Brownie-klattar með valhnetum

Núna um helgina ætlum við bara að taka því rólega. Á fimmtudaginn vorum við vinkonurnar með babyshower fyrir Mörtu vinkonu okkar sem heppnaðist ótrúlega vel. Við leyfðum Emmu að vera heima með okkur í gær að hafa, eins og hún segir, kósí. Núna er hún komin í pössun til ömmu sinnar og langaði mig að baka eitthvað einfalt til að eiga yfir helgina og mundi ég þá eftir þessari uppskrift. Ég hélt ég væri búin að deila henni hér en þessari uppskrift deildi ég í Vikunni sem ég var í í september. Ég mæli með að prófa þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en líka svolítið öðruvísi.

  • 2 bollar flórsykur
  • 1 bolli hveiti
  • 2/3 bolli kakó
  • 1 tsk salt
  • 3 eggjahvítur
  • 1 msk vanilludropar
  • 2 msk kælt kaffi
  • 1 dl súkkulaðidropar
  • valhnetur
  • gróft salt

Blandið saman öllum þurrefnum (ekki valhnetum og grófu salti). Hrærið síðan eggjahvítunum, vanilludropunum og kaffinu saman við og síðast súkkulaðidropana. Setjið deigið í kæli í 30 mín og rúllið því síðan upp í u.þ.b. 12-15 kúlur. Veltið kúlunum upp úr söxuðum valhnetum og raðið á bökunarplötu og bakið á 175°C í 15 mín. Gott er að strá smávegis grófu salti yfir klattana þegar þeir koma úr ofninum.

Pasta Alfredo og Chicken Milanese

Þessi réttur er án efa einn af mínum uppáhalds. Þessi er svona algjört „comfort food“. Ég setti inn á Instagram um daginn þegar ég var að útbúa þennan rétt og fékk þónokkrar fyrirspurnir um uppskrift svo hér er hún. Þessi uppskrift miðast við tvo.

  • 2 kjúklingabringur
  • 2 egg
  • hveiti
  • brauðrasp
  • 3-4 greinar af salvíu
  • 4 hvítlauksgeirar
  • olía

Byrjað er á að skera bringurnar þvert á lengdina (til þess að þynna þær og fá 4 bita). Síðan er gott að berja þær niður til þess að fá þær extra þunnar. Síðan er bringunum velt upp úr hveitinu, síðan eggjunum og svo raspinum. Síðan er sett olía í pönnu, botnfylli (ca 1-2 cm upp pottinn) af olíu. Byrjað er að setja hvítlaukinn í og svo salvíuna. Síðan er kjúklingurinn settur í olíuna og steiktur þar til hann fær fallegann lit.

  • 125 gr tagliatelle
  • 50-80 gr smjör
  • parmesan
  • pastavatn

Byrjað er á að sjóða pastað eins og leiðbeiningar sýna. Mér finnst best að sjóða í 2 mínútur styttra en tíminn á pakkningunni segir til þar sem það mun fara á pönnu og verða mýkra. Mikilvægt er að salta vatnið vel (heila lúku). Takið svo smá af pastavatninu til hliðar áður en því er hellt frá pastanu. Smjör er brætt á pönnu á vægum hita. Þegar það er alveg brætt er hitinn hækkaður aðeins og ca bolli af pastavatninu er bætt útá. Því er leyft að malla saman en hrært á meðan. Þegar þetta er búið að fá að malla aðeins og búið að blandast saman er pastanu hellt út á. Síðan er nóg af parmesan sett í, ég set alveg tvær fullar lúkur og hrært saman við þar til hann er bráðnaður í. Þá er tilbúið ekta ítalskt pasta Alfredo. Síðan er þetta borið fram með kjúklingnum og gott er að hafa sítrónu með líka

Hnetukurlskúlur

Ég er ekki mikil ís manneskja, ég myndi yfirleitt alltaf velja frekar nammi. Hinsvegar ef ég ætti að velja mér uppáhalds ís þá væri það án efa hnetutoppur frá Emmess. Þegar ég sá að Emmess væri byrjað að selja bara hnetukurlið í búðum þá vissi ég að ég þyrfti að baka eitthvað úr því. Ég fór í smá hugmyndavinnu og datt svo í hug að sameina tvö uppáhöld, hnetukurl og kókoskúlur!

