Saffransnúðar

Þessir snúðar eru mínir uppáhalds, þeir minna mig alltaf á Svíþjóð. Saffran kryddið er mikið notað í Svíþjóð og þar er hefð að borða lussekatter og saffransnúða yfir jólin, bakkelsi sem inniheldur saffran. Mamma gerði þessa alltaf fyrir jólin þegar ég var yngri og ég hef tekið við núna. Ég á eftir að baka þessa í ár og finnst mér mjög skrýtið að eiga þá ekki til í frysti til að hita upp. Ég ætla að græja þá um helgina, þá fara jólin að koma.

Saffransnúðar með marsípani

Snúðar

  • 300 g smjör
  • 1 líter mjólk
  • 2 pokar þurrger
  • 2 dl sykur
  • 1 tsk salt
  • 2,2-2,5 lítrar hveiti (ég mæli það aldrei heldur nota bara eins mikið og mér þykir þurfa)
  • 1 g saffran

Fylling

  • brætt smjör
  • rifið marsípan
  • kanilsykur
  • vanillusykur (má sleppa)

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið blönduna í 37°.

Setjið gerið í skál og hellið mjólkurblöndunni yfir. Bætið saffran saman við og hrærið aðeins í blöndunni. Bætið sykri og salti saman við.

Hellið hveitinu í lítramál beint úr pokanum (þessu hef ég alltaf sleppt) og bætið saman við mjólkurblönduna. Farið varlega af stað með hveitið og ekki setja allt í einu. Vinnið deigið vel saman og hafið það eins blautt og þið komist upp með til að snúðarnir verði ekki þurrir.

Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur (ég læt það oft hefast aðeins lengur). Hnoðið deigið þá á hveitistráðu borði. Skiptið deiginu í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út í aflanga köku.

Smyrjið bræddu smjöri yfir deigið, stráið kanilsykri síðan yfir smjörið, þar næst rifnu marsípani og að lokum smá vanillusykri. Rúllið deiginu upp í rúllu, skerið í sneiðar og setjið í stór muffinsform.

Látið snúðana hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá.

Bakið við 250° í 5-8 mínútur.

Saffransnúðar með marsípani

Lindor súkkulaðimús

Eftir mikla inniveru, liggjandi uppi í sófa, þá er ég búin að horfa mjög mikið á Netflix. Ég datt niður á seríu sem kom út 2019 sem ég átti eftir að horfa á. Þessi sería heitir „Hjem til jul“ og eru komnar út tvær seríur af þeim. Þetta eru alveg ótrúlega sætir norskir jólaþættir sem ég mæli heilshugar með. Það var frekar fyndið að daginn eftir að ég kláraði þá, sendi Hanna vinkona mín mér að ég yrði að horfa á þætti sem hún væri að horfa á, þá voru það sömu þættir. Þannig við Hanna vinkona getum að minnsta kosti mælt með þeim!

hjem til jul | Explore Tumblr Posts and Blogs | Tumgir

Uppáhalds „jólanammið“ mitt eru án efa rauðar Lindor súkkulaðikúlur. Ég er með á eldhúseyjunni minni nokkrar í skál sem skraut, en skrautið endist yfirleitt ekki lengi. Ég ákvað að prófa að gera súkkulaðimús úr þessu súkkulaði og það kom svo svakalega vel út. Uppskriftin er fyrir fjóra.

  • 250 ml rjómi
  • 8 Lindor-kúlur
  • 2 eggjarauður

Byrjað er á að bræða kúlurnar yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Rjóminn er léttþeyttur á meðan súkkulaðið fær aðeins að kólna. Þegar súkkulaðið er ekki lengur brennandi heitt þá er eggjarauðunum hrært saman við. Ef blandan verður kekkjótt eða mjög þykk þá er smá rjóma bætt út í. Súkkulaðiblöndunni er svo varlega hrært saman við léttþeyttan rjómann með sleif. Súkkulaðimúsin er þá sett inn í ísskáp og leyft að stífna. Ég setti músina svo í sprautupoka með stút og sprautaði í falleg glös.

Hnetusmjörsnúðlur

Í gær fórum við Oliver á Tapasbarinn sem var ótrúlega notalegt. Við fengum mjög góðan mat og vorum mjög ánægð með alla upplifunina. Eftir matinn sló mér mikið niður og ég fór í dag á Læknavaktina. Þar kom í ljós að ég er með ennis- og kinnholubólgu og líka eyrnabólgu. Ég er nú komin á sýklalyf svo ég vona að ég hressist fljótt, þetta er orðið svolítið þreytt, þessi endalausu veikindi hér á bæ.

