Daimtoppa ís

Í gær átti Beggi frændi minn afmæli en eftir afmælið hans má maður formlega byrja að pæla í jólunum, að hans eigin sögn. Ég fékk hugmynd að jólaís og ákvað að prófa að henda henni í framkvæmd. Þessi uppskrift heppnaðist svona ótrúlega vel og verð ég bara að deila henni strax með ykkur. Oliver var í jólagleði í vinnunni í gærkvöldi og Emma var í næturpössun hjá ömmu sinni. Ég var bara ein heima og Karen vinkona kíkti til mín og ég bauð henni uppá ís. Hún vildi fá uppskriftina þannig mér fannst það nógu góð meðmæli.

  • 3 eggjahvítur
  • 200 gr púðursykur
  • 1 poki daimkurl
  • 500 ml rjómi
  • 1 dós sæt niðursoðin mjólk
  • 2 dl súkkulaðidropar

Byrjað er á því að þeyta saman eggjahvítur og púðursykri, í 20 mínutur eða þar til stífþeytt. Síðan er varlega blandað daimkurli útí með sleif. Topparnir eru settir á bökunarplötu með teskeiðum og bakaðir á 150° í 20 mínútur. Toppunum er leyft að kólna alveg. Rjóminn er léttþeyttur og þá er niðursoðnu mjólkinni hellt útí á meðan hrærivélin er enn í gangi í mjórri bunu. Þegar öll mjólkin er komin saman við þá er slökkt á hrærivélinni og súkkulaðinu er hrært varlega saman við með sleif. Toppunum er svo raðað í bökunarform sem er klætt bökunarpappír og svo er rjómablöndunni hellt yfir og slétt úr. Síðan er ísinn settur í frysti í amk 6 klst. Þá er hægt að bera ísinn fram.

Óskalisti í eldhúsið

Ég elska að lesa óskalista hjá fólki og forvitnast hvað fólki langar í. Það gefur mér líka hugmyndir en mig langar alltaf í svo mikið af fallegum hlutum en um leið og fólk spyr mig þá er ég alveg tóm. Ég er farin að skrifa niður í notes í símanum mínum alltaf þegar ég sé eitthvað sem mig langar í og þá er ég með allt á einum stað. Ég hefði geta haft þessa færslu endalausa en ákvað að stoppa í 5 hlutum (endaði svo í 6).

Þessi fallegi bakki með glerkúpli fæst í Bisou og hann væri fullkominn í boð til þess að bera fram osta til dæmis.

Ég er að safna þessum geggjuðu glösum frá Ferm Living, þau fást líka í Bisou og Epal til dæmis.

Mig langar að byrja að safna í stell og þá helst Royal Copenhagen, mér finnst það svo ótrúlega fallegt. Ég á nokkra bolla og vil fara að bæta hægt og rólega í safnið.

Mig vantar nýja ostahnífa þar sem mínir eru orðnir vel lúnir eftir mikla notkun. Mér finnst þessir mjög flottir, þeir fást í Bisou.

Georg Jensen Bernadotte kökuspaðinn finnst mér trylltur. Hann fæst m.a. í Líf og List.

Síðan hefur mig langað í þennan kampavínskæli í langan tíma, kannski eftir covid þegar maður vonandi heldur fleiri partí mun ég eignast hann. Hann er frá Ferm Living og fæst meðal annars í Epal.

Pestó kjúklingur með mozzarella og tómat

Í dag eftir vinnu kom ég við í Smáralind til þess að kíkja á taxfree, í leiðinni kíkti ég í Sostrene Grene og keypti þar ótrúlega fallegan jólapappír. Ég var því mjög þreytt þegar ég kom loksins heim og var mjög ánægð að ég var búin að ákveða að hafa auðveldan kjúklingarétt í matinn. Ég er búin að vera mjög þreytt síðustu daga þar sem Emma er ekki búin að vera að sofa vel, því var þetta kærkomið að ná að græja kvöldmat sem var mjög auðveldur og bragðgóður. Þessi uppskrift miðast við tvo.

