Ég er svo spennt, ég tók mega skyndiákvörðun í gær og ákvað að bóka mér ferð til Köben! Eins og þið eflaust vitið þá búa yngri bræður mínir í Kaupmannahöfn og við mamma heimsóttum þá núna í maí. Það var svo gaman hjá okkur í þeirri ferð og ég er búin að sakna þeirra svo mikið síðan. Það er svo skemmtilegt að frændi minn ætlar að koma með mér út og frænka mín sem býr í Árósum ætlar að koma með lest svo við verðum öll saman frændsystkinin hjá bræðrum mínum. Ég verð í þrjár nætur og við ætlum bara að hafa gaman saman, spjalla, spila, borða góðan mat og hafa notalegt. Við förum út á mánudaginn, ég verð vonandi dugleg að henda allskonar mat og skemmtilegu í story hjá mér á Instagram.

Ég eldaði þennan rétt og vá hvað hann var góður. Hann varð til úr smá ísskápatiltekt hjá mér en ég nánast sleikti diskinn þegar ég var búin að borða. Rosa auðvelt, tók mig nokkrar mínútur að græja og svo þurfti rétturinn bara að malla í rúman hálftíma, allt í einni pönnu, gæti varla verið einfaldara!
- 3 kjúklingabringur
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 1 rauð paprika
- brokkolí
- 2x 250ml fernur kókosmjólk
- karrí eftir smekk, eða um 2 msk
- paprikuduft eftir smekk, eða um 1 msk
- salt og pipar
- 1 kjúklingateningur
- 1 dl hrísgrjón
Byrjið á að steikja laukinn, saxaðann, þar til hann er orðinn gegnsær í olíu. Bætið þá við hvítlauknum, smátt söxuðum eða pressuðum og blandið saman við laukinn. Bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið þar til hann er eldaður á öllum hliðum, bætið þá grænmetinu út á pönnuna, ég setti bara það grænmeti sem ég átti með líka. Bætið síðan kókosmjólkinni út á og kryddunum, teningnum og hrísgrjónunum, hrærið saman og leyfið að malla. Hrærið af og til í svo hrísgrjónin brenni ekki við. Þegar sósan er orðin þykk og hrísgrjónin elduð í gegn þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með sætum kartöflum sem var mjög gott en alveg hægt að sleppa.