  • 100 gr mjúkt smjör
  • 1 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 msk kakó
  • 3 dl haframjöl
  • 2 msk kælt kaffi
  • poki af hnetukurli

Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið vanillusykri, kakó, haframjöli og kaffi saman við og vinnið vel saman. Rúllið litlar kúlur úr deginu og veltið þeim upp úr kókosmjöli. Geymið kókoskúlurnar í ísskáp.

Tómatsúpa

Þessi súpa er fullkomin haustsúpa að mínu mati. Hún er fljótgerð og það þarf ekkert að hafa fyrir henni. Ég hef gert hana með allskonar grænmeti sem er á síðasta snúning og hún er alltaf jafn góð. Ég gerði hana í fyrradag fyrir Oliver sem er ennþá bara á fljótandi og notaði þá líka gulrætur sem var líka mjög gott. Oliver setur smá tabasco útí en hann vill hafa súpuna extra sterka, svo það er smá tips frá honum fyrir þá sem eru fyrir sterkan mat.

  • 1 laukur
  • 6 tómatar
  • 1 rauð paprika
  • 5 hvítlauksrif
  • basilika
  • salt og pipar
  • ólífuolía
  • 1 msk rjómi
  • 1 msk balsamik- gljái
  • grænmetisteningur
  • chiliflögur eftir smekk
  • cayenne pipar

Skerið niður grænmetið og setjið það í eldfast mót með ólífuolíu, salti og pipar. Eldið í ofni í 30 mín. við 220°C. Fylgist vel með því. Grænmetið er tilbúið þegar kominn er smávegis litur á laukinn og grænmetið hefur mýkst. Setjið grænmetið í blandara og maukið saman, einnig er hægt að nota töfrasprota. Hellið blöndunni í pott með smávegis olíu, rjómanum, balsamikgljáa, grænmetisteningnum og kryddum og leyfið að malla. Sleppið cayenne- piparnum ef þið viljið ekki hafa súpuna sterka. Smakkið til og bætið við eftir smekk. Berið súpuna gjarnan fram með balsamikgljáa og basiliku. Hægt er að leika sér mikið með þessa uppskrift og hafa til dæmis sýrðan rjóma, parmesan-ost eða súrdeigsbrauð með.

Kanilsnúðar

Á mánudaginn er kanelbullens dag í Svíþjóð eða „kanilsnúðadagurinn“. Þá er algjört möst að gera sér smá dagamun og fá sér snúð. Hér er uppskrift af ekta sænskum kanilsnúðum og var hún mjög einföld.

Kanilsnúðar

  • 50 gr ger
  • 50 gr smjör
  • 3 dl mjólk
  • 1/2 dl sykur
  • 7 dl hveiti

Byrjað er á að bræða smjörið og hella mjólkinni útí og blanda saman. Blandan er hituð þannig hún sé volg (ca 37°). Gerinu er hellt útí og leyst upp. Síðan er þurrefnum blandað saman við vel og viskastykki sett yfir og látið standa í 30 mínútur.

Fylling

  • 50 gr mjúkt smjör
  • 1/2 dl sykur
  • 2 tsk kanill

Öllum hráefnum blandað vel saman.

Síðan er deigið flett út á borðflöt sem er búið að dreifa á hveiti. Deigið á að vera um 30x40cm. Svo er fyllingunni dreift yfir og deiginu rúllað upp og skorið í ca 20 bita. Svo er snúðunum raðað á bökunarplötu og aftur sett viskastykki yfir í ca 20 mínútur. Svo er penslað eggi yfir snúðana og hellt perlusykri yfir. Bakað í miðjum ofni á 250° í 8 mínútur.

Bláberjamöffins með sítrónu-rjómaostakremi

Oliver fór í kjálkaaðgerð síðasta fimmtudag, sem þýðir það að hann er víraður saman í 4 vikur. Hann var búinn að bíða eftir aðgerðinni í marga mánuði en hún var búin að frestast oft vegna Covid. Núna er ég því bara að elda fyrir mig og Emmu því hann má ekki borða neitt, bara drekka. Ég ákvað í gærkvöldi að baka þessar möffins, en ég hef ekki viljað baka neitt þar sem Oliver getur ekki smakkað. Hinsvegar þá vissi ég að þessar möffins myndu ekki freista hans of mikið þar sem hann er ekki mikið fyrir ber né sítrónu, og sló ég því til og sé alls ekki eftir. Namm hvað þessar eru góðar!

