Pasta með sólþurrkuðum tómötum og ricotta

Í dag vaknaði ég og vissi að mig langaði að prófa að elda eitthvað alveg nýtt. Ég var með í huga uppskrift sem ég hafði séð hjá einum uppáhalds matarbloggaranum mínum, Half baked harvest, og ákvað að elda hana. Uppskriftin inniheldur mörg hráefni sem eru í uppáhaldi hjá mér, svo ég bara varð að prufa sjálf. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, bæði var bragðið ótrúlega gott en svo var rétturinn mjög auðveldur og fljótgerður líka.

Ég var í einhverjum mega fíling og ákvað að kveikja á kertum á meðan ég eldaði, og græjaði líka eftirrétt fyrir okkur þrjú til þess að gera vel við okkur. Við áttum svo rosalega notalegt kvöld bara þrjú heima saman að borða góðan mat og horfðum svo á Lilo og Stitch með Emmu. Nú ætlum við Oliver að eiga kósíkvöld saman og horfa á eitthvað, við erum líka að reyna að finna hugmyndir að einhverju skemmtilegu að gera þegar við förum út til Florida núna bráðlega.

  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
  • 2 litlir skarllottlaukar
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 1/2 tsk reykt paprika
  • chili flögur
  • salt og pipar
  • 500 gr penne
  • 1 bolli ricotta
  • 1 sítróna
  • 1 bolli parmesan
  • 2 msk smjör
  • lúka af ferskri basiliku
  • lúka af ferskri steinselju
  • 2 msk dill

Hellið olíunni úr sólþurrkuðu tómötunum á pönnu, pannan þarf að vera nógu djúp svo hægt sé að sjóða pastað í henni. Ég notaði Le Creuset pott. Hitið olíuna vel og setjið laukinn (fínt skorinn) og hvítlaukinn (fínsaxaðan eða pressaðan) út á olíuna og hrærið í 2 mínútur. Þá er sólþurrkuðu tómötunum (gróft skornir) bætt í pönnuna með paprikukryddinu, chiliflögunum, saltinu og piparnum. Hrærið í pönnunni í 3 mínútur og bætið þá 4 bollum af vatni útí. Þegar vatnið byrjar að sjóða er pastanu hellt í og hrært er í annað slagið svo ekkert festist við í um 8 mínútur eða þar til pastað er tilbúið. Á meðan pastað er að sjóða er ricotta ostinum og safa úr sítrónunni þeytt saman í matvinnsluvél (líka hægt að nota blandara eða hrærivél). Bætið rifnum parmesan og smjöri út í pastað og hrærið saman þar til allt er bráðið. Þá er slökkt undir pastanu og kryddjurtunum bætt við. Berið fram með því að dreifa ricotta blöndunni á disk eða fat og setja svo pastað yfir. Blandið smá saman en ekki alveg, svo það sé ennþá ricotta blandan í botninum. Berið fram með parmesan og steinselju ofaná. Hægt er að sjá aðferðina á instagram reels hjá mér, malinorlygs á instagram.

Rice Crispies kökur

Síðustu dagar hafa verið algjörir dekur dagar. Ég fór í litun og klippingu, ég fór með vinkonum mínum út að borða og svo var Emma í næturpössun í gær svo ég fékk að sofa í alla nótt án nokkurra truflana. Það var rosalega kærkomið þar sem ég er búin að vera mjög þreytt síðustu daga því Emma er búin að vera að sofa illa. Oliver ákvað að fara með Emmu í sund og bakarí til þess að fá smá tíma með henni einn og ég ákvað á meðan að skella í Rice crispies nammi. Þetta er svo gott og svo auðvelt. Það sem ég elska við þessa uppskrift er hvað það eru fá hráefni og hvað þetta tekur stuttan tíma að útbúa. Þetta er fullkomið í barnaafmæli til dæmis.

  • 115 gr smjör
  • 350 gr sykurpúðar
  • 5-10 dl rice crispes
  • 100 gr suðusúkkulaði

Byrjað er á að bræða smjör á vægum hita. Þegar smjörið er bráðið er sykurpúðunum bætt útí og hrært í þar til smjörið og sykurpúðarnir eru bræddir saman. Þegar sykurpúðablandan er alveg bráðin þá er Rice crispies bætt útí, einn desilíter í einu þar til allt Rice crispiesið er húðað af sykurpúðablöndunni, þið sjáið hvort þið viljið bæta meira af Rice crispies eftir því hvort það sé mikið umfram magn af sykurpúðablöndunni, maður vill ekki hafa það, þá sest það í botninn á forminu. Þegar Rice crispies blandan er til þá er henni þrýst niður í form sem er klætt bökunarpappír. Leyfið að kólna alveg í ísskáp. Bræðið súkkulaði og dreyfið yfir og leyfið að harðna á. Skerið í bita og njótið.

