Í gær kom út Kökublað Vikunnar, sem er stútfullt af jólalegum uppskriftum af allskonar góðgæti. Ég var svo heppin að fá að vera með í því með eina opnu. Það var ótrúlega skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég elska jólin.

Ég ætla að deila með ykkur einni af þrem uppskrifum sem ég gef í blaðinu en það er eitt uppáhalds jólanammið mitt, Rocky Road. Það er ótrúlega auðvelt í gerð og það bara er ekki hægt að klúðra því.

- 600 g dökkt súkkulaði (veljið það súkkulaði sem ykkur þykir gott)
- 2 pokar Dumle karamellur (skornar í tvennt)
- 2 lófafylli litlir sykurpúðar (ef það eru notaðir stórir þá eru þeir klipptir niður)
- 140 g salthnetur
- 70 g pistasíukjarnar

Skerið Dumle karamellurnar í tvennt og setjið í skál ásamt sykurpúðum og salthnetum. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið aðeins. Bætið súkkulaðinu í skálina og blandið öllu vel saman.
Setjið smjörpappír í skúffukökumót og hellið blöndunni yfir. Dreifið úr henni þannig að hún verði um 3 sm þykk. Stráið pistasíukjörnum yfir og látið kólna. Skerið í bita og njótið.
Ein athugasemd á “Rocky Road”