Ég elska formkökur og finnst þær oft vera frekar vanmetnar. Mamma gerði þessa síðasta sunnudag þegar við komum í heimsókn og hún sló í gegn. Kakan var dúnamjúk og ótrúlega djúsí. Ég varð að mynda hana og deila uppskriftinni með ykkur. Kakan er ekta kaka til þess að bjóða uppá með kaffinu um helgina.

- 3 egg
- 2 dl sykur
- 100 gr mjúkt smjör
- 1 dl mjólk
- 2 tsk vanillusykur
- 3 1/4 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- hnífsoddur salt
kanilsykur:
- 1/2 dl sykur
- 1 msk kanill
Byrjið á því að þeyta saman egg og sykur þar til það er létt og ljóst. Bætið svo smjörinu saman við og hrærið vel. Bætið mjólkinni við og síðan þurrefnunum. Setjið smá af deiginu í smurt form og stráið kanilsykri yfir, smá meira deig og aftur kanilsykur yfir það, endurtakið þar til deigið er allt komið í formið. Stráið kanilsykri efst á deigið og nokkrar litlar smjörklípur yfir. Bakið í 40 mínútur í 180°.