  • 2 kjúklingabringur
  • 1 krukka grænt pestó
  • mozzarella kúla
  • 1 stór tómatur
  • balsamik gljái

Byrjað er á að hita ofninn í 200° blástur. Svo er bringunum skellt í eldfast mót og kryddaðar með salti og pipar. Kjúklingabringurnar eru eldaðar í 10 mínútur og teknar út. Þá er fyrst dreyft yfir pestóinu, síðan sett skífur af mozzarella ostinum yfir og loks tómatasneiðar. Þetta er eldað í 15 mínútur áfram. Þegar bringurnar eru fulleldaðar er balsamik gláanum skellt yfir. Berið fram með hrísgrjónum.

Hvít-súkkulaðibitakökur með karamellu

Nú er ég, eins og flestir kannski hafa tekið eftir, dottin í mega jólagír. Ég elska að framlengja jólunum með því að byrja að skreyta extra snemma, þetta er minn uppáhalds árstími. Ég er að byrja að baka nokkrar sortir til þess að byrja að mynda og svona fyrir bloggið en þær munu líklegast tínast hér inn í desember.

Þessi uppskrift er þó alls ekki svo jólaleg að hún megi ekki koma inn núna. Þessar kökur minna á subway kökurnar, mjúkar og djúsí en með klístraðri miðju. Mæli með að þið prófið þessar um helgina!

  • 360 gr hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 225 gr mjúkt smjör
  • 200 gr sykur
  • 200 gr púðursykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1-2 dl hvítir súkkulaðidropar
  • poki af tögg karamellum

Byrjað er á að sigta hveiti, matarsóda, lyftiduft og salt saman í skál. Smjör, sykur og púðursykur er þeytt saman þar til allt er vel blandað. Eggjum og vanilludropum er svo bætt við og blandað saman. Þurrefnunum er svo hægt og rólega hrært saman við. Ef deigið er mjög blautt er ágætt að bæta við smá hveiti. Síðan er súkkulaðinu blandað saman við. Deiginu er rúllað í kúlur og karamellunum skellt í miðjuna og þrýst ofaní. Kökurnar eru bakaðar við 185° í 8-10 mínútur. Gott er að setja smá sjávarsalt yfir kökurnar þegar þær koma úr ofninum. Leyfið kökunum aðeins að kólna áður en þær eru bornar fram.

Trölladeig

Við Emma vorum veikar heima saman í gær. Heimilið var í rúst eftir að Emma var búin að vera heima í nokkra daga og þar af leiðandi var allt í dóti og drasli. Ég mútaði henni í smá með Peppa Pig og náði að ganga frá aðeins til þess að hafa huggulegt. Síðan horfðum við saman á jólamynd og höfðum kósí. Emma var orðin mjög óróleg eftir mikla inniveru og er öll að hressast og þ.a.l. mikil orka svo mér datt í hug að gera með henni tröllaleir sem sló svo sannarlega í gegn. Ég leyfði henni að brasa með helminginn og gerði svo sjálf jólaskraut úr restinni. Ég notaði piparkökuform sem ég átti og stakk svo gat í gegn efst til þess að geta komið bandi í gegn. Svo ætla ég að nota þetta á jólapakkana í ár. Bandið er úr Ikea en svona jute band fæst á mörgum stöðum.

  • 300 gr borðsalt
  • 6 dl sjóðandi vatn
  • 1 msk olía
  • 300 gr hveiti

Saltið er sett í skál (ég nota hrærivél með hnoðarastykkinu) og sjóðandi vatni helt yfir. Olían er hellt í og svo hveitið og hnoðað vel. Ég notaði hrærivél því deigið er mjög heitt. Ef þið ætlið að gera í höndum mæli ég með að vera í gúmmíhönskum. Þá er deigið tilbúið. Ég hafði deigið mitt mjög þunnt og þurfti að hafa það inni í ofni við 170° (ekki blástur) í um klst en ég mæli með að fylgjast bara með þar sem tíminn fer eftir þykkt á deiginu.