Tíu mínútna Tiramisu

Ég er ekki mikil kaffikona. Ég fæ mér einstaka sinnum bolla um helgar og þá er hann með mikilli mjólk og allskonar auka dóti. Hinsvegar elskar pabbi minn kaffi og þarf ég alltaf að passa að vera búin að fylla á kaffihylkin áður en hann kemur í heimsókn. Pabbi elskar Tiramisu og er ein minning mér ofarlega í huga þegar ég hugsa um Tiramisu. Þá var til afgangur af Tiramisu í ísskápnum sem mamma hafði gert fyrir áramótin og pabbi fer fram um miðja nótt til þess að fá sér smá. Tiramisu skálin hennar mömmu var stór glerskál með þykkum og þungum glerbotni og pabbi missir hana beint á tærnar, við vöknuðum öll við öskur í pabba. Það var mjög fyndið.

  • 1,5 bolli rjómi
  • 1/3 bolli sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 200 gr Mascarpone við stofuhita
  • 1 bolli kalt kaffi
  • 3 msk Kahlúa (má sleppa)
  • pakki af Ladyfingers
  • kakó til þess að sigta yfir

Byrjað er á að þeyta rjómann og á meðan hann er að þeytast er sykrinum og vanilludropunum bætt við rjómann hægt og rólega. Þegar rjóminn er stífþeyttur er Mascarpone ostinum bætt í og hrært saman við rjómann. Dýfið Ladyfingers kexinu í kalt kaffið og raðið í stórt mót eða í litlar skálar eins og ég valdi að gera hér. Ef þið viljið hafa Kahlúa þá er því blandað saman við kaffið. Setjið lag af rjómanum yfir kexið og endurtakið tvisvar. Ég er með grunnar skálar svo ég náði bara einu lagi en það kom ekki að sök. Sigtið kakódufti yfir og leyfið Tiramisuinu að standa í kæli í að minnsta kosti fjórar klukkustundir, best yfir nótt.

Mars óskalisti

Ég var að fatta að það er kominn mars og ég gleymdi að setja inn febrúar óskalista! Liður sem mig langaði að hafa hér á blogginu, óskalisti í hverjum mánuði og ég klikka strax á öðrum mánuðinum. Ég ætla að reyna að gera gott úr þessu samt og við látum eins og ekkert hafi gleymst.

Adidas Ultraboost – mig vantar svo nýja hlaupaskó og ég er mjög spennt fyrir þessum. Ég bið kannski bara Oliver um þá í afmælisgjöf. Þeir fást hér.

Eldfast mót – Ég er rosalega skotin í þessum eldföstu mótum úr Heimahúsinu og væri til í að eiga nokkrar stærðir af þeim. Þau eru svo falleg að það er bara hægt að bera fram matinn í þeim. Fást hér.

Gubi sófaborð – Þetta borð er búið að vera á óskalistanum svo lengi hjá mér. Ég er staðráðin í að þetta borð sé næsta fjárfesting. Við erum nefnilega ekki með neitt sófaborð eins og er. Ég er búin að kaupa nýja mottu sem bíður niðri í geymslu þar til ég er búin að kaupa nýjan sófa og þetta borð. Borðið fæst hér.

Black Honey kerti – Ég heyrði fyrst um þetta kerti í Heimsókn hjá Sindra, hann sagði að þessi ilmur væri hans uppáhalds. Þá verð ég að sjálfsögðu að prófa það! Ég hef fundið lyktina af því og hún er ótrúlega góð og ekki of sterk, ég þoli illa sterk ilmkerti. Ég þarf að gera mér ferð í Ármúlan að kaupa mér eitt. Fæst hér.

Sumarkjólar – Við fjölskyldan erum að fara með Emmu í fyrstu utanlandsferðina á næstunni til Florida. Við erum svo spennt og við mæðgur erum að safna sumarkjólum fyrir ferðina, ég keypti þennan sæta í Zara fyrir Emmu og mig langar í eins á mig! Þessi kjóll fæst hér.

Kjúklingalæri í paprikusósu

Vá hvað það er langt síðan ég setti inn bloggfærslu! Við Emma vorum veikar heima alla síðustu viku með covidlík einkenni, líklegast eftirköst af covid. Ég er loksins farin að hressast og komin með blogglöngun. Ég var með fullt af hugmyndum fyrir bolludaginn sem er einn uppáhalds dagurinn minn á árinu hérna fyrir bloggið sem ekkert varð úr útaf veikindum. Það verður bara að bíða betri tíma!

