Í gær fékk Oliver skilaboð um að hann væri kominn í sóttkví fram yfir áramótin. Við ákváðum að við myndum bara vera saman heima með Emmu og hafa það notalegt. Ég var búin að græja tvo eftirrétti þar sem við ætluðum að halda áramótin hérna heima með gestum en við verðum bara að borða extra mikið sjálf. Ég er ekki mikið fyrir áramótin, þau eru ekki jafn heilög fyrir mér og jólin eru og var mér eiginlega alveg sama að við þyrftum að vera í sóttkví.
Ég er ótrúlega spennt fyrir árinu 2022 og sjá hvað það hefur uppá að bjóða. Við eigum bókaða ferð til Florida í vor, við höfum ekki farið til útlanda síðan vorið 2019. Það er spurning hvort að maður komist þangað eða hvort covid hafi önnur plön. Emma á svo afmæli í lok janúar og ég er svo spennt. Ég er byrjuð að skipuleggja aðeins en maður getur svo sem ekki planað of langt fram í tíman vegna covid en ef allt fer á versta veg verðum við með litla notalega veislu fyrir hana, ég held að hún sé sátt svo lengi sem það er snakk og ídýfa, hennar uppáhald!

- 300 gr sykur
- 6 eggjahvítur
- 1 poki dumle karamellur
- 1 poki daim
- 300 ml rjómi
- kókosbollur
- hindber
Byrjað er á að hita ofninn í 100° blástur. Síðan er eggjahvítunum og sykrinum bætt í skál og stífþeytt. Ég vildi hafa tvo litla stafi en ekki einn stóran svo ég teiknaði „2“ á bökunarpappír, tvo hlið við hlið. Setti svo stífþeyttu blönduna í sprautupoka og sprautaði eftir stöfunum sem ég hafði teiknað á pappírinn. Ég endurtók þetta fyrir samtals 4 stafi, ég teiknaði á annan bökunarpappír með því að hafa hinn undir og draga eftir sömu línur svo allt yrði alveg eins. Svo bakaði ég þetta inn í ofni í 90 mínútur og slökkti þá á ofninum og leyfði þeim að standa í nokkra klukkutíma. Svo setti ég tvistana hlið við hlið á plötu. Stífþeytti rjóma og blandaði daimkurli saman við. Ég sprautaði rjómanum á stafina og skellti hinum tveim stöfunum ofaná. Ég sprautaði öðru lagi af rjóma ofaná og skreytti síðan með bræddu dumle (bræddi í potti með smá rjómaskvettu), kókosbollum, dumle karamellum og hindberjum.