Banana möffins

Í gærkvöldi fengum við skilaboð frá leikskólanum hennar Emmu að deildinni hennar yrði lokað daginn eftir, með rosalega litlum fyrirvara. Heba frænka mín sem býr í Danmörku er á landinu og gat bjargað okkur með að passa Emmu. Það var ótrúlega leiðinlegt veður eins og ég held að flestir hafi tekið eftir sem eru staddir á Íslandi. Heba ákvað að leyfa Emmu að baka með sér og hún var svo ánægð og montin með afraksturinn. Hún hámaði í sig fjórar möffins og gaf þeim háa einkunn. Ég spurði Hebu hvaða uppskrift hún hefði notað og hún notaði bananabrauðs uppskrift frá mömmu sem ég hef aldrei áður deilt hér nema hún setti bláber líka með, sem kom ótrúlega vel út. Síðan bakaði hún þær styttra en brauðið. En ef þið sleppið bláberjunum og bakið í 45 mínútur þá er þetta venjulegt, en mjög gott bananabrauð.

  • 2 stórir þroskaðir bananar
  • 50 gr smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 dl mjólk
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill
  • Bláber eftir smekk

Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel.  Bætið smjöri og stöppuðum banönum og mjólk í deigið og blandið vel.  Setjið botnfylli í hvert möffinsform og bakið í 20-25 mínútur.

Butter chicken

Í dag er bóndadagurinn. Á bóndadeginum fyrir tveimur árum síðan fæddist Emma, 9 dögum eftir settan dag. Ég hugsa að ég muni aldrei geta toppað þessa bóndadagsgjöf mína til Olivers. Við erum að fara í afmæli í kvöld til Hemma, mannsins hennar mömmu, en hann varð sextugur í gær. Það átti að vera svaka veisla í kvöld en útaf fjöldatakmörkunum þurfti að fresta henni og verður minni veisla í kvöld. Þess vegna ákváðum við að halda upp á bóndadaginn í gær. Oliver fékk að ákveða mat og ég eldaði á meðan hann svæfði. Við áttum ótrúlega notalegt heimadeit, við borðuðum seint og horfðum svo á þætti. Oliver valdi butter chicken og naan brauð, það er svo gott.

  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 1 gulur laukur saxaður
  • pakki af kjúklingabringum
  • 3-4 hvítlauksrif (pressuð eða fínsöxuð)
  • 1 tsk engifer (rifinn)
  • 4 msk tómatpúrra
  • 1 msk garam masala
  • 1 tsk cayenne pipar eða paprikukrydd, eftir hversu sterkt þið viljið
  • 1 tsk fenugreek eða sinnepsfræ (má sleppa)
  • 1 tsk kúmín
  • 1 tsk salt
  • smá pipar
  • 2x hrein jógúrt (ein er 180 gr)

Byrjað er á að hita pönnu á miðlungshita og skella í olíunni og smjörinu. Þegar smjörið hefur bráðnað þá er lauknum bætt í pönnuna og steikt í nokkrar mínútur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hvítlauksrifunum og engifernum bætt við og hrært saman við laukinn. Setjið kjúklinginn út á pönnuna ásamt kryddunum og tómatpúrrunni og hrærið öllu saman. Eldið kjúklinginn alveg í gegn og bætið þá jógúrtinni saman við. Leyfið að malla í 8-10 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum og naan brauði. Ég nota alltaf þessa uppskrift frá Eldhússögur af naan brauði.

Janúar óskalisti

Ég elska að skoða óskalista hjá fólki og ég elska að hnýsast hvað fólk kaupir sér. Ég og Sigþóra vinkona mín erum með reglu að ef við kaupum okkur eitthvað þá verðum við að senda hvor annarri hvað við keyptum. Ég er alltaf með eitthvað á óskalistanum mínum og bætist frekar á hann en fer af honum. Ég er þó ekki að kaupa mér allt, engar áhyggjur. Mér finnst mjög skemmtilegt að horfa á þætti á kvöldin og skoða mér á meðan eitthvað í tölvunni, window shoppa á netinu mætti segja.

