Marengs með lemon curd og jarðarberjum

Nú er komið að sumar uppskrift með innblástri frá sænsku sumari, númer tvö. Í þetta skiptið er það marengs. Þessi blanda af marengs, lemon curd og jarðaberjum klikkar ekki og er svo fersk og sumarleg. Ég auðveldaði mér verkið og keypti tilbúinn marengsbotn en ég var í tímaþröng. Það er mjög gott samt að nota hvíturnar í eggjunum sem verða eftir við lemon curdið í að gera marengsbotn. Ég mæli með að prófa þessa, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

  • marengsbotn
  • lemon curd (uppskrift fyrir neðan)
  • 200 ml rjómi
  • askja af jarðaberjum

Lemon curd

  • 4 eggjarauður
  • 130 gr sykur
  • rifinn börkur af sítrónu (um tvær matskeiðar)
  • safi úr tveimur sítrónum
  • 100 gr kalt smjör skorið í teninga

Byrjað er á að píska saman eggjarauðurnar og sykurinn í potti. Bætið svo sítrónuberkinum og safanum út í og pískið því saman. Kveikið á lágum hita undir pottinum og hrærið stanslaust með písknum þar til það byrjar að þykkna í pottinum. Þegar búðingurinn er farinn að þykkna þá er slökkt undir og smjörinu bætt saman við og hrært þar til það er alveg bráðnað og blandað saman við búðinginn. Setjið í loftþéttar umbúðir og geymið í ísskáp. Búðingurinn þykknar í ísskápnum.

Setjið rjóma, lemon curd og jarðaber á marengsinn og berið fram.

Ódýr og fljótleg grænmetisskál

Á föstudagskvöldið fór Emma í næturpössun og við Oliver fórum á deit. Við enduðum á því eins og flest önnur deit að kúra uppí sófa með bland í poka, það er það sem manni langar mest að gera þegar maður fær næturpössun fyrir barnið, að slaka á og sofa vel. Þar sem það var mikið sukk á föstudaginn og svo líka í gær þá langaði okkur í eitthvað hollt og þægilegt í dag, snýst allt um jafnvægið. Ég var ekki að nenna miklu veseni svo ég skellti bara í einhversskonar grænmetisskál eða salat. Það er vel hægt að breyta til og nota annað en ég en ég ákvað að skella þessu hingað inn í eina heimilislega færslu, ekkert fancy, því þetta var bara ótrúlega gott. Notið endilega bara það sem þið eigið til að hverju sinni.

Innihald

  • sæt kartafla
  • kartöflur
  • kúskús
  • rauð paprika
  • brokkolí
  • gúrka
  • tómatar
  • rauðlaukur
  • klettasalat
  • grænmetisbollur
  • pestó
  • fetasostur

Ég skellti sætukartöflunum og kartöflunum saman í fat með olíu og eldaði í ofni, ég kryddaði þær með salti, pipar og paprikukryddi. Ég setti svo paprikurnar og brokkolí í annað fat og skellti smá olíu yfir og kryddaði með salti og pipar og eldaði líka í ofni. Ég sauð vatn í hraðsuðukatli og hellti út á kúskúsið eftir leiðbeiningum. Ég setti kjúklingatening, salt og pipar út í kúskúsið fyrst. Ég hitaði svo nokkrar grænmetisbollur sem ég átti í frystinum og hafði með. Ég raðaði þessu öllu svo í skál og þá var þetta tilbúið.

Nýjar gardínur

Ég get eiginlega ekki sagt annað en að ég sé í skýjunum. Gardínurnar sem ég pantaði í byrjun júní komu í gær og ég vil eiginlega ekki fara út úr húsi í dag því ég vil bara sitja og horfa á þær. Það kom sér því vel að það er bara ömurlegt veður úti svo ég þarf hvort eð er ekkert að vera að fara neitt út.

Ég var búin að vera með svona hörlíkisgardínur með new wave rykkingu á óskalistanum mínum mjög lengi en það var annað sem þurfti að setja í forgang þegar við keyptum íbúðina. Ég sá svo bara fyrir slysni auglýsingu á Instagram hjá mér nýtt gardínufyrirtæki á Íslandi sem heitir Glory Blinds, gloryblindsiceland á Instagram. Ég ákvað að senda þeim línu og þau komu og mældu hjá mér frítt og gáfu mér tilboð, og það var besta tilboðið sem ég hafði fengið á þessum gardínum miðað við önnur fyrirtæki. Ég fékk svo heimsendar prufur af efnum svo ég gat mátað þær við gluggana og málninguna á veggjunum heima í rólegheitum. Ég var í smá vandræðum fyrst með að velja á milli beige eða hvítt en á endanum valdi ég beige og sé ekki eftir því vali. Þetta bætir svo mikilli hlýju við íbúðina og hækkar þvílíkt lofthæðina.

