Við erum búin að eiga ótrúlega rólegan sunnudag. Við Oliver sváfum út en Emma gisti hjá ömmu sinni. Við fórum svo til mömmu í aðventukaffi og höfðum það notalegt. Mér finnst svo skrýtið að það sé komin þriðji í aðventu. Það er allt í einu svo stutt í jólin. Við fórum svo í bíltúr á meðan Emma lagði sig í bílnum og skoðuðum allskonar jólaskreytingar á öllum húsunum. Núna sitjum við og horfum á Grinch í algjörri slökun. Þessi árstími snýst fyrir mér um svona kósídaga.



Mér finnst jólin ekki koma nema ég fái saffran bakkelsi, saffransnúða eða lussekatter, helst bæði. Mamma gerði lussekatter í dag fyrir aðventukaffið og ég held ég hafi borðað yfir mig af þeim. Þeir eru svo ótrúlega góðir. Ég borðaði þá eina og sér, mamma borðaði þá með þeyttu smjöri og salti og Hemmi tók þetta skrefinu lengra og skellti mysing á. Ég mæli með að prufa!

- 2 gr saffran
- 2 dl sykur
- 2 msk vatn
- 50 gr ger
- 175 gr mjúkt smjör
- 5 dl volg mjólk
- 1/2 tsk salt
- 800 gr hveiti
- egg til að pensla á í lokin
Myljið saffranið í morteli með 1 tsk af sykrinum. Setjið saffranið í vatnið og hrærið. Látið standa í 30 mínútur. Hellið geri, mjólk, smjöri og saffrani (með vökvanum) í hrærivél og blandið í hrærivél með hnoðaranum. Bætið restinni af sykrinum, hveitinu og saltinu saman við og hnoðið deigið vel í hrærivél. Leyfið að lyfta sér undir viskastykki í 60 mínútur.


Setjið deigið á borð (hafið hveiti undir til þess að koma í veg fyrir að deigið festist) og myndið lussekatter úr því. Deigið gefur um 40 stk. Svíar hafa yfirleitt tvær rúsínur í hvorum snúningnum í bollunum en ég vil ekki hafa þær í. Þá leggur maður rúsínurnar í bleyti í 30 mínútur áður, ef maður vill hafa þær í. Leyfið deiginu aftur að lyfta sér undir viskastykki á bökunarplötu í 30 mínútur. Penslið svo með eggi, hægt er að strá perlusykri yfir og bakið svo í ofni á 225° í 8-10 mínútur.