Þessi vika fór ekkert allt of vel af stað en á mánudaginn var hringt úr leikskólanum þar sem Emma var orðin veik og við beðin að sækja hana. Ég var heima með hana á þriðjudaginn og í gær, það getur sko tekið á að vera með eina litla heima sem mætti alveg við smá útrás á orku. Við gerðum nú samt bara gott úr hlutunum og höfðum það rosa notalegt saman. Ég djúphreinsaði ryksuguna á meðan Emma horfði á sjónvarpið og ég náði að ryksuga og skúra á meðan Emma horfði, þá er það að minnsta kosti ekki eftir! Þegar Oliver kom heim úr vinnunni fór ég niður í geymslu og náði í jólaskrautið okkar. Ég er alltaf sjúklega snemma í öllu tengdu jólunum en ég ætla að bíða með tréð þangað til Emmu líður betur.


Það eru komnar seríur út á svalir, jólastjarnan mín frá Dimm er kominn út í glugga og nokkrir litlir hlutir hér og þar. Ég er rosalega spennt fyrir jólunum í ár, Emma er farin að skilja svo svakalega mikið og það er svo gaman að upplifa svona spennandi hluti í gegnum hana. Hún er samt alveg á því að það sé enginn jólasveinn að fara að koma inn til hennar á nóttunni þegar hún sefur.




Ég setti inn um daginn á insta story „uppskrift“ ef það má segja það af heimatilbúnum heimilisilm. Ég ákvað að deila henni hingað inn líka en ég sá hugmyndina á tiktok og varð að prófa. Þetta lætur heimilið ilma alveg dásamlega og er alveg eiturefnalaus. Þetta á að ilma alveg eins og Williams Sonoma búðin í Bandaríkjunum, sem ilmar alltaf ótrúlega vel.

- sítróna
- rósmarín
- svartur pipar
- 1 tsk vanilludropar
Setjið hráefnin í pott og fyllið pottinn af vatni. Náið upp suðu og lækkið þá í pottinum og leyfið að malla. Ég leyfi mínu bara að malla í tvo tíma, ég fylgist bara vel með vatnsmagninu og bæti við ef þarf. Heimilið mun ilma alveg dásamlega.