Heimsins besta skúffukaka

Seint á fimmtudagskvöldið kom ég heim frá Kaupmannahöfn eftir alveg æðislega ferð. Við frændsystkinin áttum svo góða daga saman og gerðum margt og mikið skemmtilegt. Við fengum bara mjög gott veður, við getum eiginlega ekki kvartað, það rigndi eitthvað smá en annars bara sól og hlýtt. Það er samt alltaf jafn gott að koma heim eftir gott ferðalag, sérstaklega gott að koma heim eftir að hafa verið í burtu frá Emmu og Oliver, að knúsa þau.

Um daginn fórum við í bústað og mér finnst alveg möst að taka með skúffuköku í bústað, eitthvað sem mamma gerði alltaf þegar ég var lítil. Ég var búin að vera að leita að uppskrift til þess að prófa að gera þegar ég kíkti í heimsókn til mömmu. Þá er hún nýbúin að baka skúffuköku eftir sænskri uppskrift og þetta var í alvöru besta skúffukaka sem ég hef á ævinni smakkað, ég er ekki að ýkja! Ég var fljót að mynda hana og fór svo beint heim að baka hana fyrir bústaðinn. Hún fékk mikið lof, ég átti svo sem ekki von á öðru, þið verðið að prófa hana. Kakan sjálf er svo mjúk og djúsí og kremið létt og loftkennt, kakan bráðnar bara í munninum.

  • 4 3/4 dl hveiti
  • 4 3/4 dl sykur 
  • 1 3/4 dl kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 2 egg
  • 2,4 dl ab mjólk
  • 2,4 dl grænmetisolía
  • 2,4 dl soðið vatn

Byrjið á að kveikja á ofninum á 175° og smyrjið skúffukökuform. Blandið öllum þurrefnunum vel saman áður en þið bætið eggjunum, ab mjólkinni og grænmetisolíunni saman við. Hrærið öllu saman áður en þið bætið vatninu saman við undir lokin. Passið að hafa hrærivélina stillta á lágan hraða þegar vatninu er bætt út í, deigið verður mjög blautt. Hellið deiginu í skúffukökuformið og bakið í 30-35 mínútur. Leyfið kökunni að kólna alveg.

Kremið

  • 200 g smjör við stofuhita
  • 1- 1/2 dl flórsykur
  • 200 g brætt súkkulaði
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3-4 msk rjómi

Bræðið súkkulaðið og leyfið því aðeins að kólna. Þeytið saman smjör og flórsykur þar til það er orðið létt og ljóst. Hellið þá súkkulaðinu út í smjörblönduna og hrærið vel saman. Bætið við vanillusykrinum og rjómanum og hrærið vel, þá er kremið tilbúið og því dreift yfir kökuna.

Færðu inn athugasemd