Ég elska lakkrístoppa, bæði eru þeir bragðgóðir en svo er líka svo fljótlegt og einfalt að skella í þá. Ég passa mig bara að þeyta þá alltaf lengi því þar finnst mér vandinn oft liggja í lakkrístoppum sem heppnast illa, að þeir eru of lítið þeyttir. Ég leik mér mikið með þessa uppskrift allan desember, skipti út kurlinu í t.d. karamellukurl, trompkurl, piparkurl o.s.frv. Í uppskriftinni minni af Daimtoppaís þá notaði ég eins og nafnið gefur til kynna Daimkurl og kom það rosalega vel út í toppunum að mínu mati.

- 3 eggjahvítur
- 200 gr púðursykur
- 1 poki lakkrískurl
- 1 poki súkkulaðidropar
Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Þeytið vel og lengi til að fá marensinn mjúkan og seigan. Blandið lakkrískurli og súkkulaði varlega saman við með sleif. Mótið toppa með tveim teskeiðum og bakið við 140° í 20 mínútur.