Bláberjamöffins

  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 50 gr brætt smjör
  • 1 1/2 dl mjólk
  • 100 gr bláber

Byrjað er að hræra saman egg og sykur þar til létt og ljóst. Síðan er restinni af þurrefnunum blandað saman við og að lokum smjörinu og mjólkinni. Þegar deigið er tilbúið er bláberjunum hrært saman við. Síðan er deigið sett í form og bakað á 200° í 20 mínútur.

Sítrónu rjómaostakrem

  • 100 gr rjómaostur (við stofuhita)
  • 50 gr smjör (við stofuhita)
  • 150 gr flórsykur
  • 1 tsk sítrónusafi
  • smá sítrónubörkur

Rjómaostinum og smjörinu er þeytt saman og þegar það er vel blandað er flórsykrinum bætt saman við. Þegar allt er orðið vel blandað er sítrónusafanum hellt út í ásamt berkinum. Síðan er kreminu sprautað á möffinskökurnar.

Grískar kjötbollur með tzatziki

Þessi uppskrift er sjúklega góð og valdi ég þess vegna að hafa hana í Vikunni þar sem ég gaf nokkrar uppskriftir. Þessar bollur eru algjör snilld til þess að bera fram á veisluborði eða í saumaklúbbi til dæmis.

Grískar kjötbollur

  • 600 gr nautahakk
  • 1 dl brauðrasp
  • 1 egg
  • 2 msk eplaedik
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 1/2 dl söxuð steinselja
  • 1/2 dl saxað dill
  • 1 tsk oreganó
  • salt og pipar
  • hveiti til þess að velta bollunum uppúr
  • olía til að steikja upp úr

Fínsaxið laukinn, steinseljuna og dillið. Blandið síðan öllum hráefnunum í eina skál (nema síðastnefnda) og best er að nota hendurnar við það. Búið til bollur úr blöndunni og setjið í kæli í a.m.k. 30 mín. Veltið síðan bollunum upp úr hveiti, dustið umfram hveitið af og steikið bollurnar upp úr olíu. Olían á að ná að þekja u.þ.b. hálfa bolluna. Steikið á miðlungshita þar til kjötbollurnar hafa fengið góðan lit, eða í um 3 mín. á hvorri hlið. Þerrið olíu af þeim með eldhúspappír og berið fram.

Tzatziki

  • 350 gr grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 1 hvítlauksrif (pressað)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1/2 msk ólífuolía
  • 1 msk dill
  • smá sjávarsalt

Byrjað er á að rífa niður heila gúrku. Svo er vatnið sigtað frá gúrkunni og gúrkunni pressað niður í sigtið til þess að losa allan umfram vökva. Síðan er öllum hráefnum blandað saman og sósan sett í kæli þar til borin fram.

Súkkulaði pavlovur með saltkaramellu og salthnetum

Núna á fimmtudaginn kom nýjasta tölublað Vikunnar út, en þar er ég að gefa 3 uppskriftir og smá spjall við mig. Ég var smá kvíðin að vera með en það var algjör óþarfi að vera það því þetta var bara ótrúlega gaman. Ég er búin að fá rosalega góð viðbrögð og er rosalega þakklát fyrir það. Ég er líka mjög þakklát fyrir góðar viðtökur við blogginu mínu sem ég var búin að vilja opna í mjög langan tíma. Ég vil mæla með því að ef einhver hefur áhuga á að blogga, að bara byrja. Það er lang erfiðast að byrja en það er bara eitthvað sem maður miklar fyrir sér. Síðan auðvitað mæli ég með því að þið kaupið Vikuna og lesið viðtalið og uppskriftinar frá mér.

Ég bauð uppá þennan eftirrétt um daginn þegar ég var með matarboð. Það er mjög auðvelt að skella í þennan eftirrétt og var hann alveg ótrúlega góður. Oliver er yfirleitt ekki hrifinn af marengs en honum fannst þetta alveg sjúklega gott!

