Hjá okkur er hefð að fara í aðventukaffi til mömmu. Mamma hefur haldið aðventukaffi síðan ég var lítil og er nánast alltaf danskar eplaskífur á boðstólnum. Til þess að gera þær þarf maður sérstaka pönnu sem fæst þó í mörgum verslunum. Ég mæli mikið með að gera einhverja svona hefð í kringum aðventuna en það er svo ótrúlega kósí leið til þess að brjóta upp skammdegið og eftirvæntinguna í desember. Mamma hefur stundum líka gert vöfflur en svo hefur hún oft með heitt súkkulaði og alltaf græna jólatertu fyrir Oliver, hans uppáhalds.


Eplaskífur með sítrónu og vanillu (um 20-25 stykki)
- 3 egg
- 3 msk sykur
- 2,5 dl mjólk
- 2 dl rjómi
- 1 tsk salt
- 4 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- rifið hýði af 1 sítrónu (passið að rífa bara yfirborðið og ekki niður í hvíta hlutan)
- 2 tsk vanillusykur
Skiljið eggjahvíturnar frá gulunum og setjið í sitthvora skálina. Stífþeytið eggjahvíturnar. Hrærið eggjagulum, sykri, mjólk, rjóma og salti saman og bætið síðan hveiti og lyftidufti saman við. Hrærið þar til deigið er kekkjalaust. Bætið stífþeyttu eggjahvítunum varlega saman við ásamt vanillusykri og sítrónuhýði.
Bakið eplaskífurnar í smjör- og olíublöndu (notið til helminga og passið að vera með bragðdaufa olíu, ekki ólívuolíu) í eplaskífupönnu. Fyllið nánast eplaskífuholurnar á pönnunni með deigi. Lyftiduftið gerir það að verkum að deigið næstum rennur út fyrir en það gerir ekkert til, þegar þú snýrð þeim þá verða skífurnar fallega hringlaga.
Samkvæmt danskri hefð á að bera eplaskifurnar fram með flórsykri og jarðaberjasultu en ég vil borða mínar með flórsykri, hindberjasultu og þeyttum rjóma.
