Í dag er bóndadagurinn. Á bóndadeginum fyrir tveimur árum síðan fæddist Emma, 9 dögum eftir settan dag. Ég hugsa að ég muni aldrei geta toppað þessa bóndadagsgjöf mína til Olivers. Við erum að fara í afmæli í kvöld til Hemma, mannsins hennar mömmu, en hann varð sextugur í gær. Það átti að vera svaka veisla í kvöld en útaf fjöldatakmörkunum þurfti að fresta henni og verður minni veisla í kvöld. Þess vegna ákváðum við að halda upp á bóndadaginn í gær. Oliver fékk að ákveða mat og ég eldaði á meðan hann svæfði. Við áttum ótrúlega notalegt heimadeit, við borðuðum seint og horfðum svo á þætti. Oliver valdi butter chicken og naan brauð, það er svo gott.

- 1 msk ólífuolía
- 1 msk smjör
- 1 gulur laukur saxaður
- pakki af kjúklingabringum
- 3-4 hvítlauksrif (pressuð eða fínsöxuð)
- 1 tsk engifer (rifinn)
- 4 msk tómatpúrra
- 1 msk garam masala
- 1 tsk cayenne pipar eða paprikukrydd, eftir hversu sterkt þið viljið
- 1 tsk fenugreek eða sinnepsfræ (má sleppa)
- 1 tsk kúmín
- 1 tsk salt
- smá pipar
- 2x hrein jógúrt (ein er 180 gr)
Byrjað er á að hita pönnu á miðlungshita og skella í olíunni og smjörinu. Þegar smjörið hefur bráðnað þá er lauknum bætt í pönnuna og steikt í nokkrar mínútur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hvítlauksrifunum og engifernum bætt við og hrært saman við laukinn. Setjið kjúklinginn út á pönnuna ásamt kryddunum og tómatpúrrunni og hrærið öllu saman. Eldið kjúklinginn alveg í gegn og bætið þá jógúrtinni saman við. Leyfið að malla í 8-10 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum og naan brauði. Ég nota alltaf þessa uppskrift frá Eldhússögur af naan brauði.
