Við fórum í mat til mömmu á laugardaginn. Bróðir minn kom heim eftir hálfs árs dvöl í Danmörku þar sem hann var í myndlistaskóla og við héldum upp á heimkomuna með matarboði. Mamma var með svo ótrúlega góðan mat að ég ákvað að nýta tækifærið og mynda hann og setja uppskriftirnar hingað inn. Þetta eru sjúklega góðar kartöflur og þær eru mjög auðveldar í framkvæmd. Ég mæli með að prófa þessar!

- 1 kg kartöflur
- 2 msk balsamik edik
- 1 msk ólífuolía
- 1 msk hunang
- 1 hvítlauksrif, pressað eða rifið
- salt og pipar
- 0.5 dl graslaukur, fínsaxað
- 0.5 dl rauðlaukur, fínsaxað
Hitið ofninn í 200°. Blandið saman balsamik edik, ólífuolíu, hunangi, hvítlauksrifi, salti og pipar. Veltið kartöflunum uppúr blöndunni og setjið inn í ofn í 40-45 mínútur. Snúið kartöflunum 3 sinnum á meðan þær eru að eldast. Stráið yfir graslauknum, rauðlauknum og smá grófu salti þegar kartöflurnar eru tilbúnar og berið fram.