Áramóta eftirréttir

Ég eiginlega trúi ekki að það sé gamlársdagur á morgun. Ég þurfti að kíkja í símann minn á dagatalið áðan til þess að vera viss. Mér finnst þetta ár hafa flogið hjá, maður er enn að jafna sig á árinu 2020 og þá er bara komið 2022! Þetta ár var samt sem áður mjög stórt fyrir mig þar sem ég tók skrefið út fyrir þægindarammann og ákvað að byrja að blogga. Þegar ég skoða hvenær ég stofnaði bloggið þá kemur árið 2017. Þá bjó ég til þessa bloggsíðu en það tók mig 4.5 ár að þora að ýta á publish. Eins sorglegt og það er að ég hafi verið að láta hræðslu um skoðanir annarra halda mér frá því sem mér finnst svona skemmtilegt, þá er ég rosalega stolt af sjálfri mér og veit að 2017 ég er ánægð með mig.

Ég var í sturtu þegar ég fékk að vita að ég var beðin um að vera með í Vikunni, fyrsta hugsunin var „alls ekki!“ en ég ákvað að prófa að segja bara já og vá hvað ég er ánægð. Það er alveg ótrúlegt hvað maður er gjarn á að lyfta öllum öðrum í kringum sig upp en um leið og það kemur að manni sjálfum er maður tilbúinn að brjóta sjálfan sig niður. Ég ætla að halda áfram að vinna í þessu 2022, að standa með sjálfri mér.

Ég ætla að hafa þristamús að ósk bróður Olivers í eftirétt á morgun og svo gerði ég marengsstafi sem mynda „22“ úr eggjahvítunum sem urðu afgangs úr músinni. Ég ætla að deila með ykkur nokkrum hugmyndum af eftirréttum fyrir morgundaginn sem ég hef gert og mæli með. Uppskriftin af þristamúsinni finnið þið hér.

Súkkulaði pavlovur með saltkaramellu og salthnetum – ýtið hér fyrir uppskriftina.

Mascarponekrem með berjum – ýtið hér fyrir uppskriftina.

Salthnetu-ostakaka – ýtið hér fyrir uppskriftina.

Marensrúlla með ástaraldin

Marengsrúlla með ástaraldin – mamma gerði þessa alltaf á áramótunum, ótrúlega góð og fersk. Ýtið hér fyrir uppskriftina.

Eplabrauð

Ég elska bananabrauð. Ég man svo eftir því að koma heim þegar ég var lítil eftir að hafa verið úti allt kvöldið og mamma var búin að baka bananabrauð. Ég sá um daginn uppskrift af eplabrauði. Ég hafði aldrei heyrt um svoleiðis áður og ákvað ég að prófa að baka það, breyta smá til frá bananabrauði. Þetta brauð kom ótrúlega á óvart og Emma stóð á beit! Emma borðaði það eintómt en ég smurði það með smjöri, namm hvað það var gott. Ég tók eftir því þegar ég ætlaði að baka brauðið að ég er búin að týna brauðforminu mínu. Ég verð að finna þau eða kaupa mér ný. Eldhúsið ilmaði svo vel eftir að ég tók brauðin út, það var ekki verra! Uppskriftin gefur tvö brauð.

  • 2 stór rauð epli
  • 0.5 dl sykur
  • msk kanill
  • 4 bollar hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 4 egg
  • 2.5 bolli eplamauk
  • 3/4 bolli bráðið smjör
  • 1 msk vanilludropar

Byrjað er á að skera eplin í litla bita. Sykrinum og kanil er blandað saman og hellt yfir eplabitana og hrært því saman svo öll eplin séu þakin kanilsykri. Þetta er sett til hliðar og þurrefnin sett saman í skál. Eggjum, eplamauki, smjöri og vanilludropum er bætt saman við þurrefnin og hrært, mikilvægt er að hræra ekki meira en þarf. Hrærið eplunum svo samanvið deigið með sleif. Skiptið deiginu í tvö smurð form og bakið við 175° í 45-60 mínútur. Ég stráði kanilsykri yfir deigið í forminu áður en þau fóru í ofninn.

