Smores brownie

Í kvöld erum við að fara í mat til tengdó og ætlum að hafa það notalegt. Nú styttist svakalega í jólin og það þýðir að bræður mínir eru að fara að koma heim úr lýðháskóla í Danmörku og mamma fer að eiga afmæli. Ég elska þennan árstíma, vil helst ekki að hann endi!

Þessi kaka er alveg tryllt bomba. Innblásturinn af henni eru smores. Blautur, klístraður brownie botn, sykurpúðafluff og grahamskex mulningur.

  • 3 egg
  • 275 gr púðursykur
  • 185 gr smjör
  • 185 gr suðusúkkulaði
  • 80 gr hveiti
  • 40 gr kakó
  • 100 gr súkkulaðidropar
  • Fluff (keypti í Krónunni, annars er hægt að dreifa sykurpúðum yfir og baka með síðustu 3 mínúturnar)
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • Grahamskex

Byrjað er á því að þeyta saman eggin og sykurinn. Súkkulaðið og smjörið er brætt saman og hellt út í eggjablönduna og blandað saman við. Hveitinu og kakóinu er svo hrært rólega saman við með sleif og svo súkkulaðidropunum. Klæðið form með bökunarpappír og bakið við 180° í 23 mínútur. Ef þið eruð ekki með Fluff þá er kakan tekin út eftir 20 mínútur og sykurpúðum dreift yfir kökuna og hún sett inn aftur í 3 mínútur. Takið kökuna úr ofninum og leyfið að kólna. Dreifið Fluffinu yfir kökuna og kælið í ísskáp. Bræðið suðusúkkulaði og hellið yfir kökuna og stráið mulnu grahamskexi yfir. Ég notað piparkökur í þetta skipti sem kom ekki að sök, bætti smá jólabragði við.

Maríukaka

Þegar pabbi átti afmæli bakaði Guðrún, konan hans, þessa köku fyrir hann. Hann talaði ekki um annað í langan tíma svo ég bara varð að prófa að skella í hana. Ég gerði hana í gærkvöldi og var hún alveg mikið einfaldari að gera en ég hafði búist við. Hún er alveg tryllt, ég mæli með að gera þessa. Hún er aðeins öðruvísi og skemmtilegt að bjóða uppá hana.

  • 3 egg
  • 1 dl sykur
  • 4 msk smjör
  • 100 gr dökkt súkkulaði
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk salt
  • 1 1/2 dl hveiti

Byrjað er á að þeyta egg og sykur vel saman. Smjör og súkkulaði er brætt og blandað saman við við eggjablönduna. Svo er restinni blandað saman við með sleif varlega. Bakað við 180° í 17 mínútur.

  • 4 msk smjör
  • 1 dl púðursykur
  • 3 msk rjómi
  • 150 gr pekanhnetur
  • 100 gr dökkt súkkulaði

Hráefnunum er öllum blandað saman í potti í þunna karamellu á meðan kakan er í ofninum. Þegar kakan er búin að bakast í 17 mínútur er söxuðum pekanhnetum dreift yfir hana og karamellunni hellt svo yfir. Kakan fer aftur inn í ofn í 17 mínútur. Um leið og kakan kemur út er söxuðu súkkulaði stráð yfir hana.

Oreo fudge

Núna eru minna en 10 dagar til jóla og ég er bara ekki að ná því. Mér finnst ennþá eins og það sé bara byrjun desember en ekki að hann sé hálfnaður. Ég er að byrja baksturinn frekar seint að mínu mati en aftur á móti græjaði ég jólagjafirnar fyrr í ár í staðinn. Við mamma höfðum sörubakstur í gær og amma kom líka. Við áttum mjög notalegt kvöld saman og eigum núna fullt af sörum í frysti, þá mega jólin koma. Emma er farin að venjast jólasveinaheimsóknum á nóttunni, hún vildi fyrst ekki sjá neitt dót í skónum sínum. Hún er orðin spennt að sjá hvað er í skónum á morgnanna og kíkja í dagatalið sitt.

