Í gær var ég í vinnustyttingu svo ég er í fjögurra daga fríi þar sem ég vinn ekki föstudaga. Ég fór í gær að hitta frænkur mínar sem búa í Reykjanesbæ, við erum með smá saumaklúbb með mömmu og skiptumst á að bjóða í mat. Á morgun ætlum við svo að fara með Emmu í leikhús, Emma elskar fátt meira en að fara í leikhús, ég get eiginlega ekki beðið! Í dag ætla ég eins og alla föstudaga að gera notalegt heima, kaupa ný blóm fyrir helgina og svo sá ég að Gulli Arnar er að selja sjónvarpskökucroissant í dag og á morgun, ég bara verð að koma við hjá honum!
Mamma var í Stokkhólmi síðustu helgi og sendi mér þessa uppskrift hér, úr einhverju sænsku matartímariti. Okkur leist báðum svo svakalega vel á hana og ég bakaði hana strax daginn eftir. Hún stóðst allar væntingar og var mjög bragðgóð, ég myndi mæla með að prófa hana um helgina.

Súkkulaðikaka
- 100 gr smjör
- 2 egg
- 250 gr sykur
- 150 gr hveiti
- 1 dl kakó
- 1 tsk vanilludropar
- salt af hnífsoddi
Bræðið smjörið. Þeytið saman sykurinn og eggin og bætið svo smjörinu saman við. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel. Bakið við 200° í 20 mínútur í hringformi klæddu bökunarpappír.

Kaffikrem
- 100 gr mjúkt smjör
- 300 gr rjómaostur
- 4 msk flórsykur
- 4 msk kakó
- 4 msk kalt kaffi
Þeytið smjörið þar til létt og ljóst. Bætið þá í öllu nema kaffinu og þeytið vel saman. Bætið undir lokin kaffinu í og bætið smá flórsykri saman við ef kremið verður of blautt.
Dreyfið kreminu yfir kökuna þegar hún hefur kólnað, ég notaði sprautupoka og klippti neðan af honum og sprautaði á litlar kúlur.