Silvíukaka

Þessi kaka er ótrúlega einföld og fljótleg. Ég held að margir eigi til öll hráefnin í hana. Þessa köku gerði mamma ótrúlega oft þegar ég var yngri en hún er uppáhalds kaka sænsku drottningunar, Silvíu.

Hráefni í köku

  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl vatn
  • 2 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í 175°. Hrærið egg og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið vatninu saman við og hrærið snögglega. Bætið hveiti og lyftidufti út í og hrærið þar til deigið verður slétt. Setjið deigið í smurt bökunarform og bakið í ca 30 mínútur.

Hráefni í glassúr

  • 75 gr smjör
  • 1 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 eggjarauða
  • Kókósmjöl (strá yfir glassúr)

Á meðan kakan er í ofninum er glassúrinn gerður. Bræðið smjörið í litlum potti við vægan hita og hrærið sykri, vanillusykri og eggjarauðu saman við.

Þegar kakan er tilbúin er glassúrinn breiddur yfir kökuna og kókosmjöli stráð yfir.

Hnetusmjörskökur

Ég sá uppskrift af þessum kökum á tiktok og ákvað að prófa. Það sem heillaði mig var það að bæði voru rosalega fá hráefni sem þurfti, ég átti allt til í þær, síðan eru þær rosalega fljótgerðar og svo elska ég hnetusmjör. Ég bætti við smá heslihnetum ofaná til þess að gera þær aðeins betri (að mínu mati) en það er alveg hægt að sleppa því.

Hráefni

  • 1 bolli púðursykur
  • 1 bolli hnetusmjör
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 egg
  • súkkulaðidropar eftir smekk
  • heslihnetur eftir smekk

Aðferð

Byrja á að kveikja á ofninum á 175° blástur. Síðan er öllum hráefnum blandað vel saman, ég setti heslihneturnar bara á toppinn á kökunum en ekki í deigið. Svo er deiginu skipt í ca. 12 kúlur og raðað á plötu með bökunarpappír og kúlurnar eru klesstar niður (mikilvægt því annars verða þær of þykkar). Síðan er heslihnetunum stráð yfir og þrýst aðeins ofaní deigið til þess að þær haldist. Síðan er þessu skellt inn í ofn í 15 mínútur. Síðan þurfa kökurnar aðeins og fá að standa og kólna eftir að þær eru bakaðar til þess að þær haldi sér.

Nautagúllas með kartöflumús

Um daginn var ég með alveg ótrúlega góðan mat í kvöldmatinn og var það smá tilraunastarfsemi. Ég man eftir því þegar ég var í grunnskóla þá var oft svona nautagúllas með annaðhvort hrísgrjónum eða þá kartöflumús. Mér fannst þetta svo svakalega gott og langaði mig að reyna að gera þetta sjálf. Ég fór svo að reyna að finna uppskrift að svona „skólagúllasi“ s.s. nautagúllas kjöt, í brúnni sósu, en fann ekkert eins og ég var að leita að.

Ég bjó því bara til eitthvað líkt þessu í minningunni og mér fannst það bara heppnast alveg rosalega vel.

Hráefni:

  • 50. gr. smjör
  • Nautagúllas kjöt
  • 500 ml. rjómi
  • 2x nautateningar
  • Salt og pipar
  • Cayenne pipar
  • Maizena sósuþykkir
  • Sósulitur

Ég byrjaði á því að bræða ca. 50 gr. af smjöri á pönnu og steikja svo kjötið rétt til að „loka“ öllum hliðum. Síðan helli ég rjómanum útá og lækka niður í miðlungshita. Myl yfir teningana og krydda. Síðan leyfi ég þessu að malla í amk korter. Svo set ég lit og sósuþykki eftir sem mér finnst vanta. Þetta var alveg ótrúlega gott borið fram með kartöflumús. Næst myndi ég vilja prófa að setja t.d. gulrætur og lauk útí. En þetta var bara það sem ég átti til og var það alveg rosalega gott, mæli með að prófa!

