Um daginn kom pabbi til okkar eftir vinnu og Gunnar bróðir minn. Við ætluðum að borða saman og klukkan var orðin frekar margt og þurftum við að redda kvöldmat í flýti. Pomodoro er fullkominn í svoleiðis aðstæðum þar sem rétturinn á að vera fljótgerður (tekur um það bil korter að útbúa) og á hann að vera léttur og með fáum góðum hráefnum en ekki löðrandi í sósu. Ég elska að henda í þennan rétt, ég geri hann stundum seint á kvöldin fyrir okkur Oliver. Þar sem ég gerði hann úr því sem ég átti heima þetta kvöld átti ég ekki ferska basiliku svo þurrkuð þurfti að duga. Síðan átti ég bara til tómata í dós en ég á þá alltaf til frá Mutti, það er alveg hægt að nota þá í staðin fyrir ferska tómata en ég mæli þó með að prófa að gera réttinn eins og hann á að vera með fersku hráefnunum. Hann er ótrúlega góður og einfaldur, þið bara verðið að smakka!

- góð ólífuolía
- 300-360 gr kirsuberjatómatar
- 3-5 hvítlauksrif
- 200 gr spaghetti (mitt uppáhalds í þennan rétt er rummo, hægt að nota hvaða pasta sem er)
- lúka af basiliku
- salt
- chili flögur
- 1 msk smjör
- parmesan ostur
Byrjað er á að skera tómatana í tvennt og síðan er hvítlaukurinn skorinn niður í þunnar skífur, mikilvægt að byrja á tómötunum til þess að ná að halda bleytunni í hvítlauknum. Byrjið að sjóða vatn í potti fyrir pastað. Lykillinn að góðu pomodoro er að elda pastað og sósuna á svipuðum tíma. Saltið vatnið vel (1-2 lúkur af salti, á að vera eins og hafið) og bætið pastanu í sjóðandi vatnið. Eldið pastað samkvæmt leiðbeiningum en takið af 1-2 mínútur, pastað klárast að eldast í sósunni. Hitið pönnu á miðlungs-heitt og setjið olíu á pönnuna. Það á að fara alveg nóg af olíu á pönnuna, hún á að hylja alla pönnuna og aðeins meira en það (um það bil 2 dl af olíu). Setjið hvítlaukinn út á olíuna og leyfið að liggja í þar til hann fær smá lit. Setjið tómatana út á pönnuna og hrærið þeim saman við olíuna og hvítlaukinn. Setjið lok yfir og leyfið tómötunum aðeins að eldast í nokkrar mínútur. Bætið svo við um 2 dl af pastavatninu út á pönnuna og hrærið saman við. Kryddið með chili flögum eftir smekk og bætið svo basilikunni út á. Setjið pastað út á pönnuna og bætið við smjörinu og hrærið öllu saman í 2 mínútur á pönnunni. Berið fram með parmesan osti.