Oliver eldaði fyrir okkur í kvöld, ég er búin að suða í honum að elda þennan rétt í smá tíma. Hann hefur gert hann nokkrum sinnum áður og hann er svo góður að ég get ekki hætt þegar ég byrja. Þessi réttur er mjög fljótlegur en hann tekur um 20 mínútur að útbúa. Einnig skemmir ekki fyrir að rétturinn er grænmetis, gott fyrir mikið kjötát seinna í mánuðinum.

  • 1 pakki hreinar núðlur
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 120 ml hnetusmjör
  • 60 ml soja sósa
  • 60 ml vatn
  • 2 msk hunang
  • 1 sítróna
  • salt og pipar
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika
  • 1 gul paprika
  • 1 rauðlaukur
  • brokkolíhaus

Blandið saman hvítlauk, hnetusmjöri, soja sósu, vatni, hunangi og safa úr sítrónu. Kryddið með salti og pipar eftir smekk. Hitið undir pönnu á miðlungshita og bætið olíu útá. Steikið paprikurnar, rauðlaukinn og brokkolíið í um 10 mínútur. Eldið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu og blandið þeim saman við sósuna og grænmetið í pönnunni.

Piparkökuostakaka með appelsínukeim

Í morgun komu mamma og Hemmi heim frá Florida eftir að hafa verið úti í 3 vikur. Það fannst mér persónulega vera alltof langur tími og var mjög glöð að fá þau aftur heim. Ég var svo heppin að græða matreiðslubók frá bandarískum matarbloggara sem ég fylgist með á Instagram, er spennt að prófa að elda uppúr henni. Við Oliver ætlum á deit í kvöld en hann er í 2 vikna pásu núna í skólanum þannig við ætlum að skella okkur á Tapasbarinn.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af köku sem mér finnst mjög góð. Hún er þokkalega auðveld í gerð og finnst mér appelsínan gefa kökunni mikinn ferskleika sem mér finnst svolítið vanta oft í jólauppskriftum.

  • 30 stk piparkökur
  • 75 gr smjör

Byrjað er á að mylja piparkökurnar í matvinnsluvél. Síðan er smjörið brætt og blandað saman við piparkökumylsnuna. Blöndunni er svo þrýst niður í bökuform sem er vel smurt. Þetta er bakað í miðjum ofni í 5 mínútur á 175°.

  • 250 gr kotasæla
  • 300 gr rjómaostur
  • 1 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 appelsína

Byrjað er á að hræra saman rjómaostinn og kotasæluna vel áður en þurrefnunum er bætt útí. Síðan er rifinn börkurinn af appelsínunni út í blönduna og hrært saman. Þessu er síðan hellt ofan í piparkökubotninn og bakað í ofni á 175° í 25-30 mínútur. Kakan er svo kæld í amk klukkutíma áður en hún er borin fram

Heitt súkkulaði

Í dag sóttum við Emmu á snjóþotu í leikskólan sem henni fannst svakalega mikið stuð. Við komum við í nokkrum brekkum á leiðinni heim og við ætluðum aldrei að ná henni inn. Þegar við komum inn í hlýjuna fannst mér fullkomið að gera heitt súkkulaði fyrir mannskapinn. Það er svo notalegt eftir útiveru.

  • 1 líter nýmjólk
  • 3 plötur af suðusúkkulaði (300 gr)
  • 1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)
  • þeyttur rjómi
  • súkkulaðispænir og/eða sykurpúðar

Brjótið súkkulaðið í pott og bætið smá vatni útá. Hrærið í þangað til súkkulaðið er bráðnað og bætið þá mjólkinni í. Hrærið vel saman og leyfið að hitna. Bætið vanilludropunum útí og slökkvið undir. Hellið í bolla og setjið þeyttan rjóma ofaná ásamt spænunum/sykurpúðunum.

Lakkrístoppar

Ég elska lakkrístoppa, bæði eru þeir bragðgóðir en svo er líka svo fljótlegt og einfalt að skella í þá. Ég passa mig bara að þeyta þá alltaf lengi því þar finnst mér vandinn oft liggja í lakkrístoppum sem heppnast illa, að þeir eru of lítið þeyttir. Ég leik mér mikið með þessa uppskrift allan desember, skipti út kurlinu í t.d. karamellukurl, trompkurl, piparkurl o.s.frv. Í uppskriftinni minni af Daimtoppaís þá notaði ég eins og nafnið gefur til kynna Daimkurl og kom það rosalega vel út í toppunum að mínu mati.