Smørrebrød a la Jonas

Í gær var haldið árlega jólaboðið heima hjá föðurömmu minni. Það áttu allir að koma með eitthvað á hlaðborð og kom kærasti frænku minnar hann Jonas, sem er Dani, með smørrebrød. Þar sem þetta leit svo svakalega vel út hjá honum var þetta allt myndað í bak og fyrir og tilkynnti ég honum að þetta myndi enda á blogginu og hann þyrfti að senda mér allar uppskriftir.

Öll smørrebrød með sólkjarnabrauði (danskt rúgbrauð) í botninn og skreytt með spírum.

Roastbeef

  • Smjör
  • Remúlaði
  • Salat
  • Paprika
  • Steiktur laukur
  • Rauðlaukur

Ítalskt salat

  • Skinka
  • Ítalskt salat (mæjónessalat)
  • Tómatur
  • Gúrka
  • Salat

Æggemad

  • Egg
  • Mæjónes
  • Sítróna
  • Salat
  • Tómatur
  • Gúrka

Leverpostej

  • Dönsk lifrarkæfa
  • Steiktir sveppir
  • Beikon
  • Paprika
  • Rauðkál

Gleðileg jól!

Ég vildi setja inn stutta færslu hér til þess að óska öllum blogglesendum mínum gleðilegra jóla! Ég er ótrúlega þakklát ykkur sem lesið bloggið mitt. Ég tók risastórt skref út fyrir þægindaramman í sumar þegar ég ýtti á “publish” takkan á fyrstu færslunni minni. Ég veit ekki hverju ég átti von á en alls ekki viðbrögðunum sem ég hef fengið sem hafa bara verið jákvæð. Ég hef fengið tvisvar á árinu að vera með í Vikunni sem var ótrúlega stórt fyrir mig og skemmtilegt.

Í kvöld ætlum við að njóta heima hjá mömmu með fjölskyldunni. Ég er svo spennt að sjá Emmu upplifa önnur jólin sín með aðeins meira vit fyrir þeim í ár en í fyrra. Við vorum með Ris a la mande í hádeginu og fórum svo að heimsækja ömmu Olivers. Nú erum við komin til mömmu og ætlum að horfa á jólamynd til þess að stytta biðina. Gleðileg jól öllsömul, hafið það gott yfir hátíðirnar!

Tartalettur

Gleðilega Þorláksmessu! Nú er bara einn dagur eftir af færsludagatalinu mínu. Þetta er búið að vera svo skemmtilegt og mikil áskorun en tókst með góðum árangri þótt ég segi sjálf frá. Ég bauð mömmu og tvíburunum til mín í hádeginu í tartalettur sem slógu svo sannarlega í gegn. Ég er búin að þrífa heima og setja nýtt á rúmin. Ég hlakka svo til að fara í jólanáttfötin með fjölskyldunni minni, búa til heitt súkkulaði og horfa á Christmas Vacation. Það er okkar Þorláksmessuhefð, við horfum alltaf á Christmas Vacation þá, það er algjört must! Ég passa að horfa alls ekki á hana fyrr.

Hangikjöts tartalettur

  • 200 gr hangikjöt
  • 1 dós grænar baunir
  • 2 msk hveiti
  • 2 msk smjör
  • nýmjólk
  • salt og hvítur pipar
  • músgat

Byrjað á því að bræða smjör í potti og hræra hveitnu saman við. Bætið smátt og smátt við mjólk og hrærið saman við hveitiblönduna. Ekki gera uppstúfinn og þykkan. Þegar hann er orðin passlega þykkur er slökkt undir. Þá er kryddað eftir smekk og bætt við baununum og hangikjötinu. Setjið blönduna í tartalettur og hitið í ofni í nokkrar mínútur til þess að tartaletturnar hitni aðeins. Ég var með þær á 160° í nokkrar mínútur.