Oreo ostakaka

Þið sem þekkið mig vitið að ég elska ostakökur. Þær uppgötvaði ég svona fyrir alvöru þegar ég fór til Florida á Cheesecake Factory og þá var ekki aftur snúið. Þegar Emma var skírð þá bað ég mömmu um að gera oreo ostakökuna sem mér finnst svo góð. Þar sem covid var nýbyrjað þá ákváðum við að hafa kökuna í litlum plastskálum en ekki einu stóru fati eins og mamma gerir venjulega.

  • 1 pakki Royal vanillubúðingur
  • 1 bolli mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
  • 200 g rjómaostur
  • 1 bolli flórsykur
  • 32 oreo kexkökur (sem eru 2 kassar)

Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ísskáp í 5 mínútur. Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annari skál. Þeytið rjómann. Blandið þessu öllu saman í eina skál. Myljið oreokexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!). Setjið til skiptist í skál oreokex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram. Hægt er að gera kökuna með miklum fyrirvara þar sem hún er sett í frysti.

Lax í sítrónu- og dillsósu

Þessi réttur er einn besti fiskréttur sem ég hef smakkað. Hann er rosalega fljótlegur og auðveldur en ég var í kappi við tíman að gera hann eftir vinnu til þess að ná að mynda í dagsbirtu en það gekk frekar brösulega. Hér er hinsvegar uppskriftin og myndir sem fá að duga.

  • laxaflak
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 3 dl rjómi
  • lúka af fersku dill
  • 1 sítróna
  • 1 fiskiteningur leystur upp við 1/2 dl heitu vatni
  • 1 tsk túrmerik
  • sítrónupipar
  • salt

Byrjað er á því að skera flakið í 4 bita og raða í eldfast mót. Þar næst er teningurinn leystur upp í vatninu og blandað saman við sýrða rjóman, rjóman, dillinu fínsöxuðu, sítrónusafa og sítrónubörk og túrmerik. Síðan er blöndunni hellt yfir fiskinn og salt og sítrónupipar sett yfir. Þetta er síðan eldað á 200° í miðjum ofni í 15-20 mínútur. Setjið sítrónu og dill yfir og berið fram með kartöflum eða hrísgrjónum.

Besta smjörkremið

Í gær var brúðkaup hjá elsku mömmu og Hemma. Dagurinn var alveg yndislegur og veðrið ótrúlega fallegt. Athöfnin fór fram í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ og veislan var á Vinnustofu Kjarval.

Ég fékk þann heiður að vera beðin um að baka. Við mamma ákváðum í sameiningu að best væri að vera með bollakökur þar sem þær voru bæði covid vænar og svo var fingramatur í veislunni þannig það voru engir diskar. Ég ákvað að gera hvítt smjörkrem og gera rósir á kökurnar. Ég ákvað því að deila hér uppskriftinni sem mér finnst virka best þegar ég er að skreyta kökur.

  • 500 gr silfrað smjör
  • 3 msk rjómi
  • 1 msk vanilludropar
  • 500 gr flórsykur

Byrjað er á að þeyta smjörið á miklum hraða þar til það er orðið mjög ljóst, nánast hvítt. Þetta getur tekið smá tíma og mikilvægt er að skrapa hliðarnar til þess að allt smjörið verði ljóst. Þegar smjörið er tilbúið þá er rjómanum og vanilludropunum hrært saman við. Að lokum er flórsykrinum hrært saman við, hellt smá út í einu og hrært vel. Ef kremið verður of þykkt er bætt smá rjóma útí. Þegar allt er blandað vel saman er kremið tilbúið. Það er hægt að setja matarlit útí ef maður vill það á þessu stigi og passa að hræra það vel saman við. Leynitrixið við að fá mjúkt og gott smjörkrem lærði ég fyrir ekki svo löngu. Það er að taka sleif og ýta smjörinu upp í hliðarnar á skálinni og velta kreminu um með sleifinni til þess að ná öllu lofti úr því og þá sleppir maður alveg við leiðinlegar loftbólur í kreminu. Í rósirnar notaði ég 2D frá Wilton á sprautupoka, aðferðina er hægt að finna á youtube.

