Skrítið að jólin séu allt í einu bara búin. Mig er farið að klæja í puttana að rífa jóladótið niður strax, en ég er búin að vera með það allt uppi síðan snemma í nóvember. Ég vona að þið hafið öll notið jólanna vel, ég átti rosalega góð jól. Ég setti inn reel á Instagram af aðfangadegi hjá okkur en jóladagur var eiginlega bestur verð ég að segja. Við vorum heima allan daginn, á náttfötunum, ekkert jólaboð eða neitt. Við hægelduðum lambahrygg og borðuðum í notalegheitum með tengdó á meðan við skoðuðum gjafirnar sem við fengum. Ég fékk nokkra fallega hluti af óskalistanum mínum sem mig langaði að deila með ykkur.

Anine Bing bolur – Ég fékk loksins Anine Bing bolinn sem mig er búið að langa í lengi, nema hvað að mamma og tengdó fengu sömu hugmynd svo ég fékk tvo alveg eins. Ég get samt skilað öðrum og fengið mér eitthvað annað fallegt í staðin.

Reiss peysa – Oliver gaf mér þessa peysu sem mig er búið að dreyma um, ég er algjör kuldaskræfa og elska þykkar peysur, þessi er því fullkomin fyrir mig.

Ferm living skálar – Amma mín gaf okkur skálarnar sem bættust nýlega á listann minn þegar ég sá að það voru komnar skálar í stíl við glösin mín.

Billi Bi skór – Oliver gaf mér líka þessa skó en mig vantaði svo venjulega lokaða hælaskó eftir að ég tók smá hreinsun í fataskápnum nýlega og henti þeim sem voru orðnir sjúskaðir.

Steamery gufuvél – Búið að langa í þessa leeeengi og fékk hana loksins frá Kristofer, mági mínum. Vinkona mín hún Sigþóra bað um svona líka í jólagjöf en hún fékk hugmyndina þegar hún skoðaði óskalista á blogginu mínu (já var mjög montin) og hún fékk hana líka. Nú getum við vinkonurnar gufað saman, þið munuð aldrei sjá okkur í krumpaðri flík aftur!

Combekk panna – Föðuramma mín gaf okkur Oliver pönnu frá Combekk og við erum bæði búin að prufukeyra hana og erum strax rosalega ánægð með hana, það festist ekkert við hana sem er alveg geggjað.
Ég vann svo í dag og í gær og er núna komin í frí fram yfir áramót. Við Hanna vinkona kíktum á tax free í Hagkaup eftir vinnu í dag og ég keypti mér nokkra hluti.

Lee Stafford hársvarðarbursti – Er búin að sjá þennan út um allt á Tiktok, ég bara verð að eiga svona líka.

Fit me hyljari – Ég kaupi þennan alltaf á taxfree, nota á hverjum degi.

Loreal augnserum – Ég uppgötvaði þetta nýlega og er húkkt, var að klára það sem ég átti og gat ekki án þess verið.

Loreal andlitsserum – Ákvað að kaupa þetta „í stíl“ við augnserumið, Hanna vinkona mælti með þessu svo ég er spennt að prófa.
Ég sá svo að Petit var að byrja með útsölu og ég keypti þar tvo kjóla, einn ullarkjól frá Konges Slojd sem verður fullkominn í vetur, Emma vill alltaf vera í kjól, og svo einn bómullar frá Petit Piao. Ég verð að mæla með þessum bómullarkjólum frá Petit Piao, ég hef átt svona kjóla og leggings sett í nánast öllum stærðum frá því að Emma fæddist og líka gallana í sama efni og þetta eru bestu flíkur sem Emma hefur átt. Fallegt, mjúkt, teyjanlegt og best af öllu, það næst allt úr þeim!
