Þá er maður loksins búin með þetta covid ástand, að minnsta kosti á okkar heimili. Ég kláraði einangrun á miðnætti á föstudag og var ég búin að vera að þrífa síðan fimmtudagsmorgun. Ég var svo glöð að fá að knúsa Emmu og Oliver aftur eftir þriggja daga aðskilnað. Við erum öll alveg hress og erum sem betur fer ekki að díla við nein eftirköst. Ég er að koma mér tilbaka í rútínu með bloggið og að elda og baka. Oliver fór í gær með innkaupalista fyrir vikuna í búðina svo nú get ég aftur farið að græja fyrir bloggið. Ég fékk í gær svakalega löngun í túnfisksalat til þess að eiga yfir sjónvarpinu á kvöldin og ákvað að gera það í kvöld. Ég er búin að vera í algjöru sukki síðustu daga í einangrun svo það er gott að breyta aðeins yfir í eitthvað hollara.

- 1 dós túnfiskur
- 1 lítil dós kotasæla
- 1 msk sýrður rjómi
- 2 harðsoðin egg
- hálfur rauðlaukur
- 1 avókadó
- sítrónusafi
- salt og pipar
- paprikukrydd
- cayenne pipar

Sigtið vatnið frá túnfisknum og blandið honum saman við kotasæluna og sýrða rjómann. Þegar allt er vel blandað er eggjunum fínsöxuðum bætt við ásamt söxuðum rauðlauk og avókadó skorinn í bita. Mér finnst gott að setja smá sítrónusafa með en það má sleppa. Svo er kryddað eftir smekk og hrært vel saman og geymt inni í ísskáp. Ég borða mitt túnfisksalat með Finn crisp, það er sjúklega góð blanda en Ritz kex er líka alltaf klassískt.