Hinsvegar þá gerði ég þennan rétt og vá hvað hann var góður, ef þið prófið einhvern rétt af blogginu mínu þá ætti það að vera þessi. Hann var sjúklega góður.

  • 1 pakki úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði um 650 gr)
  • 2 stórar rauðar paprikur
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • 1-2 msk hunang
  • skvetta af ólífuolíu
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 2 tsk papriku krydd
  • 1/2 tsk kúmín
  • 1 tsk chili flögur eða 1/2 tsk cayenne
  • salt og pipar

Byrjað er á því að skera niður paprikurnar og setja þær í eldfast mót ásamt ólífuolíu, salti og pipar. Paprikurnar eru settar inn í ofn á 200° í 20-30 mínútur eða þar til þær eru farnar að dökkna í hliðunum og orðnar mjúkar. Þegar paprikurnar eru tilbúnar þá eru þær teknar úr eldfasta mótinu og færðar í matvinnsluvél. Kjúklingalærin eru sett í sama eldfasta mót og paprikurnar voru í, sett er yfir lærin smá olía, salt og pipar og inn í ofn á 200° í um 20 mínútur. Á meðan er bætt við paprikurnar í matvinnsluvélina krukku af sólþurrkuðum tómötum (olían í krukkunni er líka sett með), hvítlauk, hunangi, ólífuolíu, sítrónusafa og kryddum. Þessu er öllu blandað vel saman í matvinnsluvél og þegar kjúklingurinn er búinn að vera inni í ofni í 20 mín er hann tekinn út. Paprikumaukinu er dreift yfir kjúklinginn og sett aftur inn í ofn í ca 10 mínútur, ég setti sítrónusneiðar með. Berið fram með hrísgrjónum.

Amerískar pönnukökur

Gleðilegan konudag elsku konur! Ég elska svona daga þar sem maður heldur uppá fólkið í sínu lífi og gerir sér dagamun. Ég er extra þakklát fyrir allar konurnar í lífi mínu í dag, ég er einstaklega heppin að hafa alist upp með ótrúlega flottar konur í kringum mig sem eru mér miklar fyrirmyndir.

Ég elska amerískar pönnukökur, reyndar bara pönnukökur yfir höfuð. Ég legg samt ekki í að gera íslenskar pönnukökur en ég elska að gera amerískar um helgar hérna heima. Ég fann þessa uppskrift árið 2016 þegar ég og bróðir minn vorum bara tvö heima og ákváðum að gera okkur pönnukökur í kvöldmat. Ég setti hana beint í bookmark í símanum mínum því þessi uppskrift var alveg sjúklega góð. Pönnukökurnar eru ótrúlega „flöffí“ og góðar. Ég er búin að gera þessa uppskrift örugglega 100 sinnum og hún klikkar ekki. Ég mundi allt í einu áðan þegar ég var að henda í konudagspönnsur að ég ætti eftir að setja þessa uppskrift á bloggið og núna get ég bara komið hingað inn og séð uppskriftina á íslensku. Ég mæli með að þið prófið fyrir næsta bröns.

  • 1 bolli hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • hnífsodd af salti
  • 2 msk sykur
  • 3/4 bolli mjólk
  • 1 egg
  • 2 msk brætt smjör
  • 1 tsk vanilludropar
  • olía til steikingar (ég nota pam)

Byrjið á að blanda þurrefnum vel saman í skál. Í aðra skál blandið saman mjólkinni, egginu, smjörinu og vanilludropunum, leyfið smjörinu aðeins að kólna áður svo eggið eldist ekki. Blandið þurrefnunum varlega saman við. Ef deigið er of þykkt er 1-2 msk af mjólk bætt við. Látið deigið standa í 5 mínútur og hitið pönnu á miðlungs hita. Steikið þar til loftbólur myndast og snúið þá við.

Túnfisksalat

Þá er maður loksins búin með þetta covid ástand, að minnsta kosti á okkar heimili. Ég kláraði einangrun á miðnætti á föstudag og var ég búin að vera að þrífa síðan fimmtudagsmorgun. Ég var svo glöð að fá að knúsa Emmu og Oliver aftur eftir þriggja daga aðskilnað. Við erum öll alveg hress og erum sem betur fer ekki að díla við nein eftirköst. Ég er að koma mér tilbaka í rútínu með bloggið og að elda og baka. Oliver fór í gær með innkaupalista fyrir vikuna í búðina svo nú get ég aftur farið að græja fyrir bloggið. Ég fékk í gær svakalega löngun í túnfisksalat til þess að eiga yfir sjónvarpinu á kvöldin og ákvað að gera það í kvöld. Ég er búin að vera í algjöru sukki síðustu daga í einangrun svo það er gott að breyta aðeins yfir í eitthvað hollara.