Ljós úr Norr11 – Ég sá þetta ljós hjá stelpu sem ég fylgi á Instagram sem heitir „asdisgudmunds“. Hún á ótrúlega fallegt heimili og er hún með þetta ljós yfir eyjunni sinni, það er truflað flott og nú langar mig að herma.

Ferm Living ripple glös– Mig langar í þessi lágu glös í stíl við karöfluna mína. Ég á háu glösin en langar að eiga lágu líka.
Lounge lok með röri
Bink brúsi – Ég er búin að sjá þennan brúsa út um allt á Instagram og eðlilega verð ég að eignast hann líka. Ég er brúsasjúk og elska að drekka vatn, það liggur bara fyrir að ég þurfi þennan.
Byredo ilmkerti – Ilmkerti sem ég myndi aldrei í lífinu tíma að kveikja á. Það er bara svo ógeðslega flott, svo er reyndar mjög góð lykt af því líka, sem er samt bara aukaatriði!
Happy fluffy cloud sæng – Ég sá þessar sængur og ég held ég verði bara að eignast þær. Sængurnar sem við erum með núna eru að verða frekar lúnar og langar mig að fjárfesta í þessum. Ég held þær séu alveg ótrúlega notalegar.
Ganni City Boot - Rain boots | Boozt.com
Rain boots frá Ganni – Mig er búið að langa í þessa svo lengi. Þeir eru bæði sjúklega flottir, finnst liturinn svo trylltur, væri góð tilbreyting frá svörtu og svo eru þeir líka mjög praktískir, sérstaklega úti að leika í slabbinu með Emmu.
Andrea húfa – Ég er búin að bíða eftir að þessi komi aftur, hún er búin að vera uppseld heillengi. Ég sé núna að hún er komin aftur, ég verð að panta mér hana. Ég á enga húfu og er alltaf með einhverja ljóta slitna sem Oliver á þegar ég fer út með Emmu að leika, það gengur ekki!

Rigatoni Bolognese

Rigatoni er eitt uppáhalds pastað mitt. Það er mjög vinsælt á suður Ítalíu og heitið er komið frá röndunum sem liggja eftir pastanu sem lætur sósu og ost festast betur við það, annað en slétt pasta gerir. Mér finnst þessi réttur ótrúlega klassískur og er aðeins fínni útgáfa finnst mér af hakk og spagettí. Það er gaman að bera þennan rétt fram því hann er ekki svona týpískur heimilisréttur hér á Íslandi og hann er mjög auðveldur að útbúa. Mér finnst lykillinn að góðri hakksósu vera að leyfa henni að malla lengi við vægan hita. Ég var í heila klukkustund að dunda mér þetta kvöld við að gera hakksósuna. Ég eldaði heima hjá tengdó og náði að smella nokkrum myndum, ég notaði flassið á tveimur símum á heimilinu til þess að birta upp, það verður að fá að duga. Skammdeigið hefur ekki góð áhrif á matarmyndir því miður en ég er sem betur fer með stúdíóljós heima.

  • olía
  • 4 hvítlauksrif
  • hálf paprika
  • 4 sveppir
  • 500 gr nautahakk
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 dl rjómi
  • 1 nautateningur
  • klípa af smjöri
  • 1 pakki rigatoni pasta

Byrjað er á að hita olíu á pönnu. Pressið hvítlaukinn í olíuna og leyfið aðeins að malla saman. Síðan er paprikunni og sveppunum bætt útá pönnuna og hakkinu. Þegar hakkið er alveg brúnað er tómötunum og púrrunni hellt út á pönnuna og hrært saman við. Þessu er leyft að malla aðeins áður en rjómanum er bætt útá og nautateningnum mulið út í. Ég kryddaði hakkið með salt og pipar. Byrjið að sjóða pastað samkvæmt leiðbeiningum í mjög söltuðu vatni (lúka af salti út í pottinn). Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá en um 1 dl af vatninu er hellt í hakkblönduna. Hendið klípu af smjöri í pastað og hrærið við. Svo er hakkblöndunni hellt yfir pastað og blandað saman við. Ég bar pastað fram með hvítlauksbrauði.

