Jóla kladdkaka

Kladdkaka er ein af mínum uppáhalds kökum. Þær eru svo auðveldar að gera, maður gerir allt í einum potti, svo eru þær líka fljótgerðar en einstaklega bragðgóðar þrátt fyrir litla fyrirhöfn. Ég ólst upp við að borða mikið af kladdkökum í Svíþjóð en kladdkaka beinþýtt á sænsku er klísturkaka. Það er mjög lýsandi fyrir sjálfa kökuna en hún á að vera „klístruð“ í miðjunni. Þessi uppskrift er með jólaívafi en það kemur fram í kryddunum í henni sem minnir á jólin. Ég elska lyktina af negul, hún minnir mig sérstaklega á jólin.

  • 150 gr smjör
  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 4½ msk kakó
  • ½ tsk salt
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • ½ tsk negull
  • ½ tsk kardimomma
  • 2½ dl hveiti

Byrjað er á að bræða smjörið á lágum hita í potti og leyft því aðeins að kólna. Síðan er öllum hráefnunum, nema hveitinu, hrært saman við smjörið. Hveitinu er hrært útí þegar allt hitt er blandað vel saman. Deiginu er hellt í vel smurt form og bakað í 20-25 mínútur við 175°. Kökunni er leyft að kólna aðeins, síðan er flórsykri stráð yfir.

Lindor súkkulaðimús

Eftir mikla inniveru, liggjandi uppi í sófa, þá er ég búin að horfa mjög mikið á Netflix. Ég datt niður á seríu sem kom út 2019 sem ég átti eftir að horfa á. Þessi sería heitir „Hjem til jul“ og eru komnar út tvær seríur af þeim. Þetta eru alveg ótrúlega sætir norskir jólaþættir sem ég mæli heilshugar með. Það var frekar fyndið að daginn eftir að ég kláraði þá, sendi Hanna vinkona mín mér að ég yrði að horfa á þætti sem hún væri að horfa á, þá voru það sömu þættir. Þannig við Hanna vinkona getum að minnsta kosti mælt með þeim!

hjem til jul | Explore Tumblr Posts and Blogs | Tumgir

Uppáhalds „jólanammið“ mitt eru án efa rauðar Lindor súkkulaðikúlur. Ég er með á eldhúseyjunni minni nokkrar í skál sem skraut, en skrautið endist yfirleitt ekki lengi. Ég ákvað að prófa að gera súkkulaðimús úr þessu súkkulaði og það kom svo svakalega vel út. Uppskriftin er fyrir fjóra.

  • 250 ml rjómi
  • 8 Lindor-kúlur
  • 2 eggjarauður

Byrjað er á að bræða kúlurnar yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Rjóminn er léttþeyttur á meðan súkkulaðið fær aðeins að kólna. Þegar súkkulaðið er ekki lengur brennandi heitt þá er eggjarauðunum hrært saman við. Ef blandan verður kekkjótt eða mjög þykk þá er smá rjóma bætt út í. Súkkulaðiblöndunni er svo varlega hrært saman við léttþeyttan rjómann með sleif. Súkkulaðimúsin er þá sett inn í ísskáp og leyft að stífna. Ég setti músina svo í sprautupoka með stút og sprautaði í falleg glös.