Síðustu dagar hafa verið algjörir dekur dagar. Ég fór í litun og klippingu, ég fór með vinkonum mínum út að borða og svo var Emma í næturpössun í gær svo ég fékk að sofa í alla nótt án nokkurra truflana. Það var rosalega kærkomið þar sem ég er búin að vera mjög þreytt síðustu daga því Emma er búin að vera að sofa illa. Oliver ákvað að fara með Emmu í sund og bakarí til þess að fá smá tíma með henni einn og ég ákvað á meðan að skella í Rice crispies nammi. Þetta er svo gott og svo auðvelt. Það sem ég elska við þessa uppskrift er hvað það eru fá hráefni og hvað þetta tekur stuttan tíma að útbúa. Þetta er fullkomið í barnaafmæli til dæmis.

- 115 gr smjör
- 350 gr sykurpúðar
- 5-10 dl rice crispes
- 100 gr suðusúkkulaði
Byrjað er á að bræða smjör á vægum hita. Þegar smjörið er bráðið er sykurpúðunum bætt útí og hrært í þar til smjörið og sykurpúðarnir eru bræddir saman. Þegar sykurpúðablandan er alveg bráðin þá er Rice crispies bætt útí, einn desilíter í einu þar til allt Rice crispiesið er húðað af sykurpúðablöndunni, þið sjáið hvort þið viljið bæta meira af Rice crispies eftir því hvort það sé mikið umfram magn af sykurpúðablöndunni, maður vill ekki hafa það, þá sest það í botninn á forminu. Þegar Rice crispies blandan er til þá er henni þrýst niður í form sem er klætt bökunarpappír. Leyfið að kólna alveg í ísskáp. Bræðið súkkulaði og dreyfið yfir og leyfið að harðna á. Skerið í bita og njótið.