Í gær byrjaði ég að baka smákökur! Ég er sko alveg komin í jólagírinn en ég setti þó ekki upp jólatréð um helgina eins og planið var. Ég fór í Ikea í gær og sá þar svo sætar kökukrukkur sem ég keypti og varð þá auðvitað að baka ofaní þær.

Núna þegar farið er að kólna svona mikið þá langar mig alltaf í eitthvað rosa gott að borða, helst eitthvað heitt og matarmikið sem hlýjar manni að innan. Ég keypti mér svaka græju þegar við fórum til Bandaríkjanna yfir páskana, kjöt-tætara, sem ég er búin að bíða spennt eftir að geta notað. Ég ákvað svo að gera þessa súpu og nota græjuna í hana, en það er samt alveg hægt að nota bara venjulega gafla. Ég mæli heilshugar með því að prófa að gera þessa súpu. Hún er ótrúlega bragðgóð og matamikil en hún er líka alveg lúmskt fljótleg og miklu auðveldari en hún hljómar. Hún er líka bara gerð í einum potti sem sparar heldur betur uppvaskið, hver hatar það?
- 3 kjúklingabringur
- ólífuolía til steikingar
- 1 laukur
- 4-6 gulrætur
- 4 hvítlauksgeirar
- 1 líter chicken eða vegetable broth (fæst t.d. í Bónus)
- 2 kjúklingateningar
- 1 dós grænar baunir
- 1 dós gular baunir
- 1 pakki eggjanúðlur
- lúka spínat
- salt og pipar eftir smekk
Byrjað er á að saxa niður laukinn, gulræturnar og hvítlaukinn. Hitið olíuna í potti og steikið grænmetið í sirka 5 mínútur. Hellið þá broth-inu yfir og leyfið suðunni að koma upp. Setjið kjúklingabringurnar ofaní ásamt kjúklingateningunum og baununum. Lækkið í hitanum og leyfið að malla í 20 mínútur og takið þá kjúklinginn uppúr og rífið hann. Bætið við vatni eftir þörfum. Bætið kjúklingnum aftur útí ásamt núðlunum. Þegar núðlurnar eru tilbúnar er spínatinu bætt útí. Kryddið eftir smekk og berið fram.