næstu vikur og smátt saman kemur þetta. Ég ætla til dæmis að djúphreinsa bakaraofninn, örbylgjuofninn, þvottavélina og þurrkarann. Svo ætla ég að fara í gegnum alla fataskápa, geymsluna og eldhúsið. Það mun vera mikill léttir þegar þetta allt er búið, þá má maður alveg verðlauna sig eitthvað. Við erum farin að huga að ýmsum breytingum hérna heima sem við erum rosalega spennt fyrir, það verður gaman að sýna frá þeim hérna þegar að því kemur.

Að lokum langar mig að þakka ykkur fyrir samfylgdina hérna árið 2022, það var rosa gott ár, en ég er mjög spennt fyrir enn betra 2023.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s