Þið sem þekkið mig vitið að ég elska ostakökur. Þær uppgötvaði ég svona fyrir alvöru þegar ég fór til Florida á Cheesecake Factory og þá var ekki aftur snúið. Þegar Emma var skírð þá bað ég mömmu um að gera oreo ostakökuna sem mér finnst svo góð. Þar sem covid var nýbyrjað þá ákváðum við að hafa kökuna í litlum plastskálum en ekki einu stóru fati eins og mamma gerir venjulega.

- 1 pakki Royal vanillubúðingur
- 1 bolli mjólk
- 1 tsk vanilludropar
- 1 peli rjómi (2,5 dl.)
- 200 g rjómaostur
- 1 bolli flórsykur
- 32 oreo kexkökur (sem eru 2 kassar)
Þeytið saman búðingsduftið, mjólkina og vanilludropana og setjið í ísskáp í 5 mínútur. Hrærið saman flórsykri og rjómaosti í annari skál. Þeytið rjómann. Blandið þessu öllu saman í eina skál. Myljið oreokexið (í matvinnsluvél eða með frjálsri aðferð!). Setjið til skiptist í skál oreokex og ostakökublönduna, endið á kexinu. Geymið í frysti og takið út 1,5 klst. áður en kakan er borin fram. Hægt er að gera kökuna með miklum fyrirvara þar sem hún er sett í frysti.