Ólífu- og feta ídýfa

Í dag héldum við litla afmælisveislu fyrir Emmu. Við vorum búin að gera ráð fyrir lítilli veislu vegna covid, með tólf manns en svo þurfu tveir að afboða sig og þá vorum við akkúrat 10 eins og var síðan lækkað töluna í. Afmælisveisluhöldin héldu því plani.

Ég bauð uppá afmælisköku sem var súkkulaðikaka sem Eva Laufey er með uppskrift að í Instagram highlights hjá sér og notaði smjörkrem. Ég keypti Skoppu og Skrítlu marsipan mynd hjá Okkar Bakarí og setti hana á. Mamma kom með prinsessutertu. Síðan bakaði ég brauð og bar fram með því ólífu- og feta ídýfu. Hún var ótrúlega góð og einföld.

  • Svartar og grænar ólífur
  • Fetakubbur
  • Hálf dolla af rjómaosti
  • 2 msk vatn (meira eða minna eftir smekk, hefur áhrif á áferðina)
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk hunang
  • smá sítrónubörkur

Byrjað er á að mylja niður fetakubb í matvinnsluvél og bæta saman við rjómaostinum, olíunni og vatninu. Þegar allt er vel blandað saman er hunangi og sítrónuberki hrært saman við. Hitið ofninn í 200° og setjið ólífurnar í eldfast mót. Hellið olíu yfir ólífurnar, kryddið með salt og pipar og setjið í ofninn þar til þær eru mjúkar. Takið ólífurnar út og setjið þær yfir fetablönduna. Berið fram með góðu brauði.

Prinsessuterta

Núna á sunnudaginn munum við halda uppá tveggja ára afmælið hennar Emmu. Ég kom inná það í færslu hér áður að ég væri búin að ákveða þema og ég er mjög spennt. Við ætlum að hafa Skoppu og Skrítlu þema en Emma er með æði fyrir þeim núna. Ég er búin að panta marsipanmynd með þeim á og mun gera köku, eflaust gulróta sem er uppáhalds á okkar heimili og setja myndina á og skreyta fallega. Til þess að halda í þemað verðum við svo með bleikar og gular blöðrur, einkennisliti Skoppu og Skrítlu og svo gerir mamma aftur prinsessutertu sem verður bleik (og hin kakan verður gul). Það er hefð í minni fjölskyldu og á flestum hefðbundnum sænskum heimilum að hafa prinsessutertu í afmælum. Ég elska prinsessutertu og var ég mjög oft vakin við eina slíka á afmælinu mínu sem barn. Þetta er hefð sem ég vil halda gangandi í minni fjölskyldu og var ég fljót að biðja mömmu um að græja eina prinsessutertu fyrir komandi tveggja ára afmæli prinsessunnar.

Botnar

  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl hveiti
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 2 tsk vanillusykur

Byrjað er á að kveikja á ofninum á 175°, undir- og yfirhita, og smyrja hringform og klæða með bökunarpappír (um 23 cm form). Þeytið svo egg og sykur mjög vel saman. Sigtið restina af þurrefnunum saman við eggjablönduna og hrærið varlega saman við með sleif. Setjið deigið í hringformið og bakið í 35-45 mínútur. Leyfið að kólna alveg.

Vanillukrem

  • 1.5 dl rjómi
  • 1.5 dl mjólk
  • 3 eggjarauður
  • 2 msk maizena
  • 1.5 msk sykur
  • 0.5 tsk vanillusykur

Setjið öll hráefnin saman í pott, hrærið öllu saman og látið suðu koma upp. Þegar blandan er farin að þykkna er slökkt undir, blandan er sett í skál og leyft að standa við stofuhita þar til hún hefur kólnað.