  • 1 dós túnfiskur
  • 1 lítil dós kotasæla
  • 1 msk sýrður rjómi
  • 2 harðsoðin egg
  • hálfur rauðlaukur
  • 1 avókadó
  • sítrónusafi
  • salt og pipar
  • paprikukrydd
  • cayenne pipar

Sigtið vatnið frá túnfisknum og blandið honum saman við kotasæluna og sýrða rjómann. Þegar allt er vel blandað er eggjunum fínsöxuðum bætt við ásamt söxuðum rauðlauk og avókadó skorinn í bita. Mér finnst gott að setja smá sítrónusafa með en það má sleppa. Svo er kryddað eftir smekk og hrært vel saman og geymt inni í ísskáp. Ég borða mitt túnfisksalat með Finn crisp, það er sjúklega góð blanda en Ritz kex er líka alltaf klassískt.

Bananabrauð með hnetusmjörskremi

Í gær greindist ég með covid. Ég var búin að taka heimatest á hverjum degi og það var alltaf neikvætt. Svo í fyrradag vaknaði ég með mikinn hósta og beinverki og tók heimatest og enn og aftur var það neikvætt. Ég ákvað að drífa mig samt sem áður í pcr til þess að einangrunin myndi ekki lengjast en í dag erum við búin að vera heima í heila viku. Ég fékk svo skilaboðin í gær að ég væri með covid svo á föstudaginn ætti þetta að klárast hérna á heimilinu. Oliver átti að útskrifast í gær en hann hefur ekki ennþá fengið neitt um að hann sé útskrifaður svo við bíðum bara.

Emma er búin að vera mjög dugleg í þessu öllu saman en er farin að eiga smá erfitt með inniveruna og að mega ekki fara í leikskólan og hitta fjölskylduna. Hún skilur líka ekkert í þessu sem er erfitt. Það sem er búið að vera gott er að mega fara aðeins út en veðrið er ekki búið að vinna mikið með okkur. Ég ákvað í morgun að leyfa Emmu að baka með mér og við gerðum þetta sjúklega góða bananabrauð með hnetusmjörskremi. Það er fljótgert og ofur gómsætt, það fékk góð meðmæli frá öllum á heimilinu.

Bananabrauð

  • 2 stórir þroskaðir bananar
  • 50 gr smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 dl mjólk
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill
  • 1 dl súkkulaðidropar (eða eftir smekk)

Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel.  Bætið smjöri og stöppuðum bönunum og mjólk í deigið og blandið vel. Hrærið saman við súkkulaðinu og setjið deigið í smurt brauðform og bakið í 40-50 mínútur. Leyfið að kólna.

Hnetusmjörskrem

  • 200 gr mjúkt smjör
  • 2 dl flórsykur
  • 1/2 dl hnetusmjör

Byrjað er á að þeyta vel smjörið þar til það er orðið ljóst, bætið flórsykri saman við og þeytið þar til vel blandað saman. Setjið hnetusmjörið útí og þeytið saman við. Dreifið kreminu yfir bananabrauðið og njótið.

Covid og nýtt heima

Jæja það hlaut að koma að þessu. Covid bankaði uppá á okkar heimili. Á þriðjudaginn var Oliver að fara að spila leik með fótboltaliðinu sínu og við Emma ætluðum með pabba mínum og bróður í sund. Oliver ákvað fyrir leikinn, beint eftir vinnu að taka heimapróf til öryggis, hann var ekki með nein einkenni, og það bara kom strax blússandi jákvætt. Við skelltum okkur öll samstundis í PCR próf og fengum út úr því 24 klukkutímum síðar. Oliver var jákvæður eins og við var að búast en við Emma neikvæðar. Ég er því komin í smitgát, Emma í sóttkví þar sem hún er óbólusett og Oliver í einangrun. Ég er fegin að við megum fara út í göngutúra en er orðin stressuð þar sem við Emma erum enn neikvæðar samkvæmt heimaprófi, ég er hrædd um að okkar einangrun verði mjög löng. Ég ætla að vera dugleg að testa mig heima og drífa mig beint í PCR ef ég fæ jákvætt.