  • 3 eggjahvítur
  • 200 gr púðursykur
  • 1 poki lakkrískurl
  • 1 poki súkkulaðidropar

Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Þeytið vel og lengi til að fá marensinn mjúkan og seigan. Blandið lakkrískurli og súkkulaði varlega saman við með sleif. Mótið toppa með tveim teskeiðum og bakið við 140° í 20 mínútur.

Piparkökuterta með hvítsúkkulaðikremi

Í dag er fyrsti desember og ég er varla að trúa því. Allt í einu er svo svakalega stutt í jólin, ég er samt búin að vera með skreytingarnar uppi í ca 6 vikur. Ég var búin að hugsa mikið hvað ég ætti að gera á blogginu á mínum uppáhalds árstíma og ákvað að setja inn færslu á hverjum degi fram að jólum. Það er spurning hvernig það fer en ég ætla að láta á það reyna.

Ég er búin að græja allar jólagjafirnar, ég held ég hafi aldrei verið jafn snemma í því, ég er yfirleitt að vandræðast með amk eina gjöf á þorláksmessu. Ég er meira að segja búin að pakka öllum gjöfunum inn þannig allt svoleiðis stress er frá. Ég keypti rosalega fallega merkimiða frá By Goja á instagram og átti fallegar grænar greinar af plöntu sem Hanna vinkona mín gaf mér. Plantan dó því miður í einu óveðrinu út á svölum en ég ákvað að nota greinarnar af henni á pakkana. Ég valdi því að hafa þetta tvennt í aðalhlutverki og hafði pappírinn sjálfan og borðan svartan. Mér fannst útkoman vera mjög falleg.

Þessi kaka er ótrúlega góð, kryddin í henni minna mann á jólin og lyktin sem kemur þegar kakan er í ofninum er guðdómleg. Mæli með að prófa að gera þessa köku fyrir næsta aðventukaffi.

Botnar

  • 170 gr smjör
  • 125 ml rjómi
  • 200 ml mjólk
  • 2 egg
  • 140 gr púðursykur
  • 125 gr síróp
  • 370 gr hveiti
  • 1 ½ tsk matarsódi
  • 2 tsk engifer
  • 2 tsk kanill
  • 1 ½ tsk negull
  • 1 tsk kardimomma
  • smá salt

Byrjað er á að kveikja á ofninum á 160° blástur. Bræðið smjör í potti á lágum hita og bætið svo rjóma og mjólk við og leyfið að hitna aðeins, alls ekki sjóða. Slökkvið undir þegar blandan er orðin volg. Hrærið eggjum og sykri saman í um 3 mínútur. Bætið sírópi svo út í eggjablönduna. Sigtið saman í skál þurrefnin og skiptist á að hræra smá af hveitiblöndunni og smjörblöndunni til skiptis í eggjablönduna. Þegar öll hráefnin eru blönduð vel saman þá er henni skipt í tvö smurð form og bökuð í um 40 mínútur. 

Krem

  • 3 eggjahvítur
  • 135 gr sykur
  • 120 gr smjör
  • 100 gr hvítt súkkulaði

Byrjað er á því að setja eggjahvítur og sykur saman í skál. Síðan er skálinn sett yfir vatnsbað og blandað rólega saman þar til sykurinn er bráðnaður. Þá er skálinn tekin úr vatnsbaði og leyft að kólna í nokkrar mínútur. Síðan er blandan þeytt þar til blandan er orðin vel stíf og hvít. Þá er mjúku smjörinu bætt við lítið í einu út í og hrært vel. Súkkulaðið er brætt og leyft að kólna aðeins áður en því er hellt út í í mjórri bunu á meðan hrærivélin er enn í gangi. Þá er kremið tilbúið og er smurt á milli laga af kökunni og svo yfir alla kökuna.

Salthnetu-ostakaka

Helgin hjá okkur var mjög skrautleg. Við keyptum okkur nýlega nýjar hurðir á alla íbúðina okkar og það var smiður að setja þær upp síðustu daga. Við þurftum því að vera hjá tengdó á meðan svo Emma færi ekki í allt dótið og draslið sem fylgdi. Við Emma duttum akkúrat í flensu og Oliver var í allskonar skilum í skólanum, þannig það var ástand. Nú er hinsvegar heimilið komið í stand og við getum flutt heim aftur. Við erum í skýjunum með útkomuna á hurðunum en þetta gjörbreytir allri íbúðinni. Fyrir voru eikarhurðir sem voru orðnar mjög appelsínugular og lúnar.

