Kladdkaka er ein af mínum uppáhalds kökum. Þær eru svo auðveldar að gera, maður gerir allt í einum potti, svo eru þær líka fljótgerðar en einstaklega bragðgóðar þrátt fyrir litla fyrirhöfn. Ég ólst upp við að borða mikið af kladdkökum í Svíþjóð en kladdkaka beinþýtt á sænsku er klísturkaka. Það er mjög lýsandi fyrir sjálfa kökuna en hún á að vera „klístruð“ í miðjunni. Þessi uppskrift er með jólaívafi en það kemur fram í kryddunum í henni sem minnir á jólin. Ég elska lyktina af negul, hún minnir mig sérstaklega á jólin.

- 150 gr smjör
- 3 egg
- 3 dl sykur
- 4½ msk kakó
- ½ tsk salt
- 1 tsk kanill
- 1 tsk engifer (krydd)
- ½ tsk negull
- ½ tsk kardimomma
- 2½ dl hveiti
Byrjað er á að bræða smjörið á lágum hita í potti og leyft því aðeins að kólna. Síðan er öllum hráefnunum, nema hveitinu, hrært saman við smjörið. Hveitinu er hrært útí þegar allt hitt er blandað vel saman. Deiginu er hellt í vel smurt form og bakað í 20-25 mínútur við 175°. Kökunni er leyft að kólna aðeins, síðan er flórsykri stráð yfir.