Útskrift og nýir tímar

Í dag vann ég síðasta daginn minn í vinnunni minni. Ég var búin að vinna þar í rúm 5 ár og eignaðist þar góða vini og góðar minningar. Við taka spennandi tímar hjá mér. Ég er komin með nýja vinnu sem ég byrja í eftir sumarfrí. Ég er mjög spennt en staðan er 50% staða svo ég mun hafa góðan tíma til þess að sinna blogginu, sem mér finnst alveg geggjað. Ég er núna komin í langt sumarfrí sem er ótrúlega næs, veðrið mætti þó alveg fara aðeins að skána mín vegna! Við fjölskyldan ætlum yfir helgina til Akureyrar sem verður rosalega gaman, ég er svo spennt að fara með Emmu í jólahúsið, hún elskar jólin meira en allt! Ég sjálf fór oft til Akureyrar sem barn en hef svo ekki farið þangað síðan 2014.

Á laugardaginn s.l. útskrifaðist Oliver með B.Ed. gráðu í Leikskólakennarafræði í Háskóla Íslands. Við héldum auðvitað vel uppá það með góðu partíi hérna heima. Við vorum með fullt af veitingum og drykkjum, allt alveg sjúklega gott. Ég ætla að sýna ykkur nokkrar myndir af veitingunum.

Mamma gerði sjúklega góðar brownies með karamellukókos og sjónvarpsköku að ósk útskriftardrengsins. Tengdó gerði döðlugott, amma gerði pönnukökur með sykri (aftur að ósk Olivers) og Guðrún gerði geðveikt ostasalat sem ég hafði á ostabakka með kexi.

Ég gerði svo franska súkkulaðiköku og blinis. Ég gerði bæði blinis með kavíarnum og svo líka með parmesan-trufflukremi og hráskinku, með innblæstri frá geggjuðum rétti sem ég smakkaði á OTO Restaurant, og það var alveg klikkað gott.

Síðan pöntuðum við mini borgara frá Tasty sem fengu góð viðbrögð gesta og snittur frá Tertugallerí.

Það var mikið stuð og allir sáttir (og vel saddir) eftir daginn.

Ég er spennt fyrir löngu sumarfríi með ykkur kæru blogglesendum stútfullt af uppskriftum og allskonar!

Færðu inn athugasemd