Fylling

  • 2 dl hindberjasulta
  • 5 dl rjómi

Skerið kökubotninn í 3 lög, semsagt þvert í kökuna svo þær verði þrjár. Setjið fyrsta kökubotninn á kökudisk, smyrjið þykku lagi af sultu á hann allan og kökubotn yfir. Ofaná kökubotninn fer vanillukrem og svo seinasti botninn þar ofaná. Stífþeytið rjómann og smyrjið honum vel yfir efsta botninn, því meira því betra. Dreifið svo þunnu lagi af rjóma í hliðarnar á kökunni. Setjið kökuna í ísskáp til þess að stífna á meðan þið rúllið út marsipani. Það er mjög flott að bæta matarlit saman við marsipanið. Gott er að nota Maizena þegar marsipanið er rúllað út til þess að koma í veg fyrir að það festist við. Setjið marsipanið yfir kökuna (það á að vera ca 3-4 mm á þykktina. Skerið afganginn kringum kökuna af og stráið yfir kökuna flórsykri.

Instagram meðmæli: Heimili

Nú er Oliver kominn í þriðju sóttkvínna síðan 29. desember. Við Emma vorum með honum í fyrstu tveimur en svo þegar hann fékk tilkynningu um þriðju þá fór hann annað. Við Emma erum búnar að vera bara tvær heima síðustu tvo daga, Oliver fer í test á sunnudaginn og ég verð bara að viðurkenna að ég var rosalega kvíðin fyrir þessum dögum. Emma er búin að vera að sofa rosalega illa, er lengi að sofna og vaknar snemma. Við Oliver höfum verið að skiptast á að svæfa, svo tekur annaðhvort okkar nóttina og hinn vaknar með henni en nú er það bara ég ein. Í morgun vaknaði ég frekar ánægð með nóttina og var mjög vongóð, við ætluðum að fara á Selfoss til pabba og gista þar í nótt en þá fær Emma gubbupest. Ég er alveg búin á því eftir þennan dag, hann var rosalega krefjandi. Við erum búnar að reyna að hafa það notalegt í dag, greyið Emma er búin að vera svo dugleg, kvartar ekki neitt yfir þessu.

Í svona mikilli heimaveru eins og við erum búin að vera í finnst mér rosalega mikilvægt að hafa heimilið frekar snyrtilegt, annars líður mér rosalega illa og næ ekki að njóta. Ég elska að vera heima og hafa það notalegt og er núna komin í smá gír aftur síðan við fluttum að vilja gera og græja hérna heima. Ég er búin að finna ýmislegt sem er komið á óskalistann minn sem ég vil kaupa fyrir t.d. stofuna sem mig langar að fara að gera ennþá meira kósí. Ég er að fylgja rosalega mörgum „home decor“ aðgöngum á Instagram og langaði mér að mæla með nokkrum hér.

Emma Melin – Ég er búin að fylgja henni mjög lengi og er svakalega hrifin af hennar stíl, hann er mjög svipaður hvernig ég vil hafa heima hjá mér. Hlýjir litir og stílhreint með blöndu af eik. Hún er að fara að byggja hús á þessu ári sem verður mjög spennandi að fylgjast með!

Sara Tornblad – Mjög svipaður stíll og hjá Emma Melin en er oft með DIY sem er skemmtilegt að fylgjast með.

Petra Tungården – Ég elska að fylgjast með henni! Hún er sænsk, eins og virðist vera þemað í þessu hjá mér, og er búin að vera að gera upp íbúðina sína. Hún er með mjög sérstakan stíl sem er tryllt flottur og er hún mjög flink á að gera eitthvað mjög óhefðbundið sem kemur ótrúlega vel út. Hún er einnig að hanna föt og er með mjög flottan fatasmekk.