Mamma gerði stundum fudge fyrir jólin, engin ein heilög uppskrift. Ég vildi setja amk eina hér inn fyrir jólin en þetta eru ekki klassísku smákökurnar sem maður gerir fyrir jólin en mjög gott samt sem áður. Þetta tekur enga stund að gera og inniheldur mjög fá hráefni. Það geta allir gert þetta, sama hversu góður maður er í eldhúsinu.

  • 400 gr hvítt súkkulaði
  • 1 dós sæt niðursoðin mjólk
  • 2 pakkar oreo

Byrjað er á að brytja niður súkkulaðið og setja í skál ásamt mjólkinni. Þetta er brætt saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og hrært vel saman. Myljið oreo kexið gróft. Klæðið form með bökunarpappír og dreifið helmingnum af oreo mulningnum yfir formið, hellið súkkulaðiblöndunni yfir og svo restinni af oreo mulningnum ofan á. Leyfið þessu að stífna í ísskáp í minnst tvær klukkustundir. Skerið í bita og njótið.

Piparkökuskeljar

Ég elska að fá mér ís og fer ég mjög oft í ísbúð á kvöldin. Ég hinsvegar fæ mér ekki oft venjulegan ís, s.s. ekki úr vél nema hann sé heimagerður jólaís. Amma mín gerir besta bismark ís í heimi og elska ég að fá hann á annan í jólum í jólaboði heima hjá henni. Ég held að hann væri sjúklega góður í þessum skeljum en ég datt niður á þessa hugmynd á instagram og ákvað að prófa og varð ekki fyrir vonbrigðum. Mjög mikilvægt samt að nota bökunarpappír á milli því annars festist deigið við formið.

  • 60 gr smjör
  • 1/4 bolli púðursykur
  • 1/4 síróp
  • 1 eggjarauða
  • 1 1/2 bolli hveiti
  • 1 tsk engifer
  • 1 tsk negull
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk matarsódi

Byrjið á að þeyta saman smjör og púðursykur. Bætið við sírópinu og eggjarauðunni og þeytið áfram. Bætið við þurrefnum og blandið þeim saman við. Bakið við 180° í 10 mínútur á öfugri möffins bökunarplötu. Leyfið að kólna og berið fram með ís.

Nánari útskýring hvernig á að baka – mynd fengin af google

Potpourri

Ég datt nýlega inná aðgang á Tiktok þar sem stelpa á mínum aldri var að gera allskonar „potporris“. Það sem hún gerir er að sjóða saman í potti einhver matvæli sem lætur heimilið ilma stórkostlega án þess að nota kerti, sem geta innihaldið skaðleg efni og sót (ekki það, ég elska að kveikja á kertum). Það sem ég elska við þessa hugmynd er að maður getur notað til dæmis ávexti sem eru farnir að lýta illa út og minnkað þannig sóunina. Ég ætla að deila með ykkur minni go-to uppskrift að potpourri þessa dagana en hún er mjög jólaleg og hlý. Ilmurinn berst um allt húsið en ekki bara eitt rými eins og kertin eiga til.

  • 1 epli
  • 1 appelsína
  • smá negull
  • smá kanill
  • skvetta af vanilludropum

Byrjað er að skera ávextina í bita. Síðan er þessu skellt í pott ásamt vatni. Þá er kryddunum og vanilludropunum bætt útí. Síðan er mikilvægt að láta suðuna koma upp áður en lækkað er í pottinum og þessu leyft að malla á lægri hita. Athugið að það þarf að fylgjast með vatnsmagninu svo það gufi ekki allt upp. Ég hef líka sleppt kryddunum og vanilludropunum og bætt við rósmarín en ég mæli með að leika sér með þetta. Svo er stelpan á Tiktok með fullt af uppskriftum, notendanafnið hennar er Reeselaa.

Lussekatter

Við erum búin að eiga ótrúlega rólegan sunnudag. Við Oliver sváfum út en Emma gisti hjá ömmu sinni. Við fórum svo til mömmu í aðventukaffi og höfðum það notalegt. Mér finnst svo skrýtið að það sé komin þriðji í aðventu. Það er allt í einu svo stutt í jólin. Við fórum svo í bíltúr á meðan Emma lagði sig í bílnum og skoðuðum allskonar jólaskreytingar á öllum húsunum. Núna sitjum við og horfum á Grinch í algjörri slökun. Þessi árstími snýst fyrir mér um svona kósídaga.

