Á sunnudaginn fyrir viku þegar ég var ein heima með Emmu vaknaði ég og var í miklu bakstursstuði. Mig langaði svo að eiga eitthvað nýbakað í morgunmat en nennti ekki að fara að láta eitthvað hefast og bíða. Ég fann uppskrift af þessum ofureinföldu brauðbollum sem innihalda ekki ger og taka í alvöru undir 10 mínútur að útbúa og einungis 10-13 mínútur í ofninum. Þessar bollur eru eins basic og þær verða, auðvitað finnur maður muninn á að hafa ger en þessar eru samt mjög góðar og alveg þess virði að eyða þessum litla tíma í þær. Það er svo auðveldlega hægt að pimpa bollurnar upp með til dæmis sólkjarnafræjum, beyglukryddi, birkifræjum eða osti.

- 5 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 2 msk grænmetisolía
- 2 1/2 dl mjólk
Hitið ofninn í 250°. Blandið þurrefnunum saman og bætið svo olíunni og mjólkinni saman við og hnoðið í deig. Skiptið deiginu upp í 6 bita og rúllið þeim í bollur. Þrýstið þeim aðeins niður á bökunarplötuna og bakið í 10-13 mínútur. Leyfið þeim aðeins að kólna og njótið svo með hvaða áleggi sem ykkur dettur í hug!