Skinku og aspas tartalettur

  • 1 sveppa smurostur
  • 1 dl rjómi
  • 1 skinkupakki
  • 1 aspasdós
  • rifinn ostur

Setjið smurostinn og rjómann saman í pott og hrærið saman. Bætið rjóma við ef blandan er of þykk. Setjið smá af aspassafanum saman við. Bætið svo aspasinum og skinkunni við smurostablönduna og hrærið saman. Setjið í tartalettur og rifinn ost ofaná. Setjið í ofninn í nokkrar mínútur.

Mascarponekrem með berjum

Mamma á afmæli í dag og var með afmæli núna í kvöld. Hún bauð uppá klikkaðan eftirrétt sem ég verð að deila með ykkur uppskriftinni.

Mascarpone krem

  • 2.5 dl rjómi
  • 150 gr hvítt súkkulaði
  • 125 gr mascarpone

Setjið rjóma í pott og náið upp suðu. Brjótið súkkulaðið í og hrærið þar til bráðnað. Leyfið þessu að kólna í ísskáp yfir nótt eða þar til alveg kalt. Þeytið rjómablönduna þar til stíf. Þeytið mascarpone og bætið varlega við rjómablönduna.

Jarðaber

  • 8 stk basillauf
  • vanillustöng
  • 2 dl sykur
  • 2 dl vatn
  • Smá svartur pipar
  • 16 stk jarðaber

Klippið vanillustöng í tvennt. Hakkið basillaufin fínt. Sjóðið vatn, vanillustöng, sykur, basil og piparinn. Leyfið að kólna í ísskáp. Skerið jarðaberin í fernt. Leyfið jarðaberjunum að standa í leginum í ísskáp í klukkutíma.

Kexmulningur

  • 2 msk mulið digestive kex
  • 2 msk hveiti
  • 1.5 msk brætt smjör
  • 1.5 msk sykur
  • Smá salt
  • kardimomma (kryddið ekki dropar)

Blandið öllu saman nema kardimommunni og dreifið á bökunarplötu, stráið smá kardimommu yfir. Bakið á 200° þar til brúnast.

Piparkökutrufflur

Ég sá uppskrift af þessum trufflum á instagram hjá einni sænskri sem ég fylgi og ég varð að prófa. Ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Þetta er fullkomið auðvelt sælgæti sem ætti að slá verulega í gegn.

  • Kladdkaka, uppskrift hér
  • Piparkökudeig (ég notaði keypt)
  • 200 gr suðusúkkulaði

Byrjað er á því að gera kladdköku og baka hana í aðeins styttri tíma en hún á að bakast svo hún sé vel klessuleg og klístruð. Hún er svo hrærð í hrærivél svo hún verði að nokkursskonar deigi. Ef kakan er ekki nógu blaut er hægt að bræða smá súkkulaði og blanda saman við. Svo er piparkökudeiginu rúllað í litlar kúlur og svo kladdkakan sett utanum. Þegar kúlurnar eru tilbúnar eru þær látnar standa í ísskáp og leyft að kólna áður en bræddu súkkulaði er hellt yfir. Leyfið súkkulaðinu að stífna í ísskáp og njótið. Þær eru bestar kaldar.

Döðlugott

Tengdamamma mín gerir svo gott döðlugott. Hún gerir það fyrir öll tilefni og eru jólin engin undantekning. Við horfðum saman á Jólagesti Björgvins á laugardagskvöldið og skelltum í bæði döðlugott og rocky road á meðan. Þetta er svo sjúklega ávanabindandi, maður getur ekki hætt að laumast í.

  • 250 gr döðlur
  • 100 gr púðursykur
  • 150 gr smjör
  • 2 pakkar lakkrísreimar
  • 2 bollar rice krispies
  • 300 gr suðusúkkulaði

Byrjið á því að hakka döðlurnar í matvinnsluvél. Síðan er döðlunum hellt í pott með púðursykrinum og smjörinu og hrært þar til smjörið er alveg bráðnað. Skerið lakkrísreimarnar í bita og bætið þeim í pottinn og hrærið saman við. Svo er Rice Krispies hrært saman við og slökkt undir hellunni. Hellið Rice Krispies blöndunni í form klætt bökunarpappír. Leyfið þessu að kólna í ísskáp áður en súkkulaðið er brætt og dreift yfir. Þegar súkkulaðið hefur harðnað er döðlugottið skorið í bita. Mér finnst langbest að geyma í kæli.