Þeir sem þekkja mig vita að ég elska hnetusmjör og þeir sem eru á þeirri lest eins og ég munu elska þessa köku. Hún er reyndar blanda af tvennu uppáhalds hjá mér, ostakökum og hnetusmjöri, algjört lostæti! Mæli með þessari.

Botn

  • 24 stk oreokex
  • 50 gr smjör

Myljið kexið í matvinnsluvél eða blandara. Bræðið smjörið og blandið saman við mylsnuna. Þrýstið blöndunni í botn á formi (best er að formið sé með lausan botn).

Fylling

  • 3 dl rjómi
  • 600 dl rjómaostur
  • 2 dl hnetusmjör
  • 2 dl flórsykur
  • 1 msk vanillusykur

Byrjað er að þeyta saman rjóma og rjómaost þar til blandan er orðin smá þykk eða eins og léttþeyttur rjómi. Þá er hnetusmjörinu bætt útí en hraðinn lækkaður á hrærivélinni á meðan. Þegar allt er vel blandað saman er flórsykri og vanillysykri bætt útí og hrært saman við með sleif. Blöndunni er síðan hellt yfir botninn og látin standa í ísskáp í amk 4 klst.

Toppur

  • 200 gr mjólkursúkkulaði
  • 0.5 dl rjómi
  • salthnetur eftir smekk

Rjóminn er hitaður upp að suðu og þá er honum hellt yfir súkkulaðið og blandað saman þar til súkkulaðið er bráðið. Bætið rjóma við ef þarf. Hellið blöndunni yfir fyllinguna og setjið salthnetur yfir.

Rocky Road

Í gær kom út Kökublað Vikunnar, sem er stútfullt af jólalegum uppskriftum af allskonar góðgæti. Ég var svo heppin að fá að vera með í því með eina opnu. Það var ótrúlega skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég elska jólin.

Ég ætla að deila með ykkur einni af þrem uppskrifum sem ég gef í blaðinu en það er eitt uppáhalds jólanammið mitt, Rocky Road. Það er ótrúlega auðvelt í gerð og það bara er ekki hægt að klúðra því.

  • 600 g dökkt súkkulaði (veljið það súkkulaði sem ykkur þykir gott)
  • 2 pokar Dumle karamellur (skornar í tvennt)
  • 2 lófafylli litlir sykurpúðar (ef það eru notaðir stórir þá eru þeir klipptir niður)
  • 140 g salthnetur
  • 70 g pistasíukjarnar

Skerið Dumle karamellurnar í tvennt og setjið í skál ásamt sykurpúðum og salthnetum. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið aðeins. Bætið súkkulaðinu í skálina og blandið öllu vel saman.

Setjið smjörpappír í skúffukökumót og hellið blöndunni yfir. Dreifið úr henni þannig að hún verði um 3 sm þykk. Stráið pistasíukjörnum yfir og látið kólna. Skerið í bita og njótið.

Sörur

Sörur eru mínar lang uppáhalds jólasmákökur. Þar sem þær eru svolítið flóknar eða kannski heldur tímafrekar þá fannst mér sniðugt að setja uppskriftina frekar snemma inn en það er svo gott að eiga nóg í frysti og geta notið yfir aðventuna. Þessi færsla er búin að vera tilbúin síðan í sumar en Kristofer, bróðir Olivers, útskrifaðist úr MK í vor. Hann vildi hafa kökuboð og var ég beðin um að gera sörur. Það var blátt þema í veislunni og gerði ég því bláa útfærslu af sörunum. Uppskriftin gefur ca 70 sörur, mér finnst langbest að borða þær kaldar og geymi alltaf í frysti.

Botnar

  • 200 g möndlur
  • 180 g flórsykur
  • 3 eggjahvítur
  • salt á hnífsoddi

Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Gott er að nota mottu sem fæst t.d. í Allt í köku og Hagkaup sem er fyrir makkarónur. Bakið í ca 12 mínútur.

Krem

  • 5-6 msk sýróp
  • 6 eggjarauður
  • 300 g smjör
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk kaffiduft (mulið í morteli)

Velgið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kantana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.

Hjúpur

  • 400 gr suðusúkkulaði

Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.