Tortillarúllur í eldföstu móti

Ég er að reyna að vera betri í því að elda úr afgöngum og því sem er til heima og reyna að minnka matarsóun. Það hefur bara gengið ágætlega, sumt kemur betur út en annað, en annað slagið heppnast rétturinn rosalega vel. Þessi réttur var einn af þeim og var markmiðið að nota grænmetið sem ég átti í ísskápnum sem átti fáeina daga eftir. Ég vildi reyna að fela grænmetið svo að Emma myndi borða vel. Emma borðaði af bestu lyst og það var auka bónus hvað þetta var einfalt.

  • 500 gr nautahakk
  • 1 paprika
  • 2 tómatar
  • 1 laukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 grænmetisteningur
  • salt, pipar, cayenne pipar, paprikuduft eftir smekk
  • tortillavefjur
  • salsa sósa
  • rifinn ostur
  • avókadó, sýrður rjómi og snakk

Byrjið á því að skera niður allt grænmetið og steikja það uppúr olíu. Takið grænmetið af pönnunni og setjið í blandara eða maukið með töfrasprota, leyfið aðeins að rjúka úr því fyrst svo blandarinn springi ekki. Steikið hakkið á sömu pönnu. Hellið grænmetismaukinu út á pönnuna ásamt teningnum og kryddið eftir smekk. Hrærið þessu vel saman og leyfið aðeins að malla. Setjið hakkblönduna á tortillurnar og rullið þeim upp. Raðið tortillavefjunum í eldfast mót, toppið þær svo með salsa og rifnum osti. Setjið inn í ofn í 10 mínútur á 180°. Berið fram með avókadó (eða guacamole), sýrðum rjóma og snakki.

Færðu inn athugasemd