Ris a la mande

Í hádeginu fórum við fjölskyldan fyrir utan Landspítalan að heilsa upp á ömmu Olivers sem liggur þar inni. Við megum ekki fara inn, amk ekki öll og vorum því fyrir utan gluggan hennar. Þar næst fórum við í Kringluna aðeins að stússast, svo er ég bara búin að vera ein heima að dunda mér í dag að klára að vinna þessa færslu og svo pakka inn gjöfum sem heimilisfólk mátti ekki sjá. Þetta er búinn að vera svo notalegur sunnudagur.

Ég ákvað að taka það á mig að búa til Ris a la mande snemma til þess að geta haft færsluna tilbúna fyrir aðfangadag. Það kom ekki að sök, ég er búin að vera að stelast í. Ég fæ alltaf Ris a la mande hjá föðurömmu minni annan í jólum og þá er hann borinn fram með karamellusósu. Ég er samt líka mjög hrifin af klassísku kirsuberjasósunni. Pabbi hann fær sér Ris a la mande, karamellusósu og bismarkís og blandar því öllu saman, ég þarf einhverntíman að prufa þessa blöndu hjá honum!

  • 2 dl grautargrjón
  • 1 líter nýmjólk
  • 2 vanillustangir
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 2 msk flórsykur
  • 500 ml rjómi
  • 100 gr möndlur

Byrjað er að setja hrísgrjón í pott með smá vatni (um 1 dl) og leyfa suðunni að koma upp og sjóða í 2 mínútur. Þá er mjólkinni bætt saman við í skömmutum og passað að hræra allan tíman. Bætið fræunum úr vanillustöngunum útí og hrærið saman við. Hrærið þar til grjónin eru soðin í gegn og mjólkin gufuð upp. Þá er súkkulaðinu hrært saman við á meðan grauturinn er heitur. Leyfið grautnum að kólna alveg, best ef það er yfir nótt í kæli. Þeytið rjómann með flórsykrinum og blandið varlega saman við grautinn með sleif. Saxið möndlurnar og blandið saman við.

Karamellusósa

  • 3 dl rjómi
  • 3 dl síróp
  • 3 dl sykur
  • 3 tsk vanillusykur
  • klípa salt

Öll hráefnin eru sett saman í pott og hrært saman í ca 5 mín á meðalhita.

Jólasveina pönnukökur

Ég man ennþá eftir því þegar ég var lítil hvað mig hlakkaði mikið til jólanna. Það var svo erfitt að bíða eftir aðfangadegi, manni fannst desember aldrei líða. Þegar maður var lítill fannst manni allt tengt jólunum svo spennandi og eitthvað sem var kannski ómerkilegt fyrir fullorðna fólkinu þótti manni sjálfum alveg ótrúlega merkilegt. Mér finnst mjög gaman að gera eitthvað smá extra fyrir Emmu til þess að skapa minningar og gera jólahátíðina töfrandi fyrir hana. Það þarf ekki að vera flókið að gera. Ég fór á Pinterest og fann þessa hugmynd og tók hún mig um 5 mínútur að framkvæma. Það voru allskonar hugmyndir sem væri gaman að prufa seinna, mæli með að skoða á Pinterest.

  • Pönnukaka (skiptir ekki máli hvernig)
  • Jarðaber
  • Bananar
  • Grísk jógúrt
  • Smarties
  • Flórsykur

Setjið pönnukökuna á miðjan diskinn, raðið skornum jarðaberjum í hatt fyrir ofan pönnukökuna. Dreifið grískri jógúrt fyrir neðan jarðaberin og setjið doppu efst eins og dúsk á jólasveinahúfunni. Gerið síðan skegg með grískri jógúrt og bönunum. Ég notaði smarties í augun og nefið. Ég stráði svo flórsykri yfir sem átti að vera snjórinn. Það er hægt að svissa út innihaldsefnunum og leika sér með þetta eftir smekk barnsins. Til dæmis væri hægt að hafa þeyttan rjóma í stað þess að hafa jógúrt.