Hjón!

Loksins loksins er ég komin aftur! Þurfti að tékka hvenær ég setti inn síðustu færslu og það eru liðnir tæpir þrír mánuðir síðan. Það er þó ástæða fyrir fjarveru minni hérna síðustu mánuði en þið sem fylgið mér á Instagram hafið eflaust séð að ég gifti mig í byrjun október. Það hefur því verið mikið að gera síðustu vikur og hugurinn annarsstaðar en við eldamennsku og bakstur en ég verð að viðurkenna að ég hef saknað þess mikið að elda bara í rólegheitum og prófa nýjar uppskriftir. Ég vildi aðeins segja frá brúðkaupinu í þessari færslu og koma svo með uppskrift í næstu.

Við giftum okkur semsagt þann 7. október, en í janúar næstkomandi erum við Oliver búin að vera saman í 8 ár. Við byrjuðum saman þegar við vorum 17 ára en við kynntumst árið 2008 þegar við vorum 10 ára. Við giftum okkur í Lindakirkju og séra Guðmundur Karl gaf okkur saman. Þetta var alveg yndislegur dagur og við gátum eiginlega ekki verið heppnari með veður. Pabbi fékk Friðrik Ómar til þess að syngja í kirkjunni sem var bara sturlað. Hann söng Your song og Simply the best og síðan útgöngulagið, uppáhalds lag Olivers, Everytime we touch hahahaha. Heba frænka mín kom svo til Íslands í nokkra klukkutíma stopp til þess að koma í brúðkaupið, hún býr í Árósum, og hún söng lag sem er mér mjög kært, Ást, en Heba söng það alltaf þegar við vorum litlar og söng það líka í skírninni hennar Emmu sem var einmitt líka í Lindakirkju svo þetta var bara alveg fullkomið.

Ég fékk Hörpu Kára til þess að mála mig og Dagný nágrannakonu mína til þess að greiða mér og ég hefði ekki getað verið sáttari! Við áttum ótrúlega notalega stund saman í rólegheitum og skáluðum svo áður en haldið var í kirkjuna. Elísabet Blöndal ljósmyndari var með mér allan daginn að taka myndir og ég bara gæti ekki mælt meira með henni. Ég sendi á hana hvort hún væri laus þessa dagsetningu áður en ég sendi á kirkjuna því ég vissi að ég myndi ekki gifta mig ef hún gæti ekki myndað, það var eina sem var alveg neglt niður að hún þyrfti að mynda daginn okkar. Ég er búin að fá nokkrar myndir frá henni og ég er í skýjunum með hvernig þær komu út. Ég get bara ekki beðið eftir að fá fleiri myndir frá henni, hún er algjör snillingur. Ég keypti blómvöndinn minn í 18 rauðum rósum í Hamraborg, þær gerðu vöndinn nákvæmlega eins og ég hafði séð hann fyrir mér, mæli algjörlega með þeim, græjuðu hann með mjög litlum fyrirvara en ég gleymdi alveg að spá í vendinum þar til vikunni fyrir daginn. Hemmi maður mömmu lánaði okkur bílinn sinn en hann á geggjaðan Porsche sem við skreyttum og notuðum sem brúðarbíl, það var geggjað að stinga af bara tvö í bílnum eftir kirkjuna.

Við vorum með veisluna í sal Flugvirkjafélags Íslands í Borgartúni. Við vorum með annan sal en skiptum ca 1.5 mánuði fyrir brúðkaup, mér fannst þessi salur bara svo svakalega notalegur og ekta partýsalur, ég mæli alveg með að skoða hann. Konurnar sem voru að vinna í salnum voru algjörir fagmenn og græjuðu allt á 0.1 sem þurfti að græja, voru að blanda í G&T fyrir gesti og voru bara í öllu. Þegar fólk mætti í salinn vorum við með fordrykk, freyðivín, og svo með því popp sem ég (ok Auður Hrönn vinkona) setti í glæra poka. Við fengum svo Grillvagninn til þess að elda ofaní fólkið en þeir mæta með allt með sér og taka allt skítugt leirtau tilbaka, sjúklega næs og það voru allir að tala um hvað maturinn hefði verið æðislegur. Við vorum með lambalæri og kjúkling og allskonar meðlæti og það var allt svakalega bragðgott. Síðan í eftirrétt vorum við með brúðartertu, bakka með allskonar góðgæti (döðlugotti, brownie og fl.) og nammibar en við keyptum í heildsölum 2kg af hverri nammi tegund og settum í stór ílát og vorum svo með nammiskeiðar ofaní og poka til hliðar. Við vorum svo með hvítvín, rauðvín, freyðivín, bjóra og sterkt á barnum og eiginlega alltof alltof mikið af því. Ég held við þurfum að halda nokkur partí í viðbót miðað við afganginn sem var af þessu öllu. Um 11 leitið pöntuðum við fullt af Dominos pizzum sem féllu mjög vel í kramið hjá fólki sem var búið að vera í stuði á dansgólfinu allt kvöldið, mæli mjög mikið með að gera þetta!

Bræður mínir voru veislustjórar sem er hlutverk sem þeir eru fæddir í, þessir tvíburar geta búið til góða stemningu hvar og hvenær sem er. Þeir voru með allskonar leiki og kahoot um okkur þar sem borðin kepptu í liðum. Síðan kastaði ég brúðarvendinum mínum og Auður Hrönn vinkona mín greip hann svo það er mikil pressa á manninn hennar að henda sér á skeljarnar núna! Ég fékk síðan Karel vin minn til þess að DJ-a og það var alveg geggjað, það var stuð á dansgólfinu allt kvöldið, ég mæli með að hafa samband við hann ef ykkur vantar DJ hér t.d.

Við hjónin héldum svo úr veislunni beint á Hilton þar sem við fengum svakalega flott herbergi. Það var mjög næs að leggjast á koddan eftir þennan langa viðburðarríka dag og vakna svo daginn eftir og fara í geggjaðan morgunmat. Við fórum svo beint af Hilton í besta besta Gulla Arnar í Hafnarfirði að sækja pöntun sem ég hafði sent inn fyrir bakkelsi og brauði fyrir 10 manns og fórum heim. Þangað komu foreldrar okkar og systkini og við borðuðum saman og opnuðum gjafir sem við höfðum fengið í rólegheitum, alveg ótrúlega notalegur endir á þessari geggjuðu veislu.

Ég er eflaust að gleyma fullt í þessari færslu en ef þið eruð í brúðkaupshugleiðingum eða viljið vita eitthvað nánar megið þið alltaf senda mér skilaboð á instagram! Í lokin vil ég óska Sigþóru vinkonu minni innilegar hamingjuóskir með afmælið en hún á afmæli í dag og hún er búin að minna mig á að ég hafi ekki sett inn færslu í langan tíma mjög reglulega síðustu daga. Læt fylgja með eina geggjaða af okkur Sigþóru birthdaygirl hérna í lokin, henni til heiðurs:

1 athugasemd á “Hjón!

Færðu inn athugasemd