Nú langar mig að fá mér líka inn í svefnherbergin eftir að hafa séð hvað þetta gerir svakalega mikið og kemur vel út. Núna bíðum við eftir að sófaborðið okkar komi í Epal og þá fer stofan að verða klár. Það er svo skemmtilegt að sjá íbúðina taka á sig heildarmynd og það hvetur mann áfram í að klára alveg allt. Þegar við tókum við íbúðinni var margt og mikið á framkvæmdarlistanum og óskalistanum og það er ótrúlegt hvað okkur hefur tekist gera á stuttum tíma finnst mér. Núna næst ætlum við að reyna að gera þvottahúsið skemmtilegra og það er svo lítil framkvæmd að við stefnum á að græja það jafnvel núna í sumar. Svo ætlum við að fara að huga að eldhúsframkvæmdum og baðherberginu sem er svona stærsta framkvæmdin svo við viljum vera alveg með á hreinu hvað við viljum gera. Við erum með margar hugmyndir en þurfum að ákveða eitthvað sem passar fyrir okkur.

Sítrónukaka í glasi

Upp á síðkastið hef ég verið á einhverju sítrónu tímabili, sem þið kannski takið eftir núna þegar ég er með tvær sítrónuköku uppskriftir í röð. Mér finnst sítrónur eitthvað svo sumarlegar og ferskar. Mér finnst sítrónukökur léttari og sumarlegri en til dæmis klassískar súkkulaðikökur, þótt þær standi alltaf fyrir sínu.

Ég rakst á þessa uppskrift hjá Fridas bakblogg og ég vissi að ég þyrfti að prufa að gera sjálf. Ég var enga stund að henda í kökuna og það voru engin flókin innihaldsefni, ég þurfti ekki að kaupa neitt nema hvítt súkkulaði til dæmis. Núna þegar ég er byrjuð í sumarfríi langar mig að byrja að setja inn sumarlegri uppskriftir og halda í vonina um að sólin láti sjá sig. Ég er líka farin að komast í Svíþjóðargírinn og langar mig þess vegna að setja inn nokkrar sumarlegar sænskar uppskriftir á næstunni og er þessi fyrsta uppskriftin í þessari nýju sænsku seríu minni.

Sítrónukaka

  • 200 gr smjör
  • 3 egg
  • 3,5 dl sykur
  • 1 sítróna (börkur rifinn og safi)
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl hveiti

Byrjað er á að bræða smjörið og leyfa því aðeins að standa. Þeytið saman eggin, sykurinn, rifinn sítrónubörk og safann úr sítrónunni. Bætið svo við smjörinu, vanillusykrinum og hveitinu og blandið vel saman. Bakið við 175° í 25 mínútur.

Leyfið kökunni að kólna og skerið hana í bita. Berið fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum og hvítu súkkulaði.

Limoncello kaka

Long time no bloggfærsla! Úff það eru komnar nokkrar vikur síðan ég birti síðast færslu hérna en ástæðan er sú að helluborðið okkar og ofninn biluðu á nánast sama tíma. Það var smá bið eftir viðgerðarmanni en hann kom svo og kippti þessu í lag á engum tíma svo ég er mega ánægð að geta eldað aftur og bakað heima. Nú fer ég að detta í sumarfrí eftir þessa viku, ég er spennt að baka fullt í fríinu.

Ég og Hanna vinkona mín erum með hefð að einu sinni í mánuði (amk) röltum við á bar í hverfinu okkar. Það er rosa skemmtilegt alltaf hjá okkur og höfum við oft prófað nýja kokteila eða drykki þarna. Síðast þegar við fórum tókum við eftir nýjum drykk á drykkjarseðlinum, Limoncello Spritz. Hingað til höfðum við bara verið í Apperol Spritz svo við ákváðum að prófa þetta og sáum sko ekki eftir því. Ég fór beint daginn eftir og keypti mér Limoncello svo ég gæti gert svona sjálf heima, þetta er ekta sumarkokteill. Ég prófaði að gera sítrónuköku úr líkjörnum, ég fékk hugmyndina að því þegar ég skoðaði heimasíðuna hjá þeim sem eru að flytja þetta inn, þar voru þeir með uppskrift að samskonar köku. Hún heppnaðist svakalega vel svo hún fær að birtast hér inni, ég þarf svo við tækifæri að mynda drykkinn svo ég geti skellt uppskriftinni af honum hingað líka.