Kalt pastasalat


Emma var lasin um daginn og ég nennti ekki út í búð. Ég ákvað því að finna bara eitthvað sem var til í ísskápnum og elda úr því. Úr varð þetta ótrúlega einfalda og góða pastasalat.

This image has an empty alt attribute; its file name is 186486190_219246976673364_5924509746694612825_n.jpg

Hráefni

  • Tagliatelle
  • Grænt pestó
  • Rauð paprika
  • Kirsuberjatómatar
  • Klettasalat
  • Primadonna

Ég byrjaði á að sjóða pastað eins og stóð á pakkningunni. Blandaði síðan pestóinu við pastað. Síðan saxaði ég niður paprikuna og skar í fernt tómatana. Síðan blanda ég öllu saman og toppa með Primadonna osti og svo er líka gott að setja smá chili flögur á.

Kókoskúlukaka

Í Svíþjóð er eitt uppáhaldið mitt „chokladboll“ eða á íslensku „kókoskúla“. En í Svíþjóð tíðkast oft að rúlla kókoskúlunum upp úr perlusykri frekar en kókos, sem mér þykir betra. Þá er í raun enginn kókos í kókoskúlunni og er því eiginlega betra að kalla þetta eins og Svíarnir bara „chokladboll“, eða súkkulaðikúla!

Ég sá uppskrift hjá sænskri stelpu sem heitir Frida að þessari köku og varð að sjálfsögðu að prófa. Hún var mjög einföld og fljótleg en kakan þarf ekki að bakast í ofni og geymist líka vel í kæli.

Hráefni í kökuna

  • 200 gr mjúkt smjör
  • 1 dl uppáhellt kaffi (kælt)
  • 2 dl sykur
  • 8 dl hafrar
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • smá salt
  • perlusykur (í skreytingu)

Allt er hnoðað saman í hrærivél í nokkrar mínútur eða þar til allt er blandað vel saman. Þá er deiginu þrýst í form sem búið er að setja plastfilmu í. Ef maður vill skreyta kökuna með kúlum þá tekur maður ca 3 msk af deiginu til hliðar fyrir það. Kakan er sett í frysti í 30 mín til að ná að stífna, eða ef hún er gerð daginn áður er nóg að setja í kæli.

Hráefni í súkkulaðikrem

  • 100 gr mjólkursúkkulaði
  • 1/2 dl rjómi

Byrjað er á að setja rjómann í pott á meðalháann hita. Þegar rjóminn hefur hitnað er súkkulaðinu hellt útí og hrært þar til það er bráðnað. Þá er potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna.

Þegar kakan er tekin úr frysti/kæli er plastfilman fjarlægð, kanturinn er rúllaður uppúr perlusykri og kakan sett á disk. Síðan er súkkulaðinu hellt yfir og flott að setja aðeins út fyrir kantana. Svo er rjóma sprautað á (ekki nauðsynlegt) og að lokum skreytt með kúlunum. Gott er að hafa ber með til að jafna út bragðið. Látið kökuna standa við stofuhita í amk 15 mín áður en hún er borin fram.

Maísstönglar með lime-aioli

Ég rakst á þessa uppskrift á sænskri instagram síðu og varð að prófa. Þetta er fullkomið meðlæti með grilli til dæmis, öllum fannst þetta sjúklega gott.

Hráefni (miðast við 3 maísstöngla)

  • Maísstönglar
  • 3 dl af majónesi
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 lime
  • Salt, pipar og hvítlaukssalt
  • Vorlaukur
  • Jalapeno
  • Parmesan
  • Kóríander

Byrja á því að grilla eða steikja maísin. Í aioli-ið þarf að byrja á því að pressa hvítlauksgeirana, því næst er því hrært saman við majónesið, kryddað með salti, pipar og hvítlaukssalti eftir smekk og svo er kreistur safi úr lime útí og smá börkur af lime raspaður útí. Síðan er þessu öllu hrært saman og sett yfir maísstönglana.

Þetta er síðan toppað með söxuðum vorlauk, jalapeno, parmesan og kóríander.