Upp á síðkastið hef ég verið á einhverju sítrónu tímabili, sem þið kannski takið eftir núna þegar ég er með tvær sítrónuköku uppskriftir í röð. Mér finnst sítrónur eitthvað svo sumarlegar og ferskar. Mér finnst sítrónukökur léttari og sumarlegri en til dæmis klassískar súkkulaðikökur, þótt þær standi alltaf fyrir sínu.

Ég rakst á þessa uppskrift hjá Fridas bakblogg og ég vissi að ég þyrfti að prufa að gera sjálf. Ég var enga stund að henda í kökuna og það voru engin flókin innihaldsefni, ég þurfti ekki að kaupa neitt nema hvítt súkkulaði til dæmis. Núna þegar ég er byrjuð í sumarfríi langar mig að byrja að setja inn sumarlegri uppskriftir og halda í vonina um að sólin láti sjá sig. Ég er líka farin að komast í Svíþjóðargírinn og langar mig þess vegna að setja inn nokkrar sumarlegar sænskar uppskriftir á næstunni og er þessi fyrsta uppskriftin í þessari nýju sænsku seríu minni.
Sítrónukaka
- 200 gr smjör
- 3 egg
- 3,5 dl sykur
- 1 sítróna (börkur rifinn og safi)
- 2 tsk vanillusykur
- 3 dl hveiti
Byrjað er á að bræða smjörið og leyfa því aðeins að standa. Þeytið saman eggin, sykurinn, rifinn sítrónubörk og safann úr sítrónunni. Bætið svo við smjörinu, vanillusykrinum og hveitinu og blandið vel saman. Bakið við 175° í 25 mínútur.
Leyfið kökunni að kólna og skerið hana í bita. Berið fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum og hvítu súkkulaði.