Mikið er ég fegin að það sé kominn fimmtudagur, það þýðir að ég er komin í helgarfrí. Eins og ég hef oft sagt hér áður þá vinn ég ekki á föstudögum og ég elska það. Ég nýti föstudagana alltaf vel, ég vakna snemma, byrja daginn hægt og tek alþrif á heimilinu fyrir helgina og kaupi ný blóm. Ég vona að ég geti alltaf haft svona vinnufyrirkomulag. Ég er mjög spennt fyrir kvöldinu en Heimsókn með Sindra var að byrja aftur og ég á fyrsta þáttinn sem var sýndur í gær eftir. Ég ætla að horfa á hann í kvöld þegar Emma er sofnuð.

Ég var að taka í gegn í vikunni ísskápinn, frystinn og búrskápinn hérna heima. Það var ótrúlega gott að klára þetta og vera með allt fínt og vita nákvæmlega hvað er til. Ég sá að ég átti tvo banana sem voru á síðasta snúning og ákvað að henda í eitt bananabrauð. Ég man hvað ég elskaði það þegar ég var yngri þegar ég kom heim um kvöld eftir að hafa verið úti með vinum mínum og bananabrauðslykt tók á móti mér, það var það besta. Mamma var mjög dugleg að baka bananabrauð þegar ég var barn og það er ennþá eitt það besta sem ég fæ. Ég ætla að deila með ykkur ótrúlega einfaldri og sjúklega góðri bananabrauðs uppskrift, prófiði að gera þessa ef þið eigið banana sem eru orðnir brúnir.

- 2 stórir þroskaðir bananar
- 50 gr smjör
- 2 egg
- 2 dl sykur
- 3 dl hveiti
- 1/2 dl mjólk
- 2 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanillusykur
- 1 tsk kanill
Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel. Bætið smjöri og stöppuðum banönum og mjólk í deigið og blandið vel. Setjið deigið í smurt brauðform (ég smyr oft formið og velti síðan haframjöli um það) og bakið í 40-50 mínútur.
Það er lang best að borða brauðið volgt með miklu smjöri, algjört nammi.