Mér finnst jólin ekki koma nema ég fái saffran bakkelsi, saffransnúða eða lussekatter, helst bæði. Mamma gerði lussekatter í dag fyrir aðventukaffið og ég held ég hafi borðað yfir mig af þeim. Þeir eru svo ótrúlega góðir. Ég borðaði þá eina og sér, mamma borðaði þá með þeyttu smjöri og salti og Hemmi tók þetta skrefinu lengra og skellti mysing á. Ég mæli með að prufa!

  • 2 gr saffran
  • 2 dl sykur
  • 2 msk vatn
  • 50 gr ger
  • 175 gr mjúkt smjör
  • 5 dl volg mjólk
  • 1/2 tsk salt
  • 800 gr hveiti
  • egg til að pensla á í lokin

Myljið saffranið í morteli með 1 tsk af sykrinum. Setjið saffranið í vatnið og hrærið. Látið standa í 30 mínútur. Hellið geri, mjólk, smjöri og saffrani (með vökvanum) í hrærivél og blandið í hrærivél með hnoðaranum. Bætið restinni af sykrinum, hveitinu og saltinu saman við og hnoðið deigið vel í hrærivél. Leyfið að lyfta sér undir viskastykki í 60 mínútur.

Setjið deigið á borð (hafið hveiti undir til þess að koma í veg fyrir að deigið festist) og myndið lussekatter úr því. Deigið gefur um 40 stk. Svíar hafa yfirleitt tvær rúsínur í hvorum snúningnum í bollunum en ég vil ekki hafa þær í. Þá leggur maður rúsínurnar í bleyti í 30 mínútur áður, ef maður vill hafa þær í. Leyfið deiginu aftur að lyfta sér undir viskastykki á bökunarplötu í 30 mínútur. Penslið svo með eggi, hægt er að strá perlusykri yfir og bakið svo í ofni á 225° í 8-10 mínútur.

Ostabakkar

Í kvöld er Hanna vinkona að koma í heimsókn. Við hittumst einu sinni í mánuði í drykk, við höfum yfirleitt farið út á hverfisbarinn en síðustu tvö skipti hafa verið heima. Ég elska að nasla og finnst mér naslbakkar eða ostabakkar svo fullkomnir fyrir svona vinkonukvöld. Ég setti saman ostabakka með smá jólaívafi með rósmaríngreinum sem mér fannst gera hann smá jóló. Síðan gerði ég spægipylsurós en það er rosalega auðvelt og hægt að læra á youtube á nokkrum sekúndum en hún gerir bakkann alveg ótrúlega fallegann. Ég sá fullt af fallegum hugmyndum á pinterest og ákvað að deila nokkrum hérna með ykkur líka sem hugmyndir fyrir jólin.

Hér er bakkinn minn en hann inniheldur vínber, osta, kex, spægipylsu, sultu og ólívur. Ég notaði rósmarín sem fyllingu í bakkann og til þess að gera hann meira jóla. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af pinterest, þar eru fullt af fleiri fallegum útfærslum.

Kökudeigs hrákaka

Í gær fórum við Oliver með pabba og Guðrúnu á Sushi Social. Það var svo gaman að komast út og líða vel eftir langa flensu. Ég er svo spennt fyrir næstu dögum, í dag fór ég í hádeginu með vinnunni á jólahlaðborð á Mathúsi Garðabæjar sem var ótrúlega gott. Á morgun ætlar Hanna vinkona að koma til mín í heimsókn í eitthvað kósí. Á sunnudaginn er aðventukaffi hjá mömmu og á mánudaginn ætlum við mamma að hafa sörubakstur. Það er nóg framundan, ég er líka ekkert eðlilega spennt fyrir jólasveinunum sem byrja að koma til byggða aðfaranótt sunnudags. Emma er með miklu meira vit fyrir svona núna en hún var með í fyrra, ég get ekki beðið.