Penne Vodka

Þessi pastaréttur varð fljótt einn af mínum uppáhalds. Hann er einfaldari en manni grunar og svo ótrúlega bragðgóður. Vodkað sér til þess að gera tómatana sætari og er sósan því alveg guðdómleg með pastanu. Vodkað er soðið niður svo það er alveg óhætt að gefa börnum þennan rétt, það er ekkert vodka bragð.

  • 500 gr penne pasta
  • 300 gr pancetta (fæst í costco)
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 dósir af niðursoðnum tómötum
  • 2-3 dl rjómi
  • ólífuolía
  • parmesan
  • 2 msk smjör
  • steinselja
  • 10-15 cl vodka
  • salt
  • chiliflögur

Byrjar er á því að skera pancetta í litla strimla. Síðan er olía sett í pönnu og pancetta strimlarnir steiktir á háum hita í nokkrar mínútur. Þegar kominn er góður litur á kjötið þá er söxuðum hvítlauksrifum bætt út á pönnuna. Vodka er síðan hellt út á pönnuna (ef þið eruð með gashellu slökkvið þá undir á meðan þið hellið!) og leyft að sjóða niður. Síðan er tómötunum hellt í skál og þeir maukaðir (annað hvort með höndunum eða með gaffli td) og síðan hellt út í pönnuna. Að mauka tómatana svona styttir eldunartíman töluvert. Þessu er leyft að malla þar til hægt er að draga sleif þvert yfir pönnuna og sósan rennur ekki tilbaka. Síðan er rjómanum bætt út á, það er bara eftir smekk hversu mikið er notað af honum. Svo er chiliflögum bætt út á og sósunni leyft að malla, smakkið sósuna til hvort þið viljið salta.

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum en takið tvær mínútur af eldunartíma, pastað mun klára að eldast í sósunni undir lokin. Mikilvægt er að salta vatnið mjög vel þegar byrjar að sjóða, alveg heil lúka af salti. Þegar pastað er klárt þá er tekið til hliðar smá af pastavatninu en það er fullt af sterkju og salti sem gerir pastað ótrúlega gott. Pastanu er svo blandað við sósuna og smá af pastavatninu. Þegar allt er blandað vel saman er smjöri hrært saman við, en það gerir ótrúlega mikið fyrir réttinn. Síðan er þetta borið fram með parmesan og steinselju.

Oreo súkkulaðimús

Í minni fjölskyldu er súkkulaðimús algjört go-to þegar kemur að eftirréttum. Gunnar bróðir minn dýrkar súkkulaðimús og mamma getur gert hana nánast blindandi. Ég elska súkkulaðimús og hvað er hægt að leika sér mikið með þær, t.d. skreyta með berjum, hafa marengstoppa með eða bara hvað sem er. Í þetta skiptið ákvað ég að setja smá oreo tvist á súkkulaðimúsina, en ef þið sleppið oreo-inu þá eru þið komin með klassísku súkkulaðimúsina.

  • 2.5 dl rjómi
  • 100 gr súkkulaði
  • 2 eggjarauður
  • 2 pakkar oreo

Ég byrjaði á að mylja oreo kökurnar fínt í blandara, mér finnst gott að hafa extra kröns í þessari uppskrift svo ég myl nokkrar kökur gróft og set í botninn á glösunum en það má sleppa. Síðan er súkkulaðið brætt og leyft aðeins að kólna áður en eggjarauðunum er blandað saman við, ef blandan verður of þykk er hellt smá rjóma saman við. Síðan er rjóminn léttþeyttur og súkkulaðiblöndunni blandað saman við rjóman varlega. Síðan hellti ég oreo mylsnunni saman við. Þessu er síðan skellt ofaní glösin og sett inn í ísskáp til þess að stífna. Ég skreytti svo með oreo kexi (tók nokkur til hliðar í byrjun) en það má leika sér með það.