Ég bauð mömmu í heimsókn um daginn og vildi hafa eitthvað einfalt en gott þegar hún kæmi. Ég fann þessa uppskrift á Pinterest og ákvað að prófa. Við mæðgur urðum ekki fyrir vonbrigðum með útkomuna, þessar snittur væru fullkomnar sem forréttur í matarboði, í saumaklúbbnum eða sem föstudagskvölds snarl. Ég mæli með að prófa þessar.

Við fórum í gær á stúss og nýttum daginn rosalega vel. Við byrjuðum í Ikea að kaupa skipulagsbox fyrir dótið hennar Emmu, síðan fórum við í Álfaborg og keyptum flísar fyrir forstofuna sem við ætlum að fara að græja á næstunni. Við fórum svo í Byko að skoða allskonar fyrir baðherbergið okkar og síðan heim að taka geymsluna í gegn, hún þurfti mjög mikið á því að halda. Við vorum í marga tíma að sortera og flokka geymsluna og núna er hún rosa fín, ég vona að hún haldist þannig aðeins.


- snittubrauð
- brie ostur
- ólífuolía
- hráskinka
- sulta
- valhnetur
Byrjið á því að dreifa smá ólífuolíu yfir skorið snittubrauðið og bakið í ofni við 220° þar til það er komið með fallegan lit og er búið að ristast aðeins. Skerið Brie ostinn í þunnar sneiðar og leggið á snittubrauðin. rúllið hráskinkunni upp og festið með tannstöngli á brauðið. Dreifið sultunni yfir, ég notaði Cranberry and blueberry frá St. Dalfour og söxuðum valhnetum, gott er að þurrrista þær fyrst. Berið strax fram.