Ditte Svanfeldt– Ég er búin að fylgja Ditte rosalega lengi. Hún er með ótrúlega rólegan og fallegann aðgang. Hún sýnir mikið af náttúrunni, dýrum og fjölskyldu lífi sínu á dásamlega fallega heimilinu sínu. Hún er, eins og Emma, að byrja að byggja hús. Ég er svo spennt að fylgjast með því.

Loft208 – Ég er nýlega byrjuð að fylgja þessari stelpu. Hún býr í Manchester og er mikið að vinna með DIY verkefni sem koma svo vel út.

Kvadrat1670 – Danskt par sem er búið að vera í framkvæmdum á íbúðinni sinni í Frederiksberg. Mjög fallegt.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Ég er aðeins byrjuð að plana afmælið hennar Emmu. Það verður rosalega lítið vegna covid eins og ég minntist á í síðustu færslu og verður það haldið líka fyrr þar sem bróðir minn er að fara til Danmerkur í nám um miðjan mánuð. Við vorum að lenda á þema og ég er svo spennt. Ég var að hugsa hvað ég gæti boðið uppá og datt þá í hug þessa súpu. Hún er svo fullkomin í svona vondu veðri eins og er búið að vera í dag. Mamma hefur gert þessa súpu milljón sinnum og hún er alltaf jafn góð. Hún er með vinsælustu uppskriftum á blogginu hennar mömmu, ég verð að deila henni hérna.

  • 2 kjúklingabringur
  • salt
  • 1/2 blaðlaukur, smátt saxaður
  • 1 rauð paprika, smátt söxuð
  • 1 msk ólívuolía
  • 1 líter vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 4 msk chili-sósa
  • 3 msk tómatþykkni (tomato paste)
  • 100 gr rjómaostur
  • nachos-flögur
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Byrjaðu á að sjóða kjúklingabringurnar í vatni með smá salti þar til þær eru eldaðar í gegn. Það tekur ca 8 mínútur. Taktu þær úr vatninu og skerðu í litla bita.

Steiktu blaðlaukinn og paprikuna í ólífuolíunni við miðlungs hita. Hitaðu vatnið í potti og leystu kjúklingateninginn upp í vatninu. Bættu grænmetinu út í kjúklingasoðið ásamt hökkuðum tómötum, chili-sósu og tómatmauki og leyfðu súpunni að malla við vægan hita í 10 mínútur (ég einfalda þetta oftast með því að steikja grænmetið í súpupottinum og hella svo vatninu beint yfir grænmetið og spara mér þar með uppvaskið á pönnunni).

Bættu rjómaostinum í súpuna í litlum skömmtum og láttu hana malla aðeins á milli svo að rjómaosturinn leysist upp. Bættu að lokum kjúklingabitunum út í.

Súpan er borin fram með sýrðum rjóma, rifnum osti og nachos.

Afmælisveisla

Emma fæddist þann 24. janúar 2020, korter í covid á Íslandi. Ég elska að halda veislur og var ég alveg búin að sjá fyrir mér og meira að segja byrjuð að plana skírn og fyrsta barnaafmælið á meðan ég var ólétt. Svo kom covid sem ég hafði ekki alveg reiknað með en þá þurfti ég aðeins að breyta plönum, frestaði skírninni og þurfti að hafa tvö afmæli vegna fjöldatakmarkana. Ég viðurkenni að ég missti mig aðeins í fyrsta afmælisundirbúningnum í fyrra og var afmælið kannski frekar eins og ferming, ég hugsa að ég verði aðeins rólegri í ár, en samt sem áður myndi ég ekki breyta fyrsta afmælinu hennar neitt, það var alveg fullkomið. Ég vildi sína ykkur nokkrar myndir frá afmælinu hennar Emmu í fyrra, ég hugsa að tveggja ára afmælið hennar núna í lok mánaðar verði aðeins skrautlegra með Peppa Pig þema eða eitthvað í þá áttina.

Emma var í fallegum kjól sem ég keypti í Petit, fallegasta barnafatabúð landsins að mínu mati! Hún var líka í hnésokkum þaðan. Ég pantaði afmælisköku frá Bake me a wish og keypti svo kerti og kökuskrautið í Partývörum.