Hráefni í pavlovur (ca 6 stk)

  • 4 eggjahvítur
  • 2 dl sykur
  • 50 gr suðusúkkulaði

Aðferð

Byrjað er á því að bræða súkkulaðið og leyfa því aðeins að kólna. Síðan er eggjahvítunum þeytt saman við sykurinn þar til blandan er stífþeytt. Síðan er súkkulaðinu hellt útí, ég notaði skeið til þess að hella súkkulaðinu ofaní í einhversskonar hringi og hrærði svo varlega saman til þess að fá smá marmaraáferð. Síðan er marengsinn settur á bökunarplötu í 6 pavlovur og ég þrýsti með skeið í miðjuna á hverri pavlovu til þess að fá smá holu í hana. Síðan eru pavlovurnar settar í ofninn á 120° í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og leyft pavlovunum að standa þar til ofninn er kólnaður.

Hráefni í saltkaramellu

  • 1 dl rjómi
  • 1 dl síróp
  • 1 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • klípa salt

Aðferð

Öll hráefnin eru sett saman í pott og hrært saman í ca 5 mín á meðalhita. Ég hef líka auðveldað mér uppskriftina með því að kaupa tilbúna karamellusósu í t.d. Krónunni.

Síðan er saltkaramellan sett í pavlovurnar og síðan er léttþeyttur rjómi settur ofaná og saxaðar salthnetur. Síðan er gott að raspa súkkulaði yfir en ég gerði það hér, einnig notaði ég afganginn af brædda súkkulaðinu og setti yfir.

Djúsí súkkulaðikaka

Þessi kaka er tilvalin að gera fyrir helgina. Hún er ótrúlega bragðgóð og mjúk.

Hráefni í kökuna

  • 2 bollar sykur
  • 2 bollar hveiti
  • 1 1/4 bolli kakó
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 1/4 tsk kanill
  • 1 bolli mjólk
  • 2 egg
  • 1/2 bolli olía
  • 1 bolli heitt vatn
  • 1 teskeið af instant kaffi
  • 1 1/2 tsk vanilludropar

Aðferð

Byrjað er á að hita ofninn í 175°. Blandað er vel saman þurrefnum í skál. Síðan er eggjunum og mjólkinni bætt við og hrært saman. Síðan er heita vatninu og kaffinu blandað saman og sett í blönduna ásamt olíunni og vanilludropunum. Þessu er öllu hrært saman en passa þarf að hræra ekki of mikið. Ég setti deigið í 2 hringform en hægt er að setja í eitt dýpra eða í skúffu. Bakað í 35-40 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn úr kökunni.

Hráefni í súkkulaðiganache

  • 200 gr af suðusúkkulaði (má vera annað súkkulaði t.d. mjólkur eða hvítt)
  • 1 bolli rjómi

Aðferð

Rjóminn er settur í pott og hitaður á miðlungs hita þar til suðan fer að koma upp. Þá er rjómanum hellt yfir súkkulaðið og látið standa í 2 mín. Síðan er þessu hrært saman þar til súkkulaðið er allt bráðið. Ef blandan er of þunn þá er meira súkkulaði bætt við. Til þess að fá ganache-inn stífari er hann settur í smá stund inn í ísskáp. Þegar kakan er búin að kólna má setja ganache-inn á. Ég setti síðan kókosmjöl yfir en það er bara smekksatriði hvernig og hvort maður vilji skreyta.

Kramdar hvítlaukskartöflur

Ég elska kartöflur og hef þær oftar en ekki sem meðlæti með kvöldmatnum. Mér finnst gaman hvað er hægt að útbúa kartöflur á marga vegu. Þessi uppskrift varð til þegar ég ákvað að prufa bara að nota það sem ég átti til í ísskápnum og var útkoman mjög góð! Oliver sagði “þú verður að setja þetta á bloggið!”

Hráefni

  • Kartöflur
  • Smjör
  • Timían
  • Hvítlauksrif
  • Steinselja
  • Salt og pipar

Byrjað er á að sjóða kartöflurnar þar til þær fara að mýkjast. Síðan er kartöflunum raðað á bökunarplötu og klesstar niður, ég notaði glas. Síðan er smjöri brætt og í það er pressað hvítlauksrif, timían og saxaðri steinselju bætt við. Síðan er blöndunni penslað á kartöflurnar og skellt inn í ofn í 15 mínútur á 200. Síðan er salti og pipar stráð yfir eftir að kartöflurnar eru teknar úr ofninum.