  • 1 bolli hnetusmjör
  • 75 gr möndlumjöl
  • 75 gr síróp
  • 1 msk vanilludropar
  • smá salt
  • súkkulaðidropar eftir smekk
  • 100 gr suðusúkkulaði

Hrærið saman öllum hráefnunum, nema suðusúkkulaðinu, dreifið í form og setjið í frysti á meðan súkkulaðið er græjað. Bræðið suðusúkkulaðið og hellið yfir deigið og dreifið yfir það allt. Setjið í ísskáp frysti þar til súkkulaðið á toppnum hefur harðnað og skerið þá í bita. Gott er að strá yfir sjávarsalti. Geymið í ísskáp, þetta er langbest kælt.

Jóla kladdkaka

Kladdkaka er ein af mínum uppáhalds kökum. Þær eru svo auðveldar að gera, maður gerir allt í einum potti, svo eru þær líka fljótgerðar en einstaklega bragðgóðar þrátt fyrir litla fyrirhöfn. Ég ólst upp við að borða mikið af kladdkökum í Svíþjóð en kladdkaka beinþýtt á sænsku er klísturkaka. Það er mjög lýsandi fyrir sjálfa kökuna en hún á að vera „klístruð“ í miðjunni. Þessi uppskrift er með jólaívafi en það kemur fram í kryddunum í henni sem minnir á jólin. Ég elska lyktina af negul, hún minnir mig sérstaklega á jólin.

  • 150 gr smjör
  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 4½ msk kakó
  • ½ tsk salt
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • ½ tsk negull
  • ½ tsk kardimomma
  • 2½ dl hveiti

Byrjað er á að bræða smjörið á lágum hita í potti og leyft því aðeins að kólna. Síðan er öllum hráefnunum, nema hveitinu, hrært saman við smjörið. Hveitinu er hrært útí þegar allt hitt er blandað vel saman. Deiginu er hellt í vel smurt form og bakað í 20-25 mínútur við 175°. Kökunni er leyft að kólna aðeins, síðan er flórsykri stráð yfir.

Eplaskífur

Hjá okkur er hefð að fara í aðventukaffi til mömmu. Mamma hefur haldið aðventukaffi síðan ég var lítil og er nánast alltaf danskar eplaskífur á boðstólnum. Til þess að gera þær þarf maður sérstaka pönnu sem fæst þó í mörgum verslunum. Ég mæli mikið með að gera einhverja svona hefð í kringum aðventuna en það er svo ótrúlega kósí leið til þess að brjóta upp skammdegið og eftirvæntinguna í desember. Mamma hefur stundum líka gert vöfflur en svo hefur hún oft með heitt súkkulaði og alltaf græna jólatertu fyrir Oliver, hans uppáhalds.

Danskar eplaskífur
Danskar eplaskífur

Eplaskífur með sítrónu og vanillu (um 20-25 stykki)

  • 3 egg
  • 3 msk sykur
  • 2,5 dl mjólk
  • 2 dl rjómi
  • 1 tsk salt
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • rifið hýði af 1 sítrónu (passið að rífa bara yfirborðið og ekki niður í hvíta hlutan)
  • 2 tsk vanillusykur

Skiljið eggjahvíturnar frá gulunum og setjið í sitthvora skálina. Stífþeytið eggjahvíturnar. Hrærið eggjagulum, sykri, mjólk, rjóma og salti saman og bætið síðan hveiti og lyftidufti saman við. Hrærið þar til deigið er kekkjalaust. Bætið stífþeyttu eggjahvítunum varlega saman við ásamt vanillusykri og sítrónuhýði.

Bakið eplaskífurnar í smjör- og olíublöndu (notið til helminga og passið að vera með bragðdaufa olíu, ekki ólívuolíu) í eplaskífupönnu. Fyllið nánast eplaskífuholurnar á pönnunni með deigi. Lyftiduftið gerir það að verkum að deigið næstum rennur út fyrir en það gerir ekkert til, þegar þú snýrð þeim þá verða skífurnar fallega hringlaga.

Samkvæmt danskri hefð á að bera eplaskifurnar fram með flórsykri og jarðaberjasultu en ég vil borða mínar með flórsykri, hindberjasultu og þeyttum rjóma.

Danskar eplaskífur