Í dag er fyrsti desember og ég er varla að trúa því. Allt í einu er svo svakalega stutt í jólin, ég er samt búin að vera með skreytingarnar uppi í ca 6 vikur. Ég var búin að hugsa mikið hvað ég ætti að gera á blogginu á mínum uppáhalds árstíma og ákvað að setja inn færslu á hverjum degi fram að jólum. Það er spurning hvernig það fer en ég ætla að láta á það reyna.

Ég er búin að græja allar jólagjafirnar, ég held ég hafi aldrei verið jafn snemma í því, ég er yfirleitt að vandræðast með amk eina gjöf á þorláksmessu. Ég er meira að segja búin að pakka öllum gjöfunum inn þannig allt svoleiðis stress er frá. Ég keypti rosalega fallega merkimiða frá By Goja á instagram og átti fallegar grænar greinar af plöntu sem Hanna vinkona mín gaf mér. Plantan dó því miður í einu óveðrinu út á svölum en ég ákvað að nota greinarnar af henni á pakkana. Ég valdi því að hafa þetta tvennt í aðalhlutverki og hafði pappírinn sjálfan og borðan svartan. Mér fannst útkoman vera mjög falleg.

Þessi kaka er ótrúlega góð, kryddin í henni minna mann á jólin og lyktin sem kemur þegar kakan er í ofninum er guðdómleg. Mæli með að prófa að gera þessa köku fyrir næsta aðventukaffi.
Botnar
- 170 gr smjör
- 125 ml rjómi
- 200 ml mjólk
- 2 egg
- 140 gr púðursykur
- 125 gr síróp
- 370 gr hveiti
- 1 ½ tsk matarsódi
- 2 tsk engifer
- 2 tsk kanill
- 1 ½ tsk negull
- 1 tsk kardimomma
- smá salt
Byrjað er á að kveikja á ofninum á 160° blástur. Bræðið smjör í potti á lágum hita og bætið svo rjóma og mjólk við og leyfið að hitna aðeins, alls ekki sjóða. Slökkvið undir þegar blandan er orðin volg. Hrærið eggjum og sykri saman í um 3 mínútur. Bætið sírópi svo út í eggjablönduna. Sigtið saman í skál þurrefnin og skiptist á að hræra smá af hveitiblöndunni og smjörblöndunni til skiptis í eggjablönduna. Þegar öll hráefnin eru blönduð vel saman þá er henni skipt í tvö smurð form og bökuð í um 40 mínútur.

Krem
- 3 eggjahvítur
- 135 gr sykur
- 120 gr smjör
- 100 gr hvítt súkkulaði
Byrjað er á því að setja eggjahvítur og sykur saman í skál. Síðan er skálinn sett yfir vatnsbað og blandað rólega saman þar til sykurinn er bráðnaður. Þá er skálinn tekin úr vatnsbaði og leyft að kólna í nokkrar mínútur. Síðan er blandan þeytt þar til blandan er orðin vel stíf og hvít. Þá er mjúku smjörinu bætt við lítið í einu út í og hrært vel. Súkkulaðið er brætt og leyft að kólna aðeins áður en því er hellt út í í mjórri bunu á meðan hrærivélin er enn í gangi. Þá er kremið tilbúið og er smurt á milli laga af kökunni og svo yfir alla kökuna.