Ég ákvað þar sem ég hef ekki haft neinn tíma til þess að elda neitt eða græja í eldhúsinu að sýna ykkur nýjustu kaupin mín. Ég elska að sjá svona hjá öðrum og vona að þið hafið gaman af því líka. Ég keypti mér þennan vasa frá Ferm Living sem mig er búið að langa í heillengi. Ég keypti hann loksins og er sjúklega ánægð. Um leið og við erum búin í þessu Covid veseni þá ætla ég að fara að finna einhverjar greinar eða eitthvað í hann. Oliver horfði á fallega vasann minn sem ég er svo ánægð með og kom með komment að hann minnti hann á svolítið, þið getið kannski bara ímyndað ykkur hvað hann á við, ætla ekki að hafa það eftir honum hér haha! Ég horfi bara framhjá því og finnst hann samt alveg jafn fallegur.

Oliver á afmæli 1. mars og ég 3. maí. Mamma hefur gefið Oliver mjög oft Nike peysu í afmælisgjöf, það hefur verið hennar go-to gjöf. Hún ákvað að bregða út af vananum og gefa okkur sameiginlega gjöf sem myndi nýtast okkur vel. Hún gaf okkur Ooni pizzaofn sem mig hefur langað í síðan í sumar þegar mamma og Hemmi fengu sér. Hún ákvað að vera ekkert að bíða með að gefa okkur hann og fengum við hann bara núna í fyrradag. Ég er í skýjunum með hann og er svo spennt að prófa hann. Ég get ekki beðið eftir sumarkvöldum með pizzum úr ofninum og hvítvíni með, verður æði. Takk kærlega fyrir okkur mamma og Hemmi!

Spaghetti al Pomodoro

Um daginn kom pabbi til okkar eftir vinnu og Gunnar bróðir minn. Við ætluðum að borða saman og klukkan var orðin frekar margt og þurftum við að redda kvöldmat í flýti. Pomodoro er fullkominn í svoleiðis aðstæðum þar sem rétturinn á að vera fljótgerður (tekur um það bil korter að útbúa) og á hann að vera léttur og með fáum góðum hráefnum en ekki löðrandi í sósu. Ég elska að henda í þennan rétt, ég geri hann stundum seint á kvöldin fyrir okkur Oliver. Þar sem ég gerði hann úr því sem ég átti heima þetta kvöld átti ég ekki ferska basiliku svo þurrkuð þurfti að duga. Síðan átti ég bara til tómata í dós en ég á þá alltaf til frá Mutti, það er alveg hægt að nota þá í staðin fyrir ferska tómata en ég mæli þó með að prófa að gera réttinn eins og hann á að vera með fersku hráefnunum. Hann er ótrúlega góður og einfaldur, þið bara verðið að smakka!

  • góð ólífuolía
  • 300-360 gr kirsuberjatómatar
  • 3-5 hvítlauksrif
  • 200 gr spaghetti (mitt uppáhalds í þennan rétt er rummo, hægt að nota hvaða pasta sem er)
  • lúka af basiliku
  • salt
  • chili flögur
  • 1 msk smjör
  • parmesan ostur

Byrjað er á að skera tómatana í tvennt og síðan er hvítlaukurinn skorinn niður í þunnar skífur, mikilvægt að byrja á tómötunum til þess að ná að halda bleytunni í hvítlauknum. Byrjið að sjóða vatn í potti fyrir pastað. Lykillinn að góðu pomodoro er að elda pastað og sósuna á svipuðum tíma. Saltið vatnið vel (1-2 lúkur af salti, á að vera eins og hafið) og bætið pastanu í sjóðandi vatnið. Eldið pastað samkvæmt leiðbeiningum en takið af 1-2 mínútur, pastað klárast að eldast í sósunni. Hitið pönnu á miðlungs-heitt og setjið olíu á pönnuna. Það á að fara alveg nóg af olíu á pönnuna, hún á að hylja alla pönnuna og aðeins meira en það (um það bil 2 dl af olíu). Setjið hvítlaukinn út á olíuna og leyfið að liggja í þar til hann fær smá lit. Setjið tómatana út á pönnuna og hrærið þeim saman við olíuna og hvítlaukinn. Setjið lok yfir og leyfið tómötunum aðeins að eldast í nokkrar mínútur. Bætið svo við um 2 dl af pastavatninu út á pönnuna og hrærið saman við. Kryddið með chili flögum eftir smekk og bætið svo basilikunni út á. Setjið pastað út á pönnuna og bætið við smjörinu og hrærið öllu saman í 2 mínútur á pönnunni. Berið fram með parmesan osti.