Mamma var algjör töfrakona og sá um að gera marengsstaf og prinsessutertu sem mér fannst bæði algjört möst! Vá þær voru svo fallegar. Ég þarf að fá uppskriftina hjá henni af prinsessutertunni og deila henni hér með ykkur við tækifæri.

Ég gerði bleika kökupinna með hvítum skrautsykri. Þeir voru ótrúlega góðir en það besta var hvað þeir voru einfaldir. Það þurfti bara eina Betty Crocker köku (bakaða eftir leiðbeiningum), hálfa dollu af Betty Crocker kremi, bleikt candy melt súkkulaði sem fæst í Hagkaup og skrautsykur. Kakan og kremið er hrært saman í hrærivél og gerðar kúlur úr þeim. Pinnar sem fást í bökunardeildinni í Hagkaup er stungið í brætt súkkulaðið og svo í kúlurnar. Kúlunum er leyft að kólna í ísskáp í amk hálftíma og þá er þeim dýft í súkkulaðið og sykrinum stráð yfir. Geymist í ísskáp þar til hálftíma áður en borið er fram.

Ég gerði svo ostabakka til þess að hafa eitthvað á móti öllum sætindunum og vakti hann mikla lukku.

Marengsstafur

Í gær fékk Oliver skilaboð um að hann væri kominn í sóttkví fram yfir áramótin. Við ákváðum að við myndum bara vera saman heima með Emmu og hafa það notalegt. Ég var búin að græja tvo eftirrétti þar sem við ætluðum að halda áramótin hérna heima með gestum en við verðum bara að borða extra mikið sjálf. Ég er ekki mikið fyrir áramótin, þau eru ekki jafn heilög fyrir mér og jólin eru og var mér eiginlega alveg sama að við þyrftum að vera í sóttkví.

Ég er ótrúlega spennt fyrir árinu 2022 og sjá hvað það hefur uppá að bjóða. Við eigum bókaða ferð til Florida í vor, við höfum ekki farið til útlanda síðan vorið 2019. Það er spurning hvort að maður komist þangað eða hvort covid hafi önnur plön. Emma á svo afmæli í lok janúar og ég er svo spennt. Ég er byrjuð að skipuleggja aðeins en maður getur svo sem ekki planað of langt fram í tíman vegna covid en ef allt fer á versta veg verðum við með litla notalega veislu fyrir hana, ég held að hún sé sátt svo lengi sem það er snakk og ídýfa, hennar uppáhald!

  • 300 gr sykur
  • 6 eggjahvítur
  • 1 poki dumle karamellur
  • 1 poki daim
  • 300 ml rjómi
  • kókosbollur
  • hindber

Byrjað er á að hita ofninn í 100° blástur. Síðan er eggjahvítunum og sykrinum bætt í skál og stífþeytt. Ég vildi hafa tvo litla stafi en ekki einn stóran svo ég teiknaði „2“ á bökunarpappír, tvo hlið við hlið. Setti svo stífþeyttu blönduna í sprautupoka og sprautaði eftir stöfunum sem ég hafði teiknað á pappírinn. Ég endurtók þetta fyrir samtals 4 stafi, ég teiknaði á annan bökunarpappír með því að hafa hinn undir og draga eftir sömu línur svo allt yrði alveg eins. Svo bakaði ég þetta inn í ofni í 90 mínútur og slökkti þá á ofninum og leyfði þeim að standa í nokkra klukkutíma. Svo setti ég tvistana hlið við hlið á plötu. Stífþeytti rjóma og blandaði daimkurli saman við. Ég sprautaði rjómanum á stafina og skellti hinum tveim stöfunum ofaná. Ég sprautaði öðru lagi af rjóma ofaná og skreytti síðan með bræddu dumle (bræddi í potti með smá rjómaskvettu), kókosbollum, dumle karamellum og hindberjum.