Limoncello kaka

  • 1 ½ bolli hveiti
  •  ½ tsk lyftiduft
  •  ½ tsk matarsódi
  •  ½ tsk salt
  • 3 egg
  • 1 bolli sykur
  • 2 msk mjúkt smjör
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 dl limoncello
  •  ½ bolli bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
  • hýði af 1 sítrónu

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel. Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál. Hrærið saman í annari skál eggjum, sykri, smjöri, vanilludropum og limoncello þar til hefur blandast vel. Hrærið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu og sítrónuhýði saman við og blandið vel. Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið í 45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr

  • 1 bolli flórsykur
  • 2 msk nýmjólk
  •  ½ tsk sítrónudropar

Hrærið öllu saman og hellið yfir kökuna.

Júní óskalisti

Í gær bókuðum við ferð til Stokkhólms. Ég hef ekki farið þangað í 3 ár og ég er að deyja úr söknuði og spenning. Ég reyni að fara þangað út að minnsta kosti einu sinni á ári svo það er löngu kominn tími til. Við förum í júlí svo núna „þarf“ ég að fara að skoða sumarföt og hvað ég ætla að kaupa úti. Ég kaupi alltaf nammi eða „godis“ í Svíþjóð og líka alltaf brauð sem ég elska haha. Ég get ekki beðið eftir að borða kanilsnúða, kjötbollur og sænskt nammi! Ég ólst upp í Stokkhólmi og mér finnst ég alltaf vera komin heim þegar ég heimsæki.

Chloé canvas tote taska – þessi er búin að vera lengi á óskalistanum mínum, mér finnst hún svo sumarleg

Celine sólgleraugu – Mig langar svo í stór svört klassísk sólgleraugu og mér finnst þessi tikka í öll box

Dagg vasi frá Svensk Tenn – Þegar við bókuðum flugið í gær var fyrsta sem ég sagði við Oliver „í gríni“, „hlakkar þig ekki til að drösla þessum heim í handfarangri?“ og hann sagði að það versta við þetta grín væri að það að þetta væri í alvöru að fara að gerast, því hann þekkir sína haha. Mig er búið að langa sjúklega lengi í þennan vasa, hann er svo ótrúlega flottur.

Mateus leirtau – Talandi um að drösla brothættu dóti í handfarangri þá langar mig í meira í Mateus safnið mitt í Stokkhólmsferðinni.

Anine Bing blazer – Mig langar sjúklega mikið í þennan, og svo sem margt annað frá Anine Bing.

Asísk nautaspjót

Gleðilega hvítasunnu! Í dag ákvað Emma að vakna fyrir allar aldir, sem hún tekur nú ekki oft uppá sem betur fer. Emma bauð mér í kaffiboð í herberginu sínu og var ég svo rukkuð nokkrar krónur fyrir, eða eins og hún segir „mikið peninga“! Við ætlum í kvöld til tengdó þar sem við ætlum að elda saman hrygg, brúna kartöflur og hafa allskonar gott meðlæti með. Emmu er búið að langa svo svakalega mikið í strætó nýlega svo við kannski skellum okkur einn hring í dag eða á morgun, annars eru engin önnur plön hjá okkur og mér finnst það voða notalegt.

Þessi réttur er ekta sumar grill matur sem er hægt að undirbúa kvöldinu áður og skella svo á grillið daginn eftir. Mamma gerði þennan rétt um daginn þegar hún bauð okkur í mat og ég varð að fá hjá henni uppskriftina.

  • 600 gr nautakjöt
  • 4 rauðar paprikur
  • 3 laukar

Marinering

  • 1 dl sojasósa
  • 1 msk púðursykur
  • 1 msk hrásykur
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1/2 dl hvítvín
  • 1 msk rifinn engifer
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk fínsaxaður graslaukur

Blandið saman marineringunni og skerið kjötið í teninga. Leyfið kjötinu að liggja í marinerinunni í ísskáp í amk 2 klst. Skerið laukinn og paprikuna og setjið grænmetið og kjötið á grillprjón. Grillið á háum hita þar til kjötið er tilbúið.

Berið fram með hrísgrjónum, chilimajó, kóríander og grilluðu lime.

Avocado toast með chilismjöri

Ég átti mjög notalegan dag í dag. Ég keypti mér spegil sem mig er búið að langa lengi í frá Ferm Living í Epal í fyrradag. Hann var á 10% afslætti útaf lagerhreinsun hjá þeim sem er út morgundaginn minnir mig. Ég hengdi spegilinn upp í dag og breytti aðeins hérna heima í leiðinni. Það var svo gott að þrífa heimilið fyrir helgina og endurraða svo aðeins skrautmunum og breyta smá til. Ég pantaði loksins gardínur í vikunni svo það eru ca 3 vikur í þær og ég bara get ekki beðið. Það mun gjörbreyta íbúðinni að fá þær. Ég er svo spennt fyrir þessari löngu helgi framundan, við erum ekki með nein plön og ætlum bara að njóta saman fjölskyldan. Þessi uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur í dag er fullkomin lúxus morgunmatur/brönsréttur fyrir helgina.

Ég sá þessa uppskrift hjá einum uppáhalds matarbloggaranum mínum, Half Baked Harvest. Ég elska að fá mér avocado toast þá daga sem ég er í fríi og get byrjað morguninn hægt. Ég vissi að ég yrði að prófa þessa útgáfu af avo toast og ég held bara að þetta hafi verið eitt það besta sem ég hef smakkað.

  • Ristað súrdeigsbrauð, eða þitt uppáhalds brauð
  • avókadó, maukað
  • 4 egg
  • 1 dl rifinn ostur
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 msk smjör
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða pressað
  • 2 tsk chili flögur
  • 2 tsk paprikukrydd
  • salt og pipar

Byrjað er á að harðsjóða 4 egg. Þegar þau eru tilbúin eru þau stöppuð niður með ostinum svo osturinn bráðni saman við eggin. Bræðið smjör í potti með ólívuolíu og þegar smjörið er bráðið er hvítlauknum, chili flögunum og paprikukryddinu bætt útí og hrært vel. Leyfið þessu að sjóða saman í smá stund og slökkvið svo undir. Setjið avókadó á ristað brauð og svo eggjablönduna ofaná avókadóið. Hellið svo chilismjörinu yfir allt og njótið.

Kartöflur í hunangi og graslauk

Við fórum í mat til mömmu á laugardaginn. Bróðir minn kom heim eftir hálfs árs dvöl í Danmörku þar sem hann var í myndlistaskóla og við héldum upp á heimkomuna með matarboði. Mamma var með svo ótrúlega góðan mat að ég ákvað að nýta tækifærið og mynda hann og setja uppskriftirnar hingað inn. Þetta eru sjúklega góðar kartöflur og þær eru mjög auðveldar í framkvæmd. Ég mæli með að prófa þessar!

  • 1 kg kartöflur
  • 2 msk balsamik edik
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk hunang
  • 1 hvítlauksrif, pressað eða rifið
  • salt og pipar
  • 0.5 dl graslaukur, fínsaxað
  • 0.5 dl rauðlaukur, fínsaxað

Hitið ofninn í 200°. Blandið saman balsamik edik, ólífuolíu, hunangi, hvítlauksrifi, salti og pipar. Veltið kartöflunum uppúr blöndunni og setjið inn í ofn í 40-45 mínútur. Snúið kartöflunum 3 sinnum á meðan þær eru að eldast. Stráið yfir graslauknum, rauðlauknum og smá grófu salti þegar kartöflurnar eru tilbúnar og berið fram.

Pretzel súkkulaðibitakökur

Þessa uppskrift sá ég á Tiktok og ég bara varð að prófa. Ég hafði mömmu og Hemma í huga þegar ég sá þessa uppskrift því þau elska pretzels, bæði mjúkar og harðar. Ég er ekki svo hrifin af þessum hörðu, sem eru eins og saltstangir. En þær voru samt mjög góðar í þessum kökum. Ég keypti þær í snakkdeildinni í Bónus en þær eru alveg til í flestum búðum. Kökurnar eru með svipaða áferð og subway kökurnar, mjúkar í miðjuni en samt gefur pretzelið smá crunch. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessar!

Þessi uppskrift er frekar stór, eða gefur um 30 kökur.

  • 340 gr smjör
  • 470 ml púðursykur
  • 2 egg + 2 eggjarauður
  • 700 gr hveiti
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 2 tsk salt
  • 2 plötur af suðusúkkulaði
  • 2-3 dl pretzel
  • sjávarsalt

Byrjið á því að brúna smjörið á pönnu. Það gerir kökurnar svo extra góðar, hrærið í smjörinu á pönnunni þar til það byrjar að freyða og brúnast. Slökkvið þá undir og leyfið smjörinu aðeins að kólna. Þegar smjörið er kólnað er púðursykrinum og smjörinu hrært vel saman. Eggjunum og rauðunum er svo bætt útí smjörblönduna og hrært vel saman við. Í aðra skál er hveitinu, matarsódanum og saltinu hrært saman. Bætið fyrst helmingnum af hveitiblöndunni í smjörblönduna og hrærið saman og svo restinni af hveitinu. Passið að hræra ekki of mikið. Hellið svo súkkulaðinu grófsöxuðu og pretzel ofaní, ég muldi pretzelið smá en vildi samt hafa það frekar gróft. Blandið súkkulaðinu og pretzelinu saman við deigið og leyfið deiginu að standa í kæli í amk 30 mínútur, því lengur því betra. Myndið kúlur úr deiginu og bakið í miðjum ofni á 175° í 11-13 mínútur. Stráið sjávarsalti yfir og leyfið kökunum að kólna.