Á þriðjudaginn átti ég afmæli. Ég elska að eiga afmæli, reyndar elska ég bara afmæli yfir höfuð. Ég bauð mömmu, manninum hennar og bróður mínum í mat. Við grilluðum og höfðum það notalegt saman. Ég átti æðislegt kvöld með þeim. Ég fékk margar fínar gjafir, ég fékk nýja hlaupaskó, ræktarföt og kökuhníf sem var búinn að vera á óskalistanum til þess að nefna nokkra hluti. Svo mætti Hanna vinkona með gjöf handa mér í vinnuna, hún gaf mér kerti sem er búið að vera á óskalistanum mínum lengi úr Dimm, það er svo góð lykt af því. Ég er kertasjúk og þetta kerti setti ég á einn óskalistann hérna á blogginu. Ég ætla að halda svo almennilega uppá afmælið mitt seinna í mánuðnum þegar allir eru búnir í prófum og svona.
Við Oliver vorum með heima-deit á laugardagskvöldið fyrir afmælið mitt. Emma vildi gista hjá ömmu sinni og við ákváðum að vera bara heima í rólegheitum og slaka á þar sem við vorum ennþá þreytt eftir að hafa verið nýkomin heim frá Bandaríkjunum 2 dögum áður. Við keyptum kjúkling í marineringu og skelltum á grillið og höfðum svo aspas og kartöflur með. Ég er að elska góða veðrið sem er loksins komið, nú er hægt að fara að grilla og nota nýja Ooni ofninn. Ég setti inn á instagram mynd af kartöflunum sem ég hafði með og fékk nokkrar beiðnir um uppskrift svo ég ákvað að henda henni bara hingað inn. Mælieiningarnar í þessari uppskrift eru alls ekki heilagar, aðlagið bara að ykkar þörfum og hvað ykkur finnst gott.

- 1 kg kartöflur
- 100 gr smjör
- 4 hvítlauksrif
- 1 msk truffluolía
- parmesan
- salt og pipar
Byrjað er á að sjóða kartöflur þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn. Þá er ofninn hitaður í 200°. Setjið kartöflurnar á bökunarplötu og notið botn á glasi til þess að kremja þær niður. Bræðið smjör og pressið hvítlauksrifunum út í smjörið og blandið saman. Leyfið smjörinu aðeins að standa og fá í sig hvítlauksbragðið áður en smjörinu er penslað yfir kartöflurnar. Kryddið með salt og pipar og setjið í ofninn í 10 mínútur. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum er truffluolíunni hellt yfir og að lokum